19. október 2013

Flöskuskeyti berst til Köben

Daninn Jussi Adler-Olsen hefur oftar en einu sinni komið við sögu hér á blogginu, og þá í mínu boði enda hef ég eins og raunar fleiri druslubókaskrifarar verið afskaplega svag fyrir bókaflokki hans um Carl Mørck, Assad og Rose í deild Q í Kaupmannahafnarlögreglunni. Við erum aldeilis ekki einar um það; bækurnar hafa notið mikilla vinsælda á Norðurlöndunum og víðar, og nú um helgina er einmitt verið að frumsýna hérlendis bíómynd sem gerð er eftir fyrstu bókinni, Konunni í búrinu. Þótt ég hafi snúið dálítið upp á mig þegar ég sá þann sem á að vera Assad á plakatinu (virðist vera orðinn einhver ungur foli), og finnist sömuleiðis frekar skrítið að setja Nikolaj Lie Kaas í þetta hlutverk - frábær leikari en alltof ungur - þá er ég alveg til í að tékka á henni. Og auðvitað má alveg búa til nýjan heim fyrir aðlögun í öðru formi.
Það vill þannig til að ég var einmitt að ljúka við lestur þriðju bókarinnar í flokknum, en sú heitir Flöskuskeyti frá P og á einhvern dularfullan hátt missti ég af henni þegar hún kom út og vissi ekki af tilvist hennar fyrr en seint og um síðir, sem útskýrði ýmsar undarlegar gloppur í hinu stærra samhengi. Eins og í svo mörgum glæpasagnaflokkum fylgjast lesendur nefnilega með einkalífi rannsakendanna og auk þess er í gangi eins konar rammaplott sem tengist skotárás sem Carl lendir í ásamt tveimur félögum sínum úr lögreglunni áður en hin eiginlega frásögn hefst. Ég hef raunar kvartað yfir því áður að mér finnst Jussi skammta okkur upplýsingarnar helst til of hægt og lítið, og það sama má segja um bakgrunn Assads sem er eilífðarráðgáta. Ég vil endilega fara að fá meira að vita, enda forvitin með eindæmum!

Á fyrstu síðum bókarinnar hittum við fyrir tvo unga drengi sem haldið er í prísund á ótilgreindum stað og við undarlegar aðstæður; við vitum það eitt að líf þeirra er í hættu og að þeir hafa alist upp við stranga trúariðkun. Flöskuskeytinu sem nefnt er í titlinum skolar upp við Skotlandsstrendur; það lendir síðan fyrir tilviljun í höndum lögreglumanns og berst þannig inn á lögreglustöð í smábæ þar sem það liggur í nokkur ár áður en það rekur á fjörur Carls og félaga. Í fyrstu virðist það bæði vonlaust og tilgangslítið verkefni að ráða í þetta gamla, máða krot, en þegar maverick-gengið góða í deild Q áttar sig á alvöru málsins er ekki aftur snúið.
Jussi er mikið í því að taka ákveðnar félagslegar aðstæður og skoða hvernig illar gjörðir geta sprottið af illum gjörðum annarra. Það er nokkuð gegnumgangandi þráður hjá honum að illvirkjarnir eru gjarnan þeir sem telja sig hafa verið órétti beitta, hafa lent í ofbeldi sjálfir eða verið sviptir ákvörðunarrétti um tilveru sína. Í þetta sinn beinir hann sjónum sínum að sértrúarsöfnuðum, án þess þó í rauninni að alhæfa um fólkið sem þrífst í slíkum söfnuðum; hann býr í því samhengi til bæði sterkar persónur og veikar, innileg fjölskyldutengsl og afbrigðilegt heimilislíf.

Jussi á góðri stundu
Flöskuskeyti frá P er virkilega spennandi bók og síðustu hundrað blaðsíðurnar eru algjör þeysireið. Við lesturinn áttaði ég mig á því að það er ekkert alltof oft sem ég verð svona spennt yfir glæpabókmenntum; þrátt fyrir að það hafi kostað lestur til kl. fimm í morgun (hæ, ég heitir Salka og ég er óreiðukona) var það mjög hressandi tilfinning að detta svona inn í söguna og vera algjörlega óviss um það hver myndi lifa og hver deyja, þótt maður svosem velkist varla í vafa um að sjálft málið leysist einhvern veginn. Það sem er merkilegt við þetta er að Jussi Adler-Olsen er yfirleitt ekki beinlínis í því að leyna því hver er glæpamaðurinn í sögunum - gjarnan fáum við sjónarhorn gerandans snemma í frásögninni og fylgjum honum jafnvel náið eftir, þótt við vitum ekki endilega nafnið - en höfundurinn hefur gott lag á að flækja atburðum og persónum saman á óvæntan hátt og skapa aðstæður sem vekja ugg og spennu. Þetta eru ekki sígildar "whodunnit"-bækur heldur eru aðalspurningarnar yfirleitt hvers vegna, hvernig og hvað svo?

Nú er ég búin að lesa allar bækurnar um Afdeling Q nema Marco Effecten, sem kom út á dönsku í fyrra, og mér finnst þær helvíti fínar. Jafnvægið á milli dramatísku, skelfilegu glæpanna og hins fremur kómíska starfs- og einkalífs Carls og félaga er ansi vel heppnað og flétturnar eru skemmtilegar og frumlegri en í flestum krimmunum sem dælt er út á hinn skandinavíska bókamarkað. Ég vona að Jussi haldi ótrauður áfram á meðan hann er í svona góðu stuði.

Engin ummæli: