26. janúar 2014

Bókmenntagetraunin: Úrslit

Eins og fram kom á föstudaginn voru þau Gísli Ásgeirsson og Þórdís Kristleifsdóttir jöfn að stigum þegar allir fjórtán liðir bókmenntagetraunar Druslubóka og doðranta höfðu verið birtir. Áður en farið yrði í bráðabana voru  þau Gísli og Þórdís hvött til að svara ellefta lið getraunarinnar, sem var sá eini sem rétt svar hafði ekki borist við.

Svo fór að Gísli svaraði ellefta lið rétt, og er hann því hér með krýndur sigurvegari bókmenntagetraunar Druslubóka og doðranta og vinnur sæti á námskeiðinu Eftir jólabókaflóðið: Yndislestur í góðum hópi hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, sem hefst í vikunni og druslubókabloggararnir Salka, Hildur og Kristín Svava hafa umsjón með.

Við óskum Gísla hjartanlega til hamingju með sigurinn og þökkum öllum sem tóku þátt í getrauninni kærlega fyrir. Einnig á Endurmenntun þakkir skildar fyrir verðlaunin.

Þess verður svo að sjálfsögðu að geta í hvaða verk textabrotið í ellefta lið er sótt, en það er úr bókinni Lifandi vatnið eftir Jakobínu Sigurðardóttur.

1 ummæli:

Gisli sagði...

Sælar:
Ítreka hér með svar í tölvupósti:
"Ég er hér í sigurvímu og öllu sem því fylgir.
En þar sem fimmtudagskvöldin eru ásetin hjá mér, verður minna úr námskeiðssetu en ég hefði viljað og vissulega
hefði verið gaman að geta nýtt sér þetta en ég fel ykkur að ráðstafa þessu sæti að vild.
Legg þó til að Þórdís Kristleifsdóttir, sem háði bráðabanann við mig, fái það.
Mér nægir í raun að hafa sigrað :)
Bestu kveðjur
Gísli"