5. október 2011

Húshjálpin / The Help

Bandaríska kápan.
Ég fékk fyrst veður af The Help, skáldsögu Kathryn Stockett, í sumar þegar á las einhversstaðar grein um að hún stæði í málaferlum af því hún væri sökuð um að stela atburðum úr lífi (svartrar) vinnukonu bróður síns og byggja á þeim eina af aðalpersónu bókarinnar. Höfundur greinarinnar rakti málið og lýsti því svo yfir að henni fyndist bókin æðisleg, sama hvort eitthvað væri stolið í henni eða ekki.

Svo rakst ég skömmu síðar á aðra grein þar sem fjallað var um að það hafi vakið hörð viðbrögð að hvít kona skrifaði í orðastað svarta kvenna og notaði orðalag eins og "you is kind", "ever day" og "once upon a time they was two girls" (sorrí ég kann ekki að gera íslenskar gæsalappir á blogger!). Höfundur þeirrar greinar endaði hana líka á því að tala um það hvað henni hafði fundist bókin æðisleg.



Og þrátt fyrir lögsóknir og illt umtal hefur bókin selst í fimm milljónum eintaka og verið þýdd á 35 tungumál. (Og ábyggilega nokkrir amerískir agentar sem naga sig í handarbökin, því Wikipedia vill meina að 60 agentar hafi neitað handritinu áður en Stockett loksins náði sér í umboðsmann og nú er meira að segja komin bíómynd líka, svo einhver er að mala gull.)

Ég held ég hafi nefnt það einhverntímann áður hérna á síðunni hvað ég get verið mikill sökker fyrir bestseller-bókum, svo eitt sumarkvöldið þegar mig langaði í eitthvað skemmtilegt að lesa þá keypti ég mér The Help á kyndilinn og las hana í einum rykk sama kvöld. Þegar ég sá svo að hún er að koma (eða er kannski þegar komin?) út í íslenskri þýðingu ákvað ég að drífa mig að skrifa um hana.

Íslenska kápan.

Bókin fjallar um þær Aibileen, Minny og Skeeter, sem allar búa í Jackson í Mississippi. Aibileen og Minny eru svartar þernur sem þræla sér út sex daga vikunnar og fá minna en lágmarkslaun fyrir, en Skeeter er hvít vinkona Elizabeth, hvítu konunnar sem Aibileen vinnur fyrir. Sögutími bókarinnar er sjöundi áratugurinn og sagan hefst á því að Elizabeth lætur setja upp sérstakt klósett úti í garði hjá sér fyrir Aibileen, því hún má ekki til þess hugsa að svörtu sýklarnir úr henni geti borist í einhvern af hvíta fólkinu á heimilinu. Aibileen er illu vön og segir ekki neitt en hugsar sitt.

Skeeter er nýútskrifuð úr háskóla og dreymir að um að verða rithöfundur. Smátt og smátt opnast augu hennar fyrir misréttinu sem svörtu þernurnar eru beittar og hún ákveður að reyna að skrifa sögu þeirra og leyfa rödd þeirra að heyrast. Ég ætla ekki að rekja söguþráðinn frekar hér, en sagan er bæði spennandi og skemmtileg. Bókin er alveg drepfyndin á köflum og er það sérstaklega hin kjaftfora Minny sem þá fær að njóta sín. En sagan er alvarleg líka og það er ekkert dregið úr því að baráttan fyrir réttindum svartra í suðurríkjum Bandaríkjanna á þessum tíma var stórhættuleg og oft alveg dauðans alvara.

Það sem sat í mér eftir lestur bókarinnar var hversu stutt það er raunverulega síðan þetta var svona í Mississippi (ég gef mér að höfundur viti hvað hún er að tala um, hún var alin upp í Jackson, Mississippi, af svartri þernu). Og svo eru það sambönd svörtu þernanna við hvítu börnin sem þær ala upp og hvíta fólkið sem þær vinna hjá. Því þó ég hafi ekki haft ímyndunarafl til þess að hugsa mér það (eða réttara sagt þá hef ég kannski aldrei velt því fyrir mér áður) þá var auðvitað oft alvöru ást á milli þeirra. Stundum hljóta svörtu þernurnar að hafa verið eins og raunverulegar mæður barnanna, en samt fengu þær ekki að nota sama klósettið, borða við sama borð eða nota sömu hnífapörin. Þær voru að vissu leyti hluti af fjölskyldunni, en samt ekki. Þetta hlýtur að vera flókið samband og bókin endurspeglar það vel með því að tala ekki bara um óréttlætið, vanvirðinguna og ójöfnuðinn, heldur líka um kærleikann, traustið og vináttuna.

Ég held ég haldi svo bara í hefðina sem virðist vera að skapast og endi þetta á því að lýsa því yfir að mér fannst bókin svolítið æðisleg líka.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég var svo heppinn að vinna eintak af þessari bók í gær. Læt svo vita hvernig mér finnst hún (komi ég mér í að lesa hana, en þetta er ekki alveg minn tebolli).