29. október 2013

Arne, Carlos og Maríanna prjóna litríkar lykkjur úr garðinum

Því miður er ég engin galdrakona í höndunum en hef samt mjög gaman af hannyrðum og blaða oft í bókum um slík efni mér til skemmtunar (að eignast barn og vera heima dottandi yfir sjónvarpinu öll kvöld hefur ekki dregið úr áhuga mínum). En það er misjafn sauður í mörgu fé (ullartengd orðatiltæki eiga vel við hér þykir mér) og slíkar bækur misvel heppnaðar. Um daginn rak á fjörur mínar Litríkar lykkjur úr garðinum eftir Arne og Carlos sem er nokkuð forvitnileg þó að mér sýnist hún kannski ekki endilega vera sérsniðin að mínum þörfum. Hannyrðafólk man jafnvel eftir Arne og Carlos en þeir eru heilarnir á bak við bókina Jólakúlur Arne og Carlos sem kom út fyrir síðustu jól.

Litríkar lykkjur úr garðinum er ansi lagleg að öllu leyti – hún er stór og mikið af fallegum myndum og litadýrðin gríðarleg. Hugmyndin að baki bókinni er skemmtileg – ef nokkuð sértæk. Þeir Arne og Carlos sækja innblástur í garðinn sinn sem er byggður á yfirgefinni brautarstöð í norsku fjöllunum. Það þarf því kannski ekki að undra að blóm, fiðrildi, blómálfar og slíkt koma víða við sögu. Yfirskriftin er: Heklað, prjónað og saumað út að sumarlagi (svo ég ætti kannski ekki að vera að lesa þessa bók þegar langt er liðið á október). Myndirnar eru eins og áður sagði margar, litríkar og sérlega blómlegar og þær eru ekki síður af garðinum, veröndinni og huggulegum húsbúnaði þeirra félaga – þær myndu sóma sér vel í hvers kyns „lífsstíls“ bókum og sumar æpa hreinlega á að vera instagramaðar.

Þarna má finna uppskriftir að ýmsu sniðugu og hagkvæmu eins og hitaplöttum, pottaleppum, stólsessum og tehettum – en ansi stór hluti prjónauppskriftanna eru eins konar blómálfar sem þeir hafa sérhæft sig í að prjóna – og föt á þá ... og þar verð ég að segja að leiðir okkar Arne og Carlosar skilja ... en þetta er að sjálfsögðu smekksatriði og ef prjónaðir blómálfar höfða til manns, þá er þetta stórkostleg bók!

Bókin er annars almennt mjög sjarmerandi – en stundum skjóta þeir félagar að mínu mati aðeins yfir strikið í textabrotunum sem skreyta síðurnar – eins og þegar þeir skrifa út frá sjónarhorni „Blómastelpunnar“ (en uppskrift að henni er að finna á blaðsíðu 28). Hér eru t.d. inngangsorð kaflans „Efni“:
„Karfan með afgangsgarni er næstum tóm: Blómastelpan heklar og prjónar blóm og rendur í mörgum litum og finnst hún hafa náð að taka til og koma reglu á líf sitt. Stundum er það nauðsynlegt. Garnafgangar verða að teppum sem eru jafn litrík og garðurinn hennar og eins og henni finnst heimurinn eiga að vera.“
Það gætir raunar dálítillar endurtekningar í heimspeki Blómastelpunnar því á bls. 123, við upphaf kaflans „Baldursbrár“, segir:
„Blómastelpan heklar baldursbrár í öllum regnbogans litum. Hún klárar nánast körfuna með afgangsgarninu og um leið finnst henni hún hafa náð að skipuleggja líf sitt örlítið betur. Stundum þarf hún á því að halda, en hver þarf þess ekki? Hekluðu dúllurnar verða að teppi sem er jafn litríkt og garðurinn hennar og eins litríkt og hún vill að heimurinn sé.“

hér er fyrri bók þeirra félaga
Í bókinni er líka að finna uppskrift að (reyndar mjög sætri) mús sem þeir kalla Magnús. Á Magnús er sömuleiðis hægt að prjóna mikið úrval af fötum og hann býr ásamt blómastelpunni í dúkkuhúsi sem Arne og Carlos hafa byggt. Þarna eru líka fleiri persónur eins og „Hunangsflugukall“ sem mér finnst reyndar dálítið eins og bankaræningi með röndótta skíðagrímu.

Það er sagt að bókin sé fyrir byrjendur og þá sem lengra eru komnir en mér finnst nú margar uppskriftirnar þarna vera dáldið snúnar ... en það er mögulega ekki við bókina að sakast – ég er held ég svolítið treg þegar kemur að því að skilja prjóna- og helkuppskriftir. Ég ákvað að ráðast bara á garðinn þar sem hann var lægstur og byrjaði á einföldustu uppskriftinni sem ég fann – teppi úr afgöngum, prjónuðu með garðaprjóni. Það eina sem ég þurfti að tileinka mér var að prjóna aldrei fyrstu lykkjuna heldur lyfta henni yfir á prjóninn ... samt tókst mér að misskilja eða mislesa eitthvað og nú – þegar ég er búin að klára þrjá afgangshnykla hvern á fætur öðrum – tek ég eftir að maður á að nota tvo liti í einu og prjóna alltaf tvær umferðir til skiptis með hvorum ... hvað gera Danir þá? Nenni ég að byrja upp á nýtt? Eða hef ég þetta bara áfram eins og það er – einn lit í einu? Eða byrja ég núna á Arne- og Carlosar-aðferðinni í von um að teppið mitt verði jafn marglitt, suður-amerískt og sjarmerandi og teppin sem þeir félagar sitja sveipaðir í á veröndinni sinni í Noregi?

......

Nú eru nokkrir dagar liðnir síðan ég skrifaði það sem hér fer að ofan og ég veit að lesendur druslubókabloggsins bíða í ofvæni eftir því að lesa um hvernig ég tók á stóra prjónamálinu. Það er skemmst frá því að segja að ég fór leið hinna lötu og byrjaði bara á Arne- og Carlosar-aðferðinni þar sem ég var stödd í teppinu ... ég lít svo á að þetta hafi verið listræn ákvörðun og ég hafi gert uppskrift þeirra félaga „að minni“. Nú verður smekklegur óröndóttur kantur á hvorum enda teppisins. Þetta blessaða teppi hefði raunar aldrei orðið eins smart og þeirra – í fyrsta lagi er fyrirsögnin yfir uppskriftinni þessi: „Teppi prjónað úr alls konar garni í mismunandi litum.“ En það er lygi – teppin þeirra eru greinilega öll úr nákvæmlega eins garni, einhverju norsku ullargarni sem þeir nefna í upphafi bókar. Þetta er garnið sem þeir nota í flestar uppskriftirnar og ég er svo sem ekkert að draga í efa að þeir hafi átt mikla afganga af því – en ég átti hins vegar ekki afganga af samskonar garni sem dygðu í ca 2 x 2 metra teppi svo ég notaði bara allt sem ég fann – móher, léttlopa, plötulopa, kambgarn, bómullargarn og sitthvað fleira sem ég treysti mér ekki til að skera úr um hvaðan kemur. Arne og Carlos til hróss, þá held ég reyndar ekki að teppið mitt verði neitt verra fyrir vikið en það verður ekki eins og jafnt og smart og þeirra.

Að lokum myndi ég segja að þetta væri mjög vönduð, glæsileg og eiguleg bók. Myndirnar eru stórar og fallegar, hér er fullt af skemmtilegum hugmyndum – bæði hagkvæmum og rómantískum. Ef einhver er hins vegar ekki mikið á blóma- og blómálfalínunni, þá ber að varast þessa bók eins og heitan eldinn. En þá má segja að ef einhver sem hefur andstyggð á blómálfum kaupir sér Litríkar lykkjur úr garðinum eftir Arne og Carlos þar sem á baksíðu má sjá þá félagana sitja brosandi í samstæðum stígvélum á krúttalegum trébekk og prjóna dúkkuföt úr marglitu garni meðan heimagerður órói úr skeiðum (sem einnig má finna uppskrift að í bókinni) dinglar friðsæll á milli þeirra, þá getur sá hinn sami sjálfum sér um kennt – þessi bók er svo sannarlega enginn úlfur í sauðagæru (eða í þessu tilviki sauður í úlfaskinni). What you see is what you get!

Engin ummæli: