9. júlí 2015

Óvenjulegur hryllingur frá Naja Marie Aidt

Naja Marie Aidt
Skæri, blað, steinn er fyrsta skáldsaga dönsku skáldkonunnar Naja Marie Aidt en áður hefur hún gefið út fjöldann allan af smásögum, ljóðum, barnabókum og öðru efni á um 20 ára rithöfundaferli sínum. Hún hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir smásagnasafn sitt, Bavíani, árið 2008 sem kom út í íslenskri þýðingu árið 2011 og ég skrifaði nokkur orð um hér! Sem fyrr er það Ingunn Ásdísardóttir sem þýðir afskaplega vel þótt ekki skilji ég af hverju titillinn er þýddur Skæri, blað, steinn þegar bókin heitir Sten saks papir á frummálinu.

Eins og hin frábæra Bavíani er Skæri, blað, steinn þykk af andrúmslofti – þungu, óþægilegu andrúmslofti. Það fylgir textum Aidt þessi næstum óbæriega fullvissa um að eitthvað andstyggilegt sé yfirvofandi. Nú mætti spyrja af hverju lesandinn ætti að kvelja sig með lestri slíks texta en ástæðandi er sú að samfara óþægindunum er eitthvað ótrúlega heillandi við skrif Aidt – heillandi og ófyrirsjáanlegt – maður hefur sterklega á tilfinningunni að eitthvað hræðilegt sé að fara að gerast – en hvað og hvernig það gerist veit maður ekki og finnur sig knúinn til að lesa áfram og komast að því.
Við þetta bætist að Skæri, blað, steinn er að sumu leyti spennusaga - með þeim formerkjum þó að vitum ekki í raun hvaða glæpur var framinn eða hvort eitthvað glæpsamlegt hafi yfir höfuð átt sér stað. Það eina sem hægt er að stóla á er að forboðinn lætur sér ekki nægja að vera forboði – hið óhugnanlega mun koma fram. Eins og í grískum harmleik eða hryllingssögu eftir Stephen King (sem Aidt hefur sjálf líkt stíl sínum við) er hið hræðilega ekki bara stílbragð heldur veruleiki.
Af hverju bókin heitir Skæri, blað, steinn á íslensku skil ég ekki

Skæri, blað, steinn gerist í ónefndu landi, í ónefndri borg – og er það ákveðið afrek hjá Aidt að geta dregið upp sterka og sannfærandi mynd af borg og samfélagi án þess þó að negla niður hvar það er. Í skemmtilegu viðtali sem Jórunn Sigurðardóttir tók við skáldkonuna (og má, alla vega ennþá, hlusta á hér) talar Aidt um að hafa viljað skapa samfélag sem væri fjölmenningarlegt og þar sem hægt væri að leiða saman á sannfærandi hátt mjög ólíka einstaklinga úr ýmsum stéttum og af ólíkum uppruna. Nöfn persónanna eru þannig úr öllum áttum, skandinavísk, austræn og frönsk – jafnvel innan sömu fjölskyldunnar. Þannig verður umhverfið einhvern veginn kunnuglegt á fjarlægan hátt. Eina landið sem ég útilokaði alveg (fyrir utan Ísland) er fæðingarstaður skáldkonunnar, Danmörk, þar sem aðalsöguhetjan fer í fjallgöngu um miðbik bókarinnar. Hafandi sjálf „klifið“ eitt hæsta fjall Danmerkur – Himmelbjerget sem er 147 m – get ég ekki séð að hin langa og erfiða ganga persónanna í bókinni geti hafa gerst þar.

Frásögnin hefst á því að aðalsöguhetjan, Thomas O’Malley Lindström hefur misst föður sinn. Hann lést í fangelsi – og átti yfir höfði sér ákæru fyrir annan glæp sem Thomas veit ekki hver er. Faðirinn var drykkjumaður og glæpamaður og móðirin yfirgaf fjölskylduna snemma og lést skömmu síðar – æska Thomasar var því enginn dans á rósum. Thomas og yngri systir hans, Jenny, fara heim til föðurins en taka ekkert með sér utan illa farna brauðrist sem Jenny vill eiga til minningar um allar brauðsneiðarnar sem þau systkinin ristuðu sér sem börn. Án þess að vilja gef upp of mikið má segja að í brauðristinni finnur Thomas peninga sem hann felur og eiga (eins og allir vita sem hafa lesið hálfan reyfara eða séð brot úr bandarískum spenniþætti) eftir að draga dilk á eftir sér.

Thomas virðist í upphafi hafa komið ár sinni vel fyrir borð og sagt skilið við erfiða fortíð. Hann á glæsilega konu, rekur pappírs og ritfangaverslun og býr á góðum stað í bænum. Jenny systir hans er hins vegar eilíft fórnarlamb, einstæð móðir í ghettóinu – í sífelldum vandræðum og reiðir sig algjörlega á bróður sinn til að bjarga öllu – stóru sem smáu. En þótt Thomas virðist vera komin óravegu frá æsku sinni verður ljóst við dauða föður hans að svo er ekki. Ef Jenny er föst í hlutverki fórnarlambsins hefur Thomas tekið að sér hlutverk bjargvættarins án þess kannski að vera þess megnugur að bjarga nokkrum – síst af öllum sjálfum sér. Í áðurnefndu viðtali við Jórunni Sigurðardóttur talar Aidt um að hafa viljað skoða karlmennskuna og karlmennskuímyndina. Og án þess að vilja smætta flókna og magnaða sögu niður í eitthvað eitt þá eru þeir þræðir vissulega sýnilegir.

Eftir því sem sögunni vindur fram missir Thomas sífellt meiri stjórn á aðstæðum sínum – og á sjálfum sér – spurningin er hvort ástæður þess má rekja til peninganna sem hann tók eða til bresta í persónu hans sjálfs. Koma vandræði hans að utan eða innan – eða má hvoru tveggja rekja til hins vanhæfa föður? Thomas lítur á peningana sem sárabætur eða arf frá föður sínum en færa má rök fyrir því að hann hafi fengið annað og meira í arf. Við fráfall Jacques, föðurins, sem Thomas þó fyrirleit og jafnvel hataði er eins og fótunum sé kippt undan tilveru hans. Ungur og heillandi maður sem þau hitta við jarðarförina dregur upp mynd af öðrum manni en Jenny og Thomas þekktu sem föður sinn – Jacques kenndi Luc að veiða og kynnti hann fyrir ljóðum. Þessar upplýsingar fylla Thomas gríðarlegri reiði á meðan Jenny gleðst. En hvort er verra – að faðir þeirra hafi verið ófær um að sýna hlýju og mennsku eða að hann hafi haft slíkar hliðar en aldrei sýnt börnum sínum þær?

Bókin skoðar óbeint afleiðingar ofbeldis og vanrækslu á börn en líka, eins og áður sagði á karlmennskuímyndina og þá takmörkuðu möguleika sem bjóðast til að vinna sig út úr erfiðleikum lífsins innan ramma hennar. Eftir því sem ógnin og vanlíðanin eykst innra með Thomasi minnkar að sama skapi takmörkuð geta hans til að tjá sig og deila tilfinningum sínum. Hann leggur allt í sölurnar til að halda andlitinu út áf við og grípur dauðahaldi í þá hugmynd að hann geti notað peningana til að bjarga málunum en einangrar sig frá umhverfinu. Eftir því sem vanmáttur hans eykst kviknar ofbeldið innra með honum og beinist í þær áttir sem síst skyldi.

Endir sögunnar er, eins og Aidt viðurkennir sjálf, opin til túlkunnar og jafnvel erfiður lesandanum. En það er einmitt svona erfiði sem þessi lesandi er fús til að leggja á sig.

4 ummæli:

Ingunn sagði...

Þakka falleg orð í minn garð :-)
Það var samdóma álit útgefanda og mitt að Skæri blað steinn væri það sem oftar væri notað á íslensku en danska röðin. Það má sjálfsagt deila um það eins og svo margt annað þegar kemur að orðfæri.
Kveðja,
ingunn

Hildigunnur sagði...

ég þekki leikinn líka bara sem skæri blað steinn :)

Maríanna Clara sagði...

Ég beygi mig undir útskýringu þýðanda - það getur vel passað að þetta sé oftar leikið svona á Íslandi!

unknow2020 sagði...

شركة عزل اسطح وخزانات بالخبر
شركة كشف تسربات المياه بحفر الباطن
شركة كشف تسربات المياه بالاحساء
https://alkoyaservice.blogspot.com/

https://alkoya.hatenablog.com/