26. júlí 2011

Um ritlistarnám II

Téa Obreht er tuttugu og fimm ára, nýútskrifuð úr ritlistarnámi og hún var yngsta manneskjan á lista New York Times yfir 20 bestu bandarísku rithöfundana undir fertugu. Listinn var birtur nokkru áður en fyrsta skáldsaga hennar, The Tiger´s Wife, kom út, og raunar hafði sáralítið eftir hana birst á prenti áður en listinn var gerður opinber. Fyrsta skáldsagan var því vel hæpuð þegar hún kom loksins út, og hún hlaut frábærar viðtökur. Obreht fékk Orange-verðlaunin fyrir hana og er yngsti handhafi þeirra frá upphafi.

En hæpið getur líka verið hættulegt, einsog Obreht fékk svo sannarlega að kenna á nýverið, þegar rithöfundurinn Ruth Fowler lét hana fá það óþvegið í bloggi á Huffington Post. Fowler finnst bókin ömurlega leiðinleg, ofmetið drasl, og hún skellir skuldinni á MFA-gráðu Obreht í ritlist. Hún segir:
„The Creative Writing MFA is the singularly most devastating occurrence to hit literature in the 20th century, churning out writers of utterly indistinguishable competence.“
Fowler veltir upp nokkrum gömlum tuggum um ritlistarnám einsog hvort það sé yfirhöfuð hægt að kenna fólki að skrifa, kvartar yfir því að það sé verið að framleiða einsleitan hóp af ríkum rithöfundum sem hafi efni á náminu og læri þar að setja saman fágaðar setningar, en hafi ekkert til að skrifa um afþví þau viti ekki neitt því þau hafi ekkert lifað (annað en Fowler sjálf sem hefur afar skrautlegan feril). Og svo það sem virðist fara mest í taugarnar á henni: Hún vill meina að ritlistarnemar fái einhverskonar frípassa inn í útgáfuheiminn því í náminu hafi þau aðgang að rithöfundum, agentum og útgáfum á meðan hæfileikaríka en próflausa fólkið sem hefur lifað fær aldrei séns.

Ég er alltaf svolítið hissa á þessari heift sem sumir virðast hafa gagnvart ritlistarnámi og ég á bágt með að skilja hversvegna það er talið eðlilegt að þeir sem stunda aðrar listgreinar og iðnir mennti sig í þeim, á meðan sú krafa er gerð til rithöfunda að þeir séu sjálfsprottnir snillingar. Ég hef meira að segja séð viðtöl við útlenska rithöfunda sem stæra sig beinlínis af því að hafa ekki farið í einn einasta ritlistarkúrs.

En ritlistarnám er vissulega umdeilt nám. Ég er sjálf með próf í ritlist (og játa svolitla fordóma fyrir náminu áður en ég byrjaði) og ég skrifaði mínar hugleiðingar um námið hér, ykkur er velkomið að lesa þær. Rúnar Helgi, lektor í ritlist, skrifar svo sínar vangaveltur hér. Hann verður vonandi ekki sár ef ég bendi á þær. Svo má ég líka til með að benda ykkur á krúttlegan pistil um ritsmiðjur hér.

Ég útskrifaðist fyrir tæpu ári og var með þeim fyrstu sem kláruðu BA-próf í ritlist frá Háskóla Íslands. Það er því alls ekki komin reynsla á það hvernig ritlistarmenntuðu fólki reiðir af í íslenskum bókmenntaheimi miðað við aðra, og það er ennþá síður hægt að leggja mat á það hvort ritlistarnemar hér komi til með að hafa greiðari aðgang að útgefendum en aðrir.

Ég efast samt um að sú verði raunin, ekki síst vegna þess að útgáfubransinn hér á Íslandi er ekki eins ógurlegur frumskógur og t.d. í Bandaríkjunum og Bretlandi. Landið er blessunarlega svo lítið að maður getur sent forleggjurum handrit og verið viss um að þeir lesi það.

En það verður spennandi að sjá hvernig umræðan um ritlistarnámið og þá sem útskrifast hérna þróast.

Ég get allavega fyrir mína parta sagt að ég hef nákvæmlega engar áhyggjur af því að Háskóli Íslands fari að fjöldaframleiða rithöfunda sem allir skrifa eins. Það er a.m.k. ekki á skrifum samnemenda minna að sjá að það sé nokkur einasta hætta á því.

P.S. Ég er annars byrjuð á bókinni hennar Obreht. Ég skal svo segja ykkur hvernig mér finnst hún við tækifæri.

10 ummæli:

krumma sagði...

þetta er alveg hreint ótrúlega fönkí umræða! ég var nýlega stödd í boði og þegar sessunautur minn heyrði mig segja frá því að ég væri á leið í ritlistarnám spurði hún hvort ég hefði misst svona mikið úr í sex ára bekk þegar það var kennt að skrifa, hún gat bara ekki með nokkru móti skilið hvað maður geri í svona námi

Nafnlaus sagði...

Tengist þetta ekki bara gömlum og kjánalegum snillingshugmyndum og að fólk eigi þá að vera annað hvort skáld eða ekki og að þetta sé þá meðfætt þannig að ekki sé hægt að læra að vera snillingur?

Nafnlaus sagði...

Gildir þetta samt ekki um hvers kyns listnám? Fá myndlistarnemar sömu viðtökur?

Erna Erlingsdóttir sagði...

Er ekki hugsanlegt að viðkvæmnin gagnvart námi af þessu tagi byggist oft á einhvers konar ranghugmyndum um nám? Þ.e. að margir telji nám einingis fela í sér að læra meintar "réttar" staðreyndir/aðferðir o.þ.h. og séu ekki meðvitaðir um að aðalatriðin í ýmsu námi geti verið þjálfun í gagnrýnni hugsun um það sem maður er að gera, þjálfun í mismunandi vinnubrögðum o.s.frv.?

Hildur Knútsdóttir sagði...

Fær myndlistarfólk sömu viðbrögð? Mér finnst það nefnilega yfirleitt tekið sérstaklega fram ef myndlistarmaður er ómenntaður, en frekar tekið fram ef rithöfundur hefur lært ritlist.

Og já Erna, það getur vel verið að þetta tengist því einhvernveginn. Að fólki finnist nám sé frekar til að læra staðreyndir en að æfa sig í vinnubrögðum.

Krumma: Ertu að fara í mastersnám í ritlist?

krumma sagði...

jess miss, er búin að vera að bíða eftir að þetta yrði mastersnám, ég er búin með ba í bókmenntafræðinni

Nafnlaus sagði...

Guðrún Erna Högnadóttir sagði... Þetta eru samt svipuð viðbrögð og fólk sem er í íslenskunámi, eða ítölsku, eða þýsku, eða þýðingafræði, eða..., ´nú verðuru þá löggiltur skjala- og dómtúlkur?´, ´Hva kanntu ekki íslensku?´ osvfr. Ef ´fólk´ getur ekki tengt ´námið´ við eitthvert ákveðið starf, og þá ´viðurkennt´ starf, þá skilur það oft ekki út á hvað þetta gengur...

Bukowski alltaf skemmtilegur ;)
http://allpoetry.com/poem/8509537-So_You_Want_To_Be_A_Writer-by-Charles_Bukowski

Húni sagði...

það má vel vera að þessi bók sé slöpp, en eftir að hafa gluggað aðeins í bloggið hennar Mimi/Ruth Fowlers þá á ég full erfitt með að taka kvartanir hennar yfir skort rithöfunda á frumleika alvarlega

eitt versta dæmið :

http://miminewyork.blogspot.com/2005/03/la-puta-que-te-pare.html

Katla Ísaksdóttir sagði...

Èg er alltaf að átta mig betur og betur á því hvað þessar tvær vinnusmiðjur sem ég tók í ritlist í HÍ voru mikils virði fyrir mig, þá ekki síst hvað varðar félagsskapinn, upp til hópa indælt fólk sem sækir ritlistarnám. Mússímúss.

Hildur Knútsdóttir sagði...

Krumma: Ég dauðöfunda þig, það á pottþétt eftir að verða megagaman hjá ykkur.

Húni: Já, í fljótu bragði finnst manni svolítið skrýtið að þessi kona sé að skamma aðra fyrir að skrifa leiðinlegan texta (tek það samt fram að ég hef ekki lesið bókina hennar, bara kíkt á bloggið og nokkrar greinar).

Katla: Já það segirðu sko satt!