28. október 2011

Messað um bækur í Turku og Helsinki: Fyrsti hluti

Fyrir mánuði síðan fór ég í fyrsta skipti á bókamessu, það var í Turku. Þema Turkumessunnar í ár var Norðurlönd og í messuhöllinni fann ég m.a. norska rithöfunda, finnskt súkkulaði og íslenska reggaetóna. Messuhöllin var stór, mjög stór – mikill kliður, margt fólk og sjúklega mikið af bókum – svo mikið af öllu að kostaði átak að einbeita sér að einhverju einu.

Það sem gefur bókamessu gildi umfram bókamarkað Perlunnar er auðvitað nærvera höfundanna sjálfra og annars fólks úr bókabransanum, sem var mætt í viðtöl og pallborðsumræður og áritanir út um allt svæðið. Margt var náttúrlega í gangi samtímis, svipað og á tónlistarhátíðum og öðrum margsviða viðburðum, svo gestir geta þurft að velja og hafna. Ég er blessunarlega nógu fáfróð um finnskar bókmenntir til að vita ekki neitt um heilan helling af höfundum og gat því stílað inná það fáa sem ég hafði forsendur til að þykja spennandi, án þess að finnast ég vera að missa af.

Tuula-Liina Varis talar við Jörn Donner
Fyrst varð á vegi okkar viðtal við finnlandssænska rithöfundinn, kvikmyndaleikstjórann og stjórnmálamanninn Jörn Donner. Hann  talaði lítið um verk sín en meira um ferðalög og hjónabönd æskuáranna og útför Mannerheims forseta árið 1951. Ég hef lesið eitthvert hrafl um Donner, ekkert þó eftir hann, en mér fannst hann koma mjög skemmtilega fyrir, fyndinn og mannlegur og passlega mikið kaldhæðinn. Bæði í útliti og framkomu minnti hann mig á sympatískari, 20 árum eldri Pál Baldvin.

Norðmaðurinn Erlend Loe nýtti hinsvegar allan sinn sviðstíma í að tala um nýju bókina sína, sem heitir Þöglir dagar með Nigellu (það er þýðing á finnska titlinum, á norsku heitir hún Stille dager i Mixing Part (sem á uppruna í einhverjum misskilningssprottnum orðaleik sem höfundurinn útskýrði í viðtalinu en ég er búin að gleyma)) og fjallar um misheppnað leikskáld sem flytur tímabundið til Þýskalands með fjölskyldu sinni. Hann er þjakaður af nasismafóbíu og ástfanginn af Nigellu Lawson og upplifir meiriháttar ranghugmyndakreppu þegar hann kemst að því að hún er gift gyðingi. Mig minnir nú að mér hafi þótt Ofurnæfur ágæt á sínum tíma, en ekki náði höfundurinn alveg að selja mér ágæti þessarar.

Tapio Koivukari og Heli Laaksonen
Næst sáum við finnsku höfundana Tapio Koivukari (sem birtist einmitt viðtal við hér á síðunni í októberbyrjun) og Heli Laaksonen spjalla saman um nýútkomnar bækur sínar, en Tapio segir einmitt frá Ariasman, nýju skáldsögunni sinni, í fyrrnefndu viðtali. Heli var að gefa út sína fimmtu ljóðabók, Peippo vei, en hefur einnig birt leikrit, greinar og hljóðbækur. Hún hefur verið mjög vinsæl í Finnlandi og hefur skapað sér sérstöðu með því að yrkja ekki á hinu opinbera finnska ritmáli heldur eigin mállýsku, sem hún gerir ýmsar tilraunir með. Ég hef dálítið lesið eftir Heli og líkað vel (og líka sungið, texta sem hún samdi handa kórnum mínum í Turku!) og náði í nýju bókina hennar á messunni – svo kannski meira um hana seinna. Síðasta atriðið sem við sáum þennan dag var ekki bókmenntaatriði, þótt það innihéldi reyndar textaþýðingar eftir Tapio sem skjávarpað var á vegg, heldur tónlistaratriði – Hjálmar spiluðu fyrir messugesti í boði íslenska sendiráðsins. Jei!

Í dag fór ég síðan á bókamessuna í Helsinki. Messugímaldið var voða svipað því í Turku, í sama Ikeavörugeymslustíl, nema með miklu fleiri gluggum og meiri dagsbirtu, sem sló merkjanlega á innlyksa fílinginn. Á Helsinkimessunni eru líka táknmálstúlkar sem túlka viðtölin! Einn fyrir viðmælanda og annar fyrir spyril. Þetta sá ég samt bara í fyrsta viðtalinu sem ég fylgdist með. Ég veit ekki hvort túlkarnir hafi af einhverjum ástæðum bara túlkað það, eða hvort þeir hafi bara verið á stóra sviðinu – eða hvort ég hafi bara veitt því athygli þá, því þetta var fyrsta viðtalið sem ég fylgdist með – en reyndar var ýmislegt fleira athyglisvert við þetta fyrsta viðtal. Ég verð hinsvegar að halda þessari langloku áfram seinna, enda stóð til að verja helginni sem minnst við tölvuskjáinn – og í fyrramálið mæti ég aftur til messu og sé meira til að segja frá! Framhald á næstu grösum...

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hiljaiset päivät Nigellan lumoissa... einhvern veginn finnst mér þetta skólabókardæmi um hvernig Finnar, þegar þeir þýða titla á bókum og bíómyndum, sjá sig tilneydda til að útskýra erlendu titlana.

Eins og John Irving bækurnar Hotel New Hampshire (kaikki isäni hotellit) og Cider House Rules (Oman elämänsä sankari).

Sjálfur er ég hrifinn af svona titlum sem segja manni nákvæmlega ekki neitt, en vekja upp margar spurningar. Þannig að ég hefði sennilega kosið að þýða þetta öðruvísi ;)

Ágúst

Erla Elíasdóttir Völudóttir sagði...

Satt, það er nokkuð dæmigert - myndin Friends with benefits heitir til dæmis Vain seksiä, eða Bara kynlíf...

"Kyrrlátir dagar" hefði annars verið betri þýðing hjá mér en þöglir.

Nafnlaus sagði...

Mixing Part í bókinni eftir Erlend Loe er eftir tölvuþýðingu. Sögumaðurinn dvelur í Garmisch-Partenkirchen, sem gúgglinn þýðir "Mixing Part Churches."

kv.
Tapio

Erla Elíasdóttir Völudóttir sagði...

já, mikið rétt! og tekið úr raunverulegum aðstæðum - bróðir Loes átti í tölvupóstsamskiptum við þýsk hjón vegna íbúðaskipta, hjónin töluðu litla ensku og treystu á gúgl trans... líka fyrir staðanöfn.