12. maí 2012

Land hinna ókláruðu bókaflokka

Ég verð enn þann dag í dag reið þegar ég hugsa
um svik Ríkissjónvarpsins sem hætti að sýna
Þrífætlingana
Fyrir tíma internetsins voru svo margar dyr lokaðar þegar mann þyrsti í fróðleik og alls kyns ítarupplýsingar, sérstaklega búandi hér á lítilli eyju úti í ballarhafi. Maður las eitthvað/sá eitthvað/heyrði eitthvað sem maður vildi vita meira um en möguleikarnir voru takmarkaðir. Ef hætt var útgáfu eða sýningum á einhverju var lítið hægt að gera annað en engjast um í frústrjasón (Þrífætlingarnir, anyone?!?) og ég man ennþá þunglyndistilfinninguna sem helltist yfir mig þegar eitthvað bara gufaði upp þannig að maður fékk aldrei að vita um afdrif persónanna.

Það var einstaklega blóðugt þegar hætt var útgáfu á bókaflokki eftir eina eða tvær bækur. Þetta gerist auðvitað ennþá (mér berast t.d. enn símtöl þar sem börn, unglingar eða foreldrar spyrja eftir framhaldi á bókaflokki Michelle Paver, Sögur úr myrkum heimi, en ég þýddi fyrstu tvær bækurnar úr þessum spennandi flokki fyrir nokkrum árum) en nú er allavega sá möguleiki fyrir hendi að afla sér upplýsinga um bækurnar á öðru máli og lesa þær þannig, eða ákveða að lesa þær síðar meir. Einhver sárustu vonbrigðin af þessum toga sem ég man eftir tengjast bókinni Ráðgátan eftir enska höfundinn Susan Cooper, en bókin kom út í þýðingu Ingólfs Jóhannessonar árið 1990 hjá forlaginu Líf og saga. Þessa bók las ég, þá níu ára gömul, og beið ógurlega spennt eftir framhaldi sem aldrei kom. Nota bene var Ráðgátan mjög greinilega bara fyrsta bókin af nokkrum - ýmislegt var óleyst og bókin endaði á einhvers konar cliffhanger ef ég man rétt. Nú veit ég ekki hvað varð til þess að framhaldið kom aldrei út; kannski fór forlagið á hausinn, kannski seldist bókin ekki neitt? En allavega voru þetta mér gríðarleg vonbrigði og ég man hvað ég var innilega reið yfir því að svona væri komið fram við lesendur, og ég fylltist vonleysistilfinningu um að ég myndi aldrei, aldrei fá að vita hvernig hin stóra ráðgáta leystist.Susan Cooper á töff degi
Ég mundi skyndilega eftir þessari bók um daginn og ákvað að leggjast í smávegis gúggl. Ég mundi hins vegar ekki hvað hún hét á íslensku þannig að ég sló upp einhverju á borð við "british children's book holy grail" - en ráðgátan í bókinni snerist einmitt um hinn helga gral og einhvers konar kort af mögulegum felustað hans. Þetta höfðaði afskaplega vel til hinnar níu ára gömlu Sölku; ég var spennt fyrir öllu sem tengdist Artúr konungi, goðafræði var í uppáhaldi og öll ráðgátuelement féllu mér vel í geð. En semsagt, eftir stutta leit fann ég hinn helga gral - það er að segja nafn þessa bókaflokks og höfundarins Susan Cooper. Kæra net, þú ert tímasuga hin mesta en á svona stundum svo ósegjanlega fullnægjandi.


Bækurnar má greinilega kaupa í haganlegum kassa
Ráðgátan heitir á frummálinu Over Sea, Under Stone og kom (mér til mikillar undrunar) út árið 1965. Mér fannst þetta á sínum tíma ekki virka mjög gamall texti en það getur auðvitað líka hafa tengst þýðingunni. Og jú, það reyndist rétt hjá mér - þetta var aðeins fyrsta bókin í fimm bóka flokki sem nefnist The Dark is Rising og eru einhvers konar fantasíuráðgátur fyrir unglinga. Eftir einni bókinni hefur m.a.s. verið gerð kvikmynd, The Seeker, sem þótti reyndar arfaslök og Cooper var mjög ósátt við. Bókaflokkurinn kom út á árunum 1965 til 1977 og enn er hægt að fá bækurnar. Ég geri mér engar sérstakar væntingar um að upplifa sömu tilfinninguna gagnvart þeim núna og ég gerði þegar ég var níu ára, en ætla samt að setja hinar bækurnar á Amazon-listann minn og verða mér úti um þær við gott tækifæri, bara svona til að loka hringnum. Níu ára Salka á það inni hjá mér.

Munið þið, kæru lesendur, eftir einhverjum álíka vonbrigðum? Persónum sem þið fenguð aldrei að vita hvernig fór fyrir? Bókaflokkum sem gufuðu upp?

18 ummæli:

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Svo ég kommenti á eigin færslu þá var ég að muna eftir Snjóköngulónni, en við fengum einmitt bara að sjá fyrstu seríuna af þremur. Mig grunar að hún beri ákveðna ábyrgð á því að ég flutti seinna meir til Wales, og kann ég henni bestu þakkir fyrir:
http://en.wikipedia.org/wiki/The_Magician_Trilogy

Þórdís Gísladóttir sagði...

Meira að segja ÉG horfði á Þrífætlingana ...

Gunnhildur Reynisdóttir sagði...

Bókaflokkurinn "Ríki ljóssins" eftir Margit Sandemo er 20 bækur allt í allt, en aðeins 13 bækur voru gefnar út á íslensku á sínum tíma (þær hættu að koma út þegar Prenthúsið sáluga fór á hausinn). Mér skilst reyndar að Jentas ætli að endurútgefa þær á næstunni, og það er þá bara vonandi að þau gefi út ALLAR bækurnar 20!

Varðandi Þrífætlingana þá skilst mér að BBC hafi bara gert sjónvarpsseríur eftir 2 fyrstu bókunum (þær eru þrjár allt í allt, og svo ein aukabók skrifuð eitthvað síðar, sem á að gerast á undan öllum hinum). Þannig að það er víst ekki við RÚV að sakast. ;) Ég las reyndar allar Þrífætlingabækurnar eftir John Christopher fyrir einhverjum árum, og fannst þær eiginlega ekkert spes... frekar "sexist" ef þið spyrjið mig.

Síðan var það Knud Ödegård, sem skrifaði tvær unglingabækur sem eiga að gerast í Noregi og Íslandi á miðöldum; þær heita "Örneblodet" og "Gudehovet". Sú fyrri hefur komið út á íslensku undir nafninu Arnungar, ég á hana og finnst hún alveg bráðskemmtileg. Sú seinni hefur aldrei komið út á íslensku. :(

Salka Guðmundsdóttir sagði...

ALLIR horfðu á Þrífætlingana. Nema dagskrárstjóri sjónvarps, greinilega.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Ah, ég hélt að við hefðum bara fengið að sjá fyrri seríuna af tveimur, Gunnhildur - er ég að rugla? En já, ég man sko líka eftir Arnungum, mér fannst hún mjög góð og rámar einmitt í að hafa leitað að framhaldinu. Agalegt að fara svona með mann!

Nafnlaus sagði...

Ég á fyrstu þrjár Susan Cooper bækurnar norsku - las þær fyrir margt löngu og hafði gaman af. Rakst svo á 1. bókina á íslensku í bókasafni hér, fagnaði því þá en frétti að hún hefði ekki verið neitt vinsæl. Fékk svo mér til ánægju allar fimm á ensku í þiljuna mína (kindilinn) í vetur og skemmti mér vel!
Seriur sem aldrei kláruðust á íslensku eru t.d Litla Vampíran (sem er mikið spurt um), bækur sem heita Ljót og Lagleg - og krakkarnir á mínu bókasafni spyrja oft um framhald af Úlfabróður og Sálnaflakkarnum. Vilja vita af hverju það komi ekki meira!

Skemmtilegt að þú minnist á Þrífætlingana - var einmitt að hugsa um þá í vikunni - langar eiginlega að sjá þessa þætti aftur.
Bestu kveðjur Jóhanna Hafliðadóttir

Gunnhildur Reynisdóttir sagði...

@Salka: Já, mig minnir einmitt að RÚV hafi sýnt báðar seríurnar á sínum tíma. Amk sýndu þeir þættina sem gerast í stóru hvelfingunni þar sem þrífætlingarnir bjuggu, en hún kemur fram í bók númer tvö. :)

Gudehovet eftir Knut Ödegård veit ég að er til í Þjóðarbókhlöðunni, en því miður ekki til útláns. :(

Nafnlaus sagði...

Tek undir þetta með Þrífætlingana. Þær seríur þar sem ég saknaði framhalds var kannski fyrst og fremst teiknimyndasagan um Blástakk auk þess sem ég hefði viljað sjá meira af Birnu og ófreskjunni. Blástakksbækurnar eru víst óramargar, en ég veit ekki um Birnu. Svo er bara stutt síðan að ég áttaði mig á að Goðheimabækurnar væru mun fleiri en þær sem komu á íslensku. Vona bara að endurútgáfurnar seljist vel svo restin verði þýdd.

Árni Friðriksson

Ásgeir H Ingólfsson sagði...

Árni, það er verið að gefa allan Jacques Tardi út á ensku þessi misserin - þar á meðal Birnu. Þeir eru búnir með fjórar (tvö bindi með rveim sögum hvort) en svo virkar hitt Tardi-stöffið ekkert síður spennandi.

Nafnlaus sagði...

Ég beið líka mörg jól eftir framhaldinu af Ráðgátunni, og keypti allar Goðheimabækurnar á dönsku eftir að ég komst að því að þær voru fleiri en fimm.
Kannski hefði ég líka einhvern tíma byrjað á Í leit að glötuðum tíma ef fleiri en fyrstu tvö bindin væru til á íslensku.

Hins vegar nennti ég aldrei að horfa á Þrífætlingana.

Finnbogi Óskarsson

Kristín Svava sagði...

Jiminn, ég er bara að frétta af því núna að það hafi verið til fleiri bækur um Litlu vampíruna. Það var ágætt að ég vissi það ekki í gamla daga, mér fannst hún mjög skemmtileg.

Nafnlaus sagði...

Við grétum þegar ekki fundust fleiri Sögur úr myrkum heimi.

Margrét sagði...

Ég beið lengi eftir fleiri Sögum úr myrkum heimi þangað til ég gafst upp og las þær á ensku.

Einnig vonaðist ég eftir framhaldi af fyrstu tveimur Stravaganza-bókunum eftir Mary Hoffman sem aldrei kom út á íslensku.

Maríanna Clara sagði...

aaa - eins og Kristín Svava er ég gríðarlega spennt yfir því að það séu til fleiri bækur um Litlu vampýruna! Ég elskaði þær!
Annars man ég líka að síðasta bókin í Narníu flokknum kom miklu miklu seinna og þá var maður löngu búin að lesa hana á ensku...
Stærsta syndin er auðvitað að ekki sé búið að þýða allar múmínálfabækurnar!

Oddbergur sagði...

Ég las bækur sem hétu að mig minnir Áfram Hæðargerði og Hæðargerði á uppleið, eftir sænska höfundinn Max Lundgren. Seinni bókin endaði þar sem önnur aðalpersónan var valin í sænska landsliðið í fótbolta og mér fannst alltaf einkennilegur endir. Þegar ég seinna gúglaði höfundinn komst ég að því að það væru tvær bækur til viðbótar í þessum flokki sem mig myndi langa til að lesa við tækifæri en þarf töluvert meiri sænskukunnáttu til þess.

beamia sagði...

Galdramaðurinn eftir Ursulu le Guin. Mikil vonbrigði að ekki væru til fleiri í þeirri seríu á íslensku. Fann fyrstu þrjár bækurnar í einu bandi á ensku á bókasafninu eftir mikla leit, bögglaðist gegnum þær (með því fyrsta sem ég las á ensku fyrir utan skólabækur) og fékk svo þá fjórðu hjá bróður mínum sem keypti hana í útlöndum. Nú eru þær víst sex talsins en ég hætti eftir þá fjórðu á sínum tíma...

Nafnlaus sagði...

Ég er reyndar ekki viss um að fyrsta bókin í "The Dark is Rising" seríunni hafi átt að vera fyrsta bók í seríu. "Over Sea, Under Stone" kom út 1965 en svo liðu 8 ár þar til næsta bók kom út. Bækur 2-5 voru gefnar út í Bretlandi 1973-77. Það er líka dálítið annar stíll á fyrstu bókinni - söguþráðurinn í henni minnir að sumu leyti á Enid Blyton bók þar sem krakkar í sumarleyfi leysa ráðgátu í sjávarþorpi. Seinni bækurnar hafa miklu sterkara fantasíuelement og mér finnast þær skemmtilegri. Ég öfunda þig eiginlega af því að eiga þær eftir! Ég gleypti seríuna í mig þegar ég var 10-12 ára (það er kostur að vera tvítyngt barn) og gríp reyndar ennþá í hana af og til. Að mínu mati eru þetta með bestu barnabókum sem ég hef lesið.

Ebba K. Baldvinsdóttir

Nafnlaus sagði...

http://thepiratebay.se/torrent/3565876/The_Tripods

Sæll hérna hefur þú þættina 1-25 af The Tripods :) það var dapurlegt þegar þessu var kippt af dagskrá.
Kv Swan Thor