4. október 2011

Alþjóðleg ljóðahátíð um helgina

Alþjóðleg ljóðahátíð verður haldin í Norræna húsinu og Nýlistasafninu í Reykjavík 6.-8. október. Þar verða ljóðaupplestrar og pallborðsumræður sem innlend og erlend skáld taka þátt í, ásamt ýmsum fjöllistamönnum. Opnun og pallborðsumræður hátíðarinnar fara fram í Norræna húsinu og á Nýlistasafninu verður boðið upp á upplestra. Í boði verður ljóðlist, tónlist, myndlist, leiklist, sviðslist og alls kyns sambland af þessum listum. Alþjóðleg ljóðahátíð er haldin í samstarfi við S.L.Á.T.U.R. (Samtök listrænt ágengra tónsmiða umhverfis Reykjavík).

Fjögur heimsþekkt erlend ljóðskáld koma á hátíðina:
Anne Kawala frá Frakklandi: Sjónlista- og sviðslistaskáld sem hefur vakið mikla athygli á alþjóðlegum vettvangi.
Gary Barwin frá Kanada: Skáld sem yrkir myndræn ljóð, hljóðljóð og súrrealísk ljóð og hefur gefið út tíu bækur, nú síðast bókina The Porcupinity of Stars.
Marko Niemi frá Finnlandi. Marko fæst við stafræna, hljóðræna og myndræna ljóðlist. Verk hans má skoða á nokturno.org.
Monica Aasprong frá Svíþjóð: Höfundur bókarinnar Soldatmarkedet (Hermannamarkaðurinn) sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir pólitískan boðskap sinn og myndræna framsetningu.



Á ljóðahátíðinni koma einnig fram fimmtán íslensk ljóðskáld: Arngrímur Vídalín, Bergþóra Snæbjörnsdóttir, Bragi Páll Sigurðarson, Elías Knörr vs. Elías Portela, Guðbrandur Siglaugsson, Hekla Helgadóttir, Ingólfur Gíslason, Jón Bjarki Magnússon, Jón Örn Loðmfjörð, Klara Arnalds, Kristín Svava Tómasdóttir, Páll Ivan, Ragnhildur Jóhannsdóttir, Þórdís Björnsdóttir, og Þórdís Gísladóttir.

Tónskáldin Áki Ásgeirsson, Þorkell Atlason, Guðmundur Steinn Gunnarsson, Davíð Brynjar Franzson, og Hallvarður Ásgeirsson Herzog úr S.L.Á.T.U.R. munu einnig slá tóninn.

Dagskrá hátíðarinnar

Fimmtudagur 6. október: Opnun hátíðarinnar: Heart Murmurs, 20-22 @ Norræna húsið
Föstudagur 7. október: Ýmis ljóðskáld vs. S.L.Á.T.U.R.: From Reykjavík With Love, 19-23 @ Nýlistasafnið, Skúlagötu.
Laugardagur 8. október: Pallborðsumræður um ljóðlist: 14-15:30 @ Norræna húsið
Laugardagur 8. október: S.L.Á.T.U.R. + Ýmis ljóðskáld = Heart Full of Stuff, 19-23 @ Nýlistasafnið, Skúlagötu.

Angela Rawlings sér um listræna stjórn hátíðarinnar.

Engin ummæli: