16. maí 2011

Börn og menning


Vorhefti Barna og menningar árið 2011 kemur út í vikunni. Í ritinu eru þrjár greinar um múmínálfabækurnar eftir Tove Jansson; Erna Erlingsdóttir, íslenskufræðingur, fjallar um skáldsöguna Seint í nóvember, Sirke Happonen, kennari við Háskólann í Helsinki, skrifar um dansinn sem tjáningu persóna í múmínálfabókunum og Dagný Kristjánsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, skrifar grein með yfirskriftina Múmínálfarnir og hamskiptin. Af öðru efni má nefna umfjöllun Elinu Druker, kennara við Stokkhólmsháskóla, um nýja strauma í myndlýsingum sænskra barnabóka og einnig skrifa Gerður Kristný, Hallgrímur J. Ámundason, Rúnar Helgi Vignisson, Arndís Þórarinsdóttir, Brynja Baldursdóttir og Þórdís Gísladóttir greinar í blaðið um fjölbreytileg efni, auk þess sem í því má finna fréttir af öflugu starfi IBBY-samtakanna.
Börn og menning kemur út vor og haust og er þetta 26. árgangurinn. Það er alþýðlegt fræðirit um barnamenningu og eina íslenska tímaritið sem eingöngu fjallar um þann geira menningarinnar sem snýr sérstaklega að börnum.
Börn og menning er gefið út af IBBY á Íslandi, sem er skammstöfun fyrir International Board on Books for Young People, en það eru alþjóðleg samtök sem stofnuð voru 1953 og starfa nú í sjötíu löndum. Markmið samtakanna er að vinna í anda stofnandans, Jellu Lepman, sem áleit að góðar barnabækur gætu byggt brú á milli þjóða heims og miðlað fróðleik og skilningi milli ólíkra menningarsamfélaga. IBBY á Íslandi hefur starfað frá árinu 1985.
Ritstjóri Barna og menningar er Þórdís Gísladóttir en aðstoðarritstjóri er Helga Ferdinandsdóttir, sem tekur alfarið við ritstjórninni frá og með haustheftinu 2011.

Engin ummæli: