31. júlí 2011

Atlas um afskekktar eyjar

Landakort eru ekki bara hagnýtir hlutir. Þau geta t.d. alveg eins verið heilmikið fyrir augað og fóðrað ímyndunaraflið á ýmsa vegu. Í formála bókarinnar sem hér er til umfjöllunar segir Judith Schalansky frá því hvernig hún ferðaðist gjarnan í huganum með hjálp landakorts þegar hún var barn. Dró atlas fram úr hillunni, lét sig dreyma, þræddi leiðir með fingurgómnum, smjattaði á framandi örnefnum og ímyndaði sér staðina sem fyrir urðu. Löngu síðar bjó hún til íðilfagra bók á þessum grunni sem gæti á íslensku kallast Atlas um afskekktar eyjar. Fimmtíu eyjar þar sem ég hvorki var né verð.* Þar valdi hún fimmtíu afskekktar eyjar víðsvegar á heimskortinu, gerði kort af þeim og samdi um þær sögur. Eins og fram kemur í titlinum hefur Schalansky aldrei komið á eyjarnar og býst ekki við að stíga þar nokkurn tíma fæti.

Síðan ég var barn hef ég sjálf stundað álíka landakortaferðalög og Schalansky þannig að þegar ég las um bókina í þýsku blaði fyrir allnokkru var strax ljóst að þarna væri eitthvað fyrir mig. Því miður steingleymdi ég að panta hana þannig að það var óvænt ánægja að rekast á enska þýðingu í Eymundsson í vor. Það gerðist á leiðindadegi þar sem fjölmargt var að angra mig en bókarkaupin reyndust afar skapbætandi og hafa bjargað ýmsum dögum eftir það.

Samhengið milli landakorta og ímyndunaraflsins getur falist í fleiru en hugarflugi um ferðalög og staði eins og Schalansky minnist á í formála. Þótt landakortum sé oftast ætlað að miðla veruleikanum á einhvern hátt, þá endurspegla þau bara valda þætti hans. Á kortum þar sem hvert ríki er í ákveðnum lit fer landslagið forgörðum, á kortum þar sem litir eru notaðir til að sýna lögun landsins verður gróðurfar eða skortur á því útundan og svona mætti lengi telja. Að ekki sé talað um hvernig mismunandi vörpun hnattarins yfir í tvívíðan flöt brenglar veruleikann eins og CJ Cregg uppgötvaði í einni af uppáhaldssenunum mínum í Vesturálmunni þegar hún neyddist til að hitta „Cartographers for Social Equality“ sem röskuðu heimsmynd hennar verulega.

Það er samt einkum ímyndun um staðina á landakortunum sem ræður för í Atlas um afskekktar eyjar en þar blandast saman alvöru- og þykjustulandafræði. Hver af þeim fimmtíu eyjum sem Schalansky hefur valið fær eina opnu í bókinni. Á hægri síðu er fínlegt kort af eyjunni en á vinstri síðu er heillandi sambland af staðreyndum og skáldskap. Þar er byrjað á heiti eða heitum eyjarinnar, tölulegum upplýsingum um stærð og fjölda íbúa ef einhverjir eru, sýnd er staðsetning og fjarlægð frá nokkrum stöðum auk þess sem birt er tímalína með völdum þáttum úr sögu eyjarinnar. Á eftir þessum fróðleik birtist örsaga um eyjuna. Örsögurnar fimmtíu eru af ýmsu tagi en þar koma m.a. við sögu yfirgefnar veðurathugunarstöðvar, skipbrot, fangabúðir, kjarnorkutilraunir, sækýr, tungumál, kynferðisbrot, svarthvít svín, fjall sem lagði á flótta frá öfund annarra, morð og matareitrun.

Schalansky samdi ekki bara bókina heldur hannaði hana líka og hefur nostrað við hvert smáatriði, enda fékk bókin einhvers konar verðlaun sem fegursta bók Þýskalands árið 2009. (Hér má gægjast í hana.) Litavalið er markvisst: grátt, blágrátt, appelsínugult, svart og hvítt; gráhvítur pappírinn virðist stundum næstum fá silfraðan blæ og letur og umbrot er vandlega úthugsað.

Þetta er bók fyrir alla sem hafa snert af landabréfablæti, bókablæti, staðreyndablæti eða skáldskaparblæti – og alveg sérstaklega fólk sem býr yfir þessu öllu.

- - - - - - - - -
* Á þýsku heitir bókin Atlas der abgelegenen Inseln. Fünfzig Inseln, auf denen ich nie war und niemals sein werde. Í enskri þýðingu kallast hún Atlas of Remote Islands en undirtitillinn er aðeins mismunandi eftir heimsálfum; í amerísku útgáfunni: Fifty islands I have never set foot on and never will, en í þeirri bresku: Fifty islands I have not visited and never will.

3 ummæli:

Eyja M. Brynjarsdóttir sagði...

Þetta hljómar spennandi.

Katla Ísaksdóttir sagði...

Ég gerði lítið annað en að blætast yfir landakortum á sínum tíma. Verð greinilega að tékka á þessari!

Guðrún Lára sagði...

Þetta hljómar undursamlega! Þessi fer á óskalistann!