24. október 2011

Bækur sem „á“ að lesa – Coraline

Það eru margar bækur sem maður veit að maður „á“ að lesa, yfirleitt afþví það eru svo margir í kringum mann sem eru alltaf að segja manni að maður verði að lesa þær.

Þannig hef ég vitað lengi að bókin Coraline eftir Neil Gaiman væri bók sem ég „ætti“ að lesa, en ég á það til að humma fram af mér ýmislegt sem ég upplifi sem einhverskonar kvöð og þessvegna hafði ég ekki komið því verk.

Í liðinni viku var vinur minn að hneykslast á því að ég hefði ekki ennþá lesið hana og sendi mér linkinn á ókeypis eintak af henni á ólöglegri síðu á netinu. Ég ákvað að ég gæti ekki hummað Coraline fram af mér lengur, en afþví ég er svo heiðarleg og umhugað um að höfundar fái nú örugglega höfundalaun fyrir verkin sín, þá keypti ég mér hana á kyndilinn og lét sem hefði ekki séð linkinn á ólöglega eintakið.



Bókin fjallar um litla stelpu, Coraline, sem flytur með foreldrum sínum í gamalt hús. Í íbúðinni eru fjórtán dyr, en einar þeirra liggja ekki að neinu nema múrvegg þarsem hæðinni hafði verið skipt í tvær íbúðir. Foreldrar Coraline eru indælt fólk, en svolítið annars hugar, og aðrir íbúar í húsinu eru tvær gamlar konur sem einusinni voru fínar og frægar leikkonur og afar sérvitur eldri maður sem segist vera að þjálfa músasirkus.

Einn rigningardag þegar Coraline leiðist kíkir hún aftur bakvið hurðina og múrveggurinn er horfinn og langur gangur blasir við. Coraline fer auðvitað inn ganginn og á hinum enda hans er hliðarheimur, sem er einhverskonar bjöguð útgáfa af alvöru heiminum. Þar hittir hún „hina mömmu sína“ (eða other mother á ensku), en sú er með glansandi svartar tölur í staðinn fyrir augu og vill allt fyrir Coraline gera og býður henni að vera hjá sér að eilífu afþví hún elski hana svo mikið. Coraline líst ekki alveg á blikuna, enda kemur fljótt í ljós að hliðarheimurinn er ein stór gildra og hin mamma hennar er skrímsli sem ætlar að nærast á henni. Coraline þarf að beita hugviti, kænsku og ekki síst hugrekki til að bjarga sér og sínum.

Sagan er skemmtilega krípí og það úir og grúir af mátulega ógeðslegum hlutum, einsog samvöxnum konum sem eru einhverskonar lirfur, skrímslum sem borða pöddur, draugum, loðnum, andandi veggjum og talandi rottum. Ógeðið verður þó aldrei yfirþyrmandi, sem ég held að helgist af því að Coraline er svo hugrökk og útsjónarsöm að hún hefur yfirleitt a.m.k. einhverskonar stjórn á aðstæðum.

Mér fannst einstaklega skemmtilegt að lesa vinsæla barnabók þarsem hugrökk og klár stelpa er í aðalhlutverki, því mér finnst nefnilega ekki alveg nógu mikið til af þeim, enda segir Gaiman sjálfur í eftirmála bókarinnar að hann hafi byrjað á sögunni fyrir dóttur sína því hann langaði að hún fengi bók þar sem stelpa væri söguhetjan. (Svo skilst mér reyndar að í bíómyndinni sem var gerð eftir bókinni hafi strák verið troðið inn í söguna, væntanlega vegna þess að framleiðendur höfðu áhyggjur af því að strákar nenntu ekki að horfa á mynd með stelpu í aðalhlutverki. Það er einhvernveginn alltaf sama, sorglega sagan.)

Myndskreytingar í bókinni eftir Dave McKean eru svo dásamlega krípí líka, og þær nutu sín alveg hreint prýðilega í kyndlinum mínum. Hér eru nokkur sýnishorn:





Mér til mikillar gleði komst ég að því að sagan um Coraline hefur verið þýdd á íslensku, og ber titilinn Kóralína, og hún er meira að segja á tilboði á netinu og kostar bara 700 kall! Þið getið keypt hana hér.

Lesið hana, fólk.

Engin ummæli: