15. apríl 2011

Hafragrautur og ljóð

Um daginn tók ég upp lífsreglu. Það er fátíður viðburður, enda ástæðulaust að setja sér reglur ef litlar líkur eru á að þeim verði framfylgt lengur en viku. Nú er liðinn næstum mánuður og reglan gildir enn sem er merkilega góður árangur. Hún felur í sér að ég eigi ekki að fara út úr húsi á morgnana án þess að hafa borðað morgunmat, alveg sama þótt ég sé orðin sein (sem er algengara en ekki).

Nú er ég orðin rútíneruð í að sjóða hafragraut í svefnrofunum og líka í að hlaupa til, kippa pottinum af hellunni og hreinsa eldavélina þegar sýður upp úr því ekki gef ég mér tíma til að standa yfir pottinum meðan suðan kemur upp. Svo sest ég róleg í nokkrar mínútur og ét grautinn, sem er gott, en stundin fullkomnast ekki nema ég hafi orð fyrir augunum.

Þótt mjólkurfernurnar hafi skánað eftir að hætt var að birta meint ljóð eftir grunnskólanema á þeim duga þær heldur skammt sem lesefni. Svo eru þær ekki eins skemmtilegar og í gamla daga þegar langa heitið á B2-vítamíni var tilgreint til viðbótar við stafinn og númerið (ef ég man rétt); nú er búið að svipta mann möguleikann til að velta vöngum yfir því hvers konar vín þetta ríbóflavín sé eiginlega.

Fljótlega uppgötvaði ég að það hentar fullkomlega að lesa alvöru ljóð í/með morgunmat. Oftast er nokkuð auðvelt að finna mátulegan skammt fyrir mínúturnar sem hafragrautsátið tekur en valið getur samt verið vandasamt því ekki er sama hvers konar ljóð eru lesin í þessu samhengi. Einn morguninn urðu Blótgælur eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur t.d. fyrir valinu. Sú bók hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér síðan hún kom út (og er enn) en ég uppgötvaði að allt hefur sinn tíma og það getur verið áhættusamt að neyta Blótgælna snemma morguns. Ég álpaðist til að opna bókina á upphafsljóðinu, „Morgunn“, sem er svohljóðandi:
með nauðgunarseyðing í klofinu
rauðeygð og einhvers staðar
miðja vegu milli ölvunar og þynnku
skríður dögunin fram úr
lætur fallast á hnén
og ælir litríku hálfmeltu innvolsi sínu
yfir okkur varnarlaus

Í ljós kom að það getur verið allnokkrum erfiðleikum bundið að lesa um ælu og éta hafragraut um leið. Reyndar slapp fyrir horn að ég tæki þátt í uppköstum dögunarinnar en þetta var samt nokkuð brött byrjun á morgninum. Vissulega vaknar maður rækilega við að fá blauta tusku framan í sig en ég hef reynt að velja mér mýkri eða allavega öðruvísi lendingu síðan.

Síðustu daga hafa Tvíbreitt (svig)rúm, Bak við maríuglerið og fleiri af elstu bókum Gyrðis Elíassonar verið á morgunverðarborðinu og bjargað því sem bjargað verður af hverjum degi. (Þökk sé Þórdísi fyrir að minna á þær þegar það fagnaðarefni fréttist að Gyrðir fengi bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs – ég dreif mig á bókasafnið og birgði mig upp en þrái að eignast þessar ljóðabækur einhvern tíma. Veit einhver um eintök sem vantar gott heimili?)

Á þessum tímum þegar tíðarfarið er rysjótt á ýmsum sviðum hefur ljóðið „Orðsendíng til regnfólksins“ (úr Bak við maríuglerið frá árinu 1985) t.d. verið afbragðs upphaf á degi:

í
votviðrinu
sem verið hefur undanfarna daga
hef ég
setið inni
við og
spunnið vef
úr hugsanaþráðum

fljótlega
mun ég
streingja hann
yfir þök
húsanna

strax
og upp
styttir


---------------------

P.S.
Hvað með ykkur, kæru lesendur, lesið þið við morgunverðarborðið? Ef svo er, hvað?

P.P.S.
Fregnir herma að von sé á nýjum ljóðum eftir Kristínu Svövu. Ég bíð spennt eftir að kanna hvernig þau passa við hafragraut á morgnana.

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mæli með goji-berjum út í hafragrautinn. Þau ku vera með því hollasta sem til er - fyrir utan ljóð.
JL

Þórdís Gísladóttir sagði...

En smápoki af goji-berjum kostar þúsundkall! Ég voga mér ekki að smakka því ég gæti ánetjast og þar með endað í ræsinu eins og hver annar heróínisti.

Helga Ferdinands sagði...

Í morgun las ég Europrísbæklinginn. Það var hressandi snemmmiðaldra lesning.

Guðrún Elsa sagði...

Ég held að nýju ljóðin hennar Kristínar passi betur með kokteil eða vitabarsborgara. Prófaðu þau samt með hafragraut og láttu okkur vita.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Þessi goji-ber eru ábyggilega ágæt ef maður tímir að kaupa þau en ég hef aðallega heyrt um þau í upptalningu á fæðutegundum í einhvers konar töfralausnarsamhengi sem virkar alltaf óttalega fráhrindandi á mig.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Helga, Europrisbæklingurinn er reyndar í miklu uppáhaldi hjá mér en hann les ég yfirleitt í vinnunni. Deildin mín les hann meira að segja gjarnan saman og spáir og spekúlerar. Var þetta nýjasti bæklingurinn þar sem finna má "ofurdúk" með teflonhúð og á forsíðunni er mynd af meintri köku sem lítur eiginlega alveg eins út og hryggurinn á myndinni fyrir ofan?

Erna Erlingsdóttir sagði...

Ég sé fyrir mér langt rannsóknarverkefni sem snýst um að finna bókmenntir og mat sem passar saman eða passar ekki saman. Hvar ætli maður geti fengið styrk í svoleiðis?

Ásta Kristín sagði...

Vá, ég væri til í svoleiðis verkefni. Fáðu Nönnu með þér og styrkurinn er kominn med det samme :)

Helga Ferdinands sagði...

Einmitt, Erna, kökulíkið olli það miklum heilabrotum að ég dró niður gleraugun til að rýna nær-fjærsýn á herlegheitin en komst ekki að niðurstöðu. Plönturíkið eða dýra, óljóst. En þennan ofurdúk tel ég þarfaþing.

Kristín Svava sagði...

Ég þakka falleg orð og útbreiðslu fagnaðarerindisins, jafnvel þótt það fari ekki vel með hafragraut. Ég held ég hafi aldrei lesið ljóð á morgnana, enda er ég svo svakalega lengi að borða að heil ljóðabók dygði mér varla með morgunmatnum (nema ef ske kynni ljóðasafn Sverris Stormsker, sem er doðrantur). Þess vegna les ég bara ansvítans dagblöðin. Það er eiginlega frekar tónlist en bókmenntir sem hjálpa mér mjúklega út í daginn (ég hjarta morgunstund með KK).

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Ég les yfirleitt bara það sem hendi er næst, t.d. er ég búin að lesa bæklinginn "Þjóðaratkvæðagreiðsla 9. apríl" óþarflega oft þar sem hann lá á eldhúsborðinu ansi lengi. Les þó stundum New Statesman mér til ánægju. Þegar ég var barn á líbó heimili þurfti reyndar bara að setja eina formlega reglu - það var að ekki mætti lesa við kvöldverðarborðið. Ástæðan var sú að ég var með nefið ofan í bók í hvert sinn sem ég settist að snæðingi og foreldrar mínir ákváðu að kvöldmaturinn ætti að fjölskyldustund fyrir skraf og spjall. Nú er ég náttúrulega löngu búin að brjóta þá reglu.

krummi sagði...

ég les meðan ég hræri í hafragrautnum. núna eru það 90 sýni úr minni mínu. annars er ég á þönum við það að stjana við ungviðið, svo það verður lítið úr lestri snemmmorguns.