4. júlí 2011

Hold og kjöt

Þessi smápistill birtist í Mogganum um síðustu helgi, ég var lesandi vikunnar eða eitthvað svoleiðis, og þar sem ég býst við að fleirum sé farið eins og mér, að vera hætt að lesa Moggann, fékk ég góðfúslegt leyfi til að birta hann hér einnig. Ég held að trygglyndir lesendur hans hefðu gott af smá skammti af Virgilio - en þess má geta að ég er jafnvel að hugsa um að selja þessa bók á flóamarkaði druslubókadama í Norðurmýrinni næsta laugardag og leyfa fleirum að njóta, ef áhugi er fyrir hendi!

---

Undanfarið hef ég aðallega verið að lesa höfunda sem þurfa ekki sárlega á því að halda að vera komið á framfæri, gamla karla sem hafa ýmist fengið Nóbelsverðlaun eða verið tilnefndir oftar en einu sinni. Eina bók las ég hins vegar í miklu lestrarmaraþoni í vor sem mér þykir þess verð að auglýsa svolítið; það er skáldsaga eftir kúbanska höfundinn Virgilio Piñera, sem heitir á frummálinu La carne de René en ég las í ensku þýðingunni sem René´s Flesh. Piñera var ljóð- og leikritaskáld, smásagna – og skáldsagnahöfundur og Hold Renés var hans fyrsta skáldsaga, kom út árið 1952.

Það carne sem kemur fyrir í titlinum getur á spænsku þýtt bæði hold og kjöt og sú tvíræðni er í raun lykillinn að bókinni, en verður óhjákvæmilega dálítið stirð í þýðingu. Ég ráðlegg því þeim sem lesa spænsku á annað borð að reyna frekar að verða sér úti um upprunalega útgáfu bókarinnar en enska þýðingu, þótt hún sé að öðru leyti ágætlega gerð.

Aðalpersóna sögunnar er René, veikbyggður unglingspiltur. Hann á yfirgangssaman og ráðríkan föður sem er fylgismaður undarlegs sértrúarsöfnuðar sem tignar holdið og kjötið framar öllu. Faðirinn reynir með öllum ráðum að vígja René inn í þennan dýrkendaflokk, meðal annars með því að láta hann snerta ógeðsleg sár sem faðirinn hefur rist í eigið hold og neyða hann til að standa í röðinni í kjötbúðinni, en René ræður ekki við verkefnið og fellur í yfirlið. Svo fer að faðir hans sendir hann í piltaskóla söfnuðarins þar sem nemendurnir eru hafðir í taumi og með múl eins og hundar og þjálfaðir í ögun og dýrkun holdsins. Hómóerótískur og sadómasókískur andi svífur yfir vötnum. En þótt René sýni mótþróa og takist á endanum að sleppa úr kjötskólanum er raunum hans ekki lokið.

Alla bókina er René að berjast við fólk sem vill eiga hann og ráða yfir honum, gjarnan í holdlegum skilningi. Þetta fólk er hvert öðru einkennilegra; kjötdýrkandi faðir hans, væmin eldri nágrannakona sem girnist hann, drykkfelldir og sadískir kennarar í piltaskólanum, að ekki sé minnst á akfeitan og útlimasmáan mann sem heitir einfaldlega Kjötbolla og á unglingspilta fyrir elskhuga sem rúlla honum um stofugólfið með priki.

Ég hef lesið svolítið af ljóðum eftir Piñera og það er sami fáránleikablær yfir þeim og þessari skáldsögu. Hún er uppfull af skrítnum persónum og absúrd uppákomum, hugmyndaauðgi og pervertisma. Það finnst mér skemmtilegt.

2 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég ætla ekki að reyna að ljúga að sjái Moggann nema örsjaldan svo það er ljómandi að sjá þetta hér. Þessi bók hljómar áhugaverð (já og feisbúkksíða flóamarkaðarins er: http://www.facebook.com/event.php?eid=224976974188191)

guðrún elsa sagði...

Kjötbollan hljómar eins og fyndnasta sögupersóna í heimi.