Brýst út úr líknarbelgnum
á hverjum morgni
stend nakin
og slímug
ný
fer þannig til fundar
við tungumálið til að
rjúfa himnur
blotna í gegn
skjálfandi
gegnsósa og
gagntekin stilli ég
hrifnæmið
í botn
brýst út úr belgnum
til að laumast
skríða
aftur inn.
Síðustu fjögur ljóðskáldaviðtöl hér á druslubókasíðunni hafa verið við skáld sem hafa verið að gefa út bækur á vormánuðum 2016 en nú snúum við aftur til ársins 2015. Ein þeirra ljóðabóka sem kom út á árinu er óvenjuleg fyrir þær sakir að hún er ekki ort af einu skáldi heldur skáldasamsteypu sjö kvenna sem eiga það sameiginlegt að hafa útskrifast með MA-gráðu í ritlist frá Háskóla Íslands. Þær eru Guðrún Inga Ragnarsdóttir, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Heiðrún Ólafsdóttir, Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Soffía Bjarnadóttir og Æsa Strand Viðarsdóttir. Ljóðasamsteypa þeirra kallast Skógurinn og vísar þar í bókartitilinn (eða öfugt): Ég erfði dimman skóg.
Sælar, takk fyrir að koma í hópviðtal!
Ég erfði dimman skóg er frekar óvenjuleg ljóðabók; það er ekki á hverjum degi sem hópur skálda tekur sig saman um að skapa ljóðverk þar sem ljóðin eru aukinheldur ekki aðgreind eftir höfundi heldur renna saman í eina heild. Hvernig kviknaði þessi hugmynd?
Held að hún hafi kviknað út frá nokkrum neistum. Okkur langaði að vinna saman. Okkur langaði að skrifa. Skrifa um arf og skóg.
Kannski kom hugmyndin að bókinni – verkinu, síðast í þessu ferli, eða allt svo allt svo, akkúrat þessu verki, þegar við sáum að við áttum fullt af textum sem harmóneruðu saman.
Ég man fyrst eftir þessari hugmynd á kaffihúsi. Örugglega KaffiTár þarna í Þjóðminjasafninu. Það var rigning en ekki rok samt. Sem er sjaldgæft. En það er nóg af roki í þessum arfi. Það hlýtur að hafa verið haust. Jú, það var pottþétt haust. Eitthvað skrælnað lauf fannst þarna á botninum með kaffikorginum. Þetta var mjög gamalt lauf.
Titill bókarinnar er fenginn úr ljóðinu Madrigal eftir Tomas Tranströmer, sem birtist í upphafi bókar, og skógurinn er eins konar stef gegnum bókina – auk þess að vera nafn skáldasamsteypunnar. Skógurinn er að öðru leyti ekki fyrsta ljóðræna stefið eða efnið sem manni dettur í hug í íslensku samhengi – með fullri virðingu fyrir Hallormsstaðaskógi. Hvað var það við ljóð Tranströmers og við skóginn sem höfðaði til ykkar?
Arfur, skógur – rætur, án þeirra verður enginn skógur.
Fyrir mína parta var það ekkert endilega skógurinn sem heillaði – nema bara þessi lína: ég erfði dimman skóg. Háskóli gleymskunnar og skyrtan á þvottasnúrunni er mér ofar í huga. En við byrjuðum að spá í þessum skógi og þessum arfi og úr því spratt þetta nú allt saman.
En við komumst samt bara að því einn daginn að við værum skógur. Við vorum að leita að leiðinni heim. Ef skáldskapur er ekki skógur þá er hann kannski sjór. Ljóðið Madrigal var eitt af því sem sameinaði okkar. Ást okkar á þessu djúpa og tæra ljóði. Þar er sagt svo fallega: „Á sama hátt er einhversstaðar í lífi okkar mikill óupplýstur kærleikur.“ – Upphafssetning ljóðsins varð að okkar leiðarstefi, möntru, sannleika – og vísar langt út fyrir persónulegt líf og hefur auðvitað ekki bara með konur að gera heldur heilt mannkyn, um aldir.
Sýnir færslur með efnisorðinu Ritlist. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Ritlist. Sýna allar færslur
22. maí 2016
26. júlí 2011
Um ritlistarnám II

En hæpið getur líka verið hættulegt, einsog Obreht fékk svo sannarlega að kenna á nýverið, þegar rithöfundurinn Ruth Fowler lét hana fá það óþvegið í bloggi á Huffington Post. Fowler finnst bókin ömurlega leiðinleg, ofmetið drasl, og hún skellir skuldinni á MFA-gráðu Obreht í ritlist. Hún segir:
„The Creative Writing MFA is the singularly most devastating occurrence to hit literature in the 20th century, churning out writers of utterly indistinguishable competence.“Fowler veltir upp nokkrum gömlum tuggum um ritlistarnám einsog hvort það sé yfirhöfuð hægt að kenna fólki að skrifa, kvartar yfir því að það sé verið að framleiða einsleitan hóp af ríkum rithöfundum sem hafi efni á náminu og læri þar að setja saman fágaðar setningar, en hafi ekkert til að skrifa um afþví þau viti ekki neitt því þau hafi ekkert lifað (annað en Fowler sjálf sem hefur afar skrautlegan feril). Og svo það sem virðist fara mest í taugarnar á henni: Hún vill meina að ritlistarnemar fái einhverskonar frípassa inn í útgáfuheiminn því í náminu hafi þau aðgang að rithöfundum, agentum og útgáfum á meðan hæfileikaríka en próflausa fólkið sem hefur lifað fær aldrei séns.
Ég er alltaf svolítið hissa á þessari heift sem sumir virðast hafa gagnvart ritlistarnámi og ég á bágt með að skilja hversvegna það er talið eðlilegt að þeir sem stunda aðrar listgreinar og iðnir mennti sig í þeim, á meðan sú krafa er gerð til rithöfunda að þeir séu sjálfsprottnir snillingar. Ég hef meira að segja séð viðtöl við útlenska rithöfunda sem stæra sig beinlínis af því að hafa ekki farið í einn einasta ritlistarkúrs.
En ritlistarnám er vissulega umdeilt nám. Ég er sjálf með próf í ritlist (og játa svolitla fordóma fyrir náminu áður en ég byrjaði) og ég skrifaði mínar hugleiðingar um námið hér, ykkur er velkomið að lesa þær. Rúnar Helgi, lektor í ritlist, skrifar svo sínar vangaveltur hér. Hann verður vonandi ekki sár ef ég bendi á þær. Svo má ég líka til með að benda ykkur á krúttlegan pistil um ritsmiðjur hér.
Ég útskrifaðist fyrir tæpu ári og var með þeim fyrstu sem kláruðu BA-próf í ritlist frá Háskóla Íslands. Það er því alls ekki komin reynsla á það hvernig ritlistarmenntuðu fólki reiðir af í íslenskum bókmenntaheimi miðað við aðra, og það er ennþá síður hægt að leggja mat á það hvort ritlistarnemar hér komi til með að hafa greiðari aðgang að útgefendum en aðrir.
Ég efast samt um að sú verði raunin, ekki síst vegna þess að útgáfubransinn hér á Íslandi er ekki eins ógurlegur frumskógur og t.d. í Bandaríkjunum og Bretlandi. Landið er blessunarlega svo lítið að maður getur sent forleggjurum handrit og verið viss um að þeir lesi það.
En það verður spennandi að sjá hvernig umræðan um ritlistarnámið og þá sem útskrifast hérna þróast.
Ég get allavega fyrir mína parta sagt að ég hef nákvæmlega engar áhyggjur af því að Háskóli Íslands fari að fjöldaframleiða rithöfunda sem allir skrifa eins. Það er a.m.k. ekki á skrifum samnemenda minna að sjá að það sé nokkur einasta hætta á því.
P.S. Ég er annars byrjuð á bókinni hennar Obreht. Ég skal svo segja ykkur hvernig mér finnst hún við tækifæri.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)