Ernest Hemingway með systrum sínum og móður í Michigan |
Ég er ekki einusinni viss um hvað eðlilegt er að nota til skilgreiningar á þessum bókaflokki. Þær eru oftast stórar um sig og of þungar til að fara með upp í rúm (nema lesandinn sé með hjálm til að fyrirbyggja meiðsl). Þær eru dýrar og gjarnan gefnar í starfsloka- og stórafmælisgjafir. Fjalla oft um listir, náttúru, hönnun eða eru bara hreinræktaðar ljósmyndabækur. Þetta eru svona bækur sem enginn les, bara flettir og eins og nafnið bendir til þá safna þær ryki undir sófaborðinu. Ef að vinkona þín kemur í kaffi þá getur hún kannski flett nokkrum síðum meðan þú skreppur á klósettið. Í hinum fullkomna heimi situr þú í snyrtilegu stofunni þinni með rjúkandi espresso og grípur eina bókina, lest ljóð af handahófi og skoðar tilheyrandi svarthvíta mynd af íslensku eyðibýli. Svolítið eins og þegar þú færð þér einn Quality street-mola. Þú veist þú mátt ekki velja þér, þú bara læðir höndinni undir lokið og færð þér einn og svo ekki meir. Svona eins og siðaða mannveran sem þú ert.
Ég efast um að það finnist bók af þessu tagi í mínu bókasafni. Það er að minnsta kosti enginn sem kemur upp í hugann og ég man ekki eftir því að mig hafi nokkurn tíma langað til þess að eignast „coffee table“ bók. Ég hef líklega bara aldrei gefið þessu séns. Um daginn rakst ég á bók sem líklega myndi flokkast undir skilgreininguna og mér líkaði dável. Ég hafði heyrt viðtal við höfundinn, sagnfræðiprófessorinn Michael R. Federspiel, á NPR og lagði sérstaklega leið mína á bókakaffihús í hverfinu mínu til þess að skoða verkið. Bókin heitir Picturing Hemingway's Michigan og fæst við samband Ernest Hemingway við Michigan fylki. Ég hef aldrei komið til Michigan en ímynda mér að þar sé ákaflega fallegt. Hemingway las ég töluvert þegar ég var yngri en svo kom að því að mér fannst hann af einhverjum ástæðum ekki nógu töff og hef ekki lesið hann í mörg ár.
Þegar ég heyri minnst á Hemingway tengi ég hann landfræðilega við Kúbu, Spán og París – í engri sérstakri röð. Nú veit ég að staðurinn hans var ekki síður og kannski fyrst og fremst Michigan. Hemingway var sex vikna gamall þegar hann kom fyrst með foreldrum sínum til norðurhluta Michigan. Þar byggðu þau sér lítið sumarhús við eitt af fjölmörgum vötnum fylkisins. Fjölskyldan bjó í Chicago þar sem faðir hans starfaði sem læknir en upppúr aldamótunum 1900 var orðið algengt meðal millistéttarfólks sem bjó í borgum að búa sér sumarleyfisstað fjarri skarkalanum og naut Michigan mikilla vinsælda í þeim tilgangi. Á síðari hluta nítjándu aldar breyttust samgöngurmöguleikar mikið með vexti í lagningu lestarteina og ferðamönnum og sumarleyfisdvalarfólki fjölgaði hratt í Michigan enda margs að njóta í stórbrotinni náttúru vatna og skóga.
Þar varði Hemingway flestum sumrum fram yfir tvítugt. Uppistaðan í Picturing Hemingway´s Michigan eru ljósmyndir. Við sjáum lífsglaðan og bústinn strák í undursamlega fagurri bandarískri náttúru. Hann virðist heilbrigður og vel alinn eins og þar stendur. Í bókinni er þess sérstaklega getið að móðirinn hafi séð um listrænt uppeldi hans en faðirinn hafi kynnt hann fyrir vísindunum, ó já það var allt eftir bókinni. Mamman var mild og góð og pabbinn raungreinasinnaður og fastur fyrir. Michigan var svo sannarlega paradís bernsku Ernest Hemingway eins og fylkið var raunar líka verið fyrir höfund bókarinnar, Michael Federspiel. Segir hann að kveikjan að bókinni hafi einmitt verið líkindin milli æskureynslu þeirra og ástar þeirra á Michigan. Federspiel reynir líka að sýna fram á áhrif Michigan-tímans á höfundarverk Hemingways og tekur hann meðal annars fyrir skáldsöguna Veisla í farangrinum í þeim tilgangi.
Mér finnst Federspeil takast einstaklega vel upp og aðferðin hans er skemmtilega óreiðukend. Ljósmyndir af fjölskyldunni og umhverfinu, skannað efni af ýmsu tagi (handritabútar og úrklippur, sendibréf) og textar frumsamdir af Federspeil sjálfum. Og bókin er hjartnæm aldarfarslýsing. Þú sekkur inn í vötnin miklu og dorgar áhyggjulaus með litla stráknum. Vertu eins lengi og þú vilt á klósettinu, ég skal fletta þessari í allan dag.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli