1. október 2013

Jakobína Sigurðardóttir og dulnefnið Kolbrún

Á laugardaginn kl. 13 verður haldið málþing um Jakobínu Sigurðardóttur í félagsheimilinu Skjólbrekku í Mývatnssveit. Þar verða flutt fjögur erindi en einnig verður á dagskrá tónlist sem samin hefur verið við nokkur kvæði eftir Jakobínu og kaflar úr verkum hennar verða leiklesnir. Nánari upplýsingar um málþingið má finna á nýlegri vefsíðu um Jakobínu. Á síðunni eru verk hennar kynnt og bent á ýmiss konar skrif sem tengjast henni en einnig má þar m.a. finna skemmtilegar frásagnir af fundum leshóps sem hefur komið nokkrum sinnum saman í Mývatnssveit nú í haust og rætt ýmis verk Jakobínu.

Við undirbúning fyrir málþingið fór ég að grafast fyrir um það hvenær fyrst hefðu birst verk eftir Jakobínu. Það elsta sem ég hef fundið undir hennar nafni er „Morgunljóð“ í tímaritinu Rétti árið 1952. Í kjölfarið fylgdu brátt allnokkur kvæði til viðbótar sem birtust í blöðum og tímaritum og vöktu töluverða athygli, ekki síst „Hugsað til Hornstranda“, harðort kvæði sem var ort í tilefni af fyrirhuguðum heræfingum á Hornströndum og þótti verða að áhrínsorðum þegar hætta þurfti við heræfingarnar vegna veðurs.

Á þessum tíma er Jakobína 34‒35 ára en ljóst er að hún var ekki nýbyrjuð að yrkja og skrifa. Og þegar málið er athugað nánar kemur í ljós að eitthvað hafði birst eftir hana opinberlega áður. Í áhugaverðu viðtali í Þjóðviljanum árið 1953 vísar hún m.a. til æskuverka sem hefðu birst í Eimreiðinni.

Þegar Eimreiðinni er flett kemur nafn Jakobínu reyndar hvergi fram en ýmsar grunsemdir vöknuðu hins vegar hjá mér við að lesa nokkur kvæði með dulnefninu Kolbrún sem birtust árið 1940 og 1947.
Ég fékk síðan staðfest eftir áreiðanlegum heimildum að Jakobína hefði einmitt fyrst skrifað undir því nafni. Ennþá forvitnilegra fannst mér svo að rekast á smásögu eftir „Kolbrúnu“ sem birtist í Eimreiðinni sama ár og fyrstu kvæðin, þ.e. árið 1940 þegar Jakobína var 22 ára. Sú heitir „Á biðilsbuxum“ og segir frá Brandi á Hamri sem fer í bónorðsför til Áslaugar á Kömbum eftir sex ára vangaveltur um málið.

Stór hluti af frásögninni er skemmtilega írónískur. Sjónarhornið er oftast nálægt aðalpersónunni Brandi en söguhöfundur bregður ítrekað upp háðslegri mynd af honum, m.a. hégóma hans þegar hann undirbýr bónorðsförina:


Brandur leggur af stað en er haldinn umtalsverðum glímuskjálfta á leiðinni. Hann fer svo alveg út af sporinu þegar Áslaug kemur ekki til dyra á Kömbum heldur bláókunnug stúlka sem er öðruvísi útlits en Brandur á að venjast. Í þessari lýsingu er horft á hana með augum Brands:


Stúlkan sem er „eitthvað svo holdleg og mjúk að sjá“ reynist heita Kaja. Brandi þykir hún léttúðarfull, gengur rækilega á lagið þegar Áslaug skilur þau eftir ein og þar kemur að hann gerir sig rækilega að fífli með því að ganga að því sem gefnu að fyrst Kaja var til í að kyssa hann hljóti hún snarlega að vilja giftast sér. Brandur vorkennir sér ógurlega en mismunandi viðbrögð þeirra Kaju eru umhugsunarefni:


Á endanum, þegar Kaja er rokin í burtu, sest Áslaug þó hjá Brandi í rólegheitum og honum tekst að stynja upp bónorðinu við hana. Hún játar sem veldur flestum nútímalesandum sennilega dálitlum vonbrigðum.

Írónían sem einkennir drjúgan hluta frásagnarinnar gefur góð fyrirheit um frásagnarhæfileika höfundarins en það varð samt töluvert hlé á sagnaskáldskap frá hendi Jakobínu þótt hann hafi síðan orðið það sem þyngst vegur og merkilegast er í höfundarverki hennar. Fyrsta smásagnasafnið kom út árið 1964, næstum aldarfjórðungi eftir að saga „Kolbrúnar“ birtist, og fyrsta skáldsagan, Dægurvísa, kom út árið 1965. Alls urðu smásagnasögnin þrjú og skáldsögurnar fjórar auk einnar endurminningabókar. Hún og skáldsögurnar einkennast allar af róttækri og frumlegri frásagnaraðferð og í smásögunum er líka að finna ýmiss konar tilraunir með frásagnarformið eins og Ásta Kristín Benediktsdóttir hefur fjallað um í nýlegri MA-ritgerð og víðar, m.a. í pistli um Snöruna hér á þessari síðu og í kynningu á verkunum á vefsíðunni um Jakobínu.

Þótt Jakobína hafi verið þekkt ljóðskáld alllengi áður en sögur eftir hana fóru að birtast fyrir alvöru er ljóst að ástæðan er ekki sú að hana skorti löngun til að skrifa prósa. Í Þjóðviljaviðtalinu frá árinu 1953 sem áður var vitnað til kemur meira að segja fram að hún hafi ekkert haft sérstakan áhuga á að yrkja, hana hafi frekar langað til að skrifa óbundið mál. En aðstæðurnar gerðu henni erfitt fyrir. Tíminn og möguleikarnir voru vægast sagt takmarkaðir, og skortur á sjálfstrausti hefur greinilega verið töluverður þröskuldur líka:
„Nú á tímum á sveitakona með börn yfirleitt engar tómstundir. Ég hef ekki tíma til að sinna skáldskap, skrifa því setningu og setningu á stangli milli þess að ég hleyp til verka. Hafði heldur aldrei verulegan áhuga á ljóðlist, en langaði að fást við óbundið mál. Fann þá að mig skorti bæði hæfileikana og menntun. Þá var ég rúmlega tvítug.“
Sem betur fer fékk löngunin eftir óbundna málinu útrás á endanum og afurðirnar urðu ekki af verri endanum. Um þær og ýmislegt sem Jakobínu og skáldskap hennar tengist verður fjallað á fyrrnefndu málþingi á laugardaginn.

Engin ummæli: