
Þegar byrjað var að sýna kvikmyndina heyrði ég fólk reglulega furða sig á því að Kate Winslet skyldi hafa verið fengin til að leika Hönnu því hún væri alltof ung fyrir hlutverkið. En þegar ég endurnýjaði kynnin við bókina kom í ljós að í fyrsta hluta bókarinnar er tekið skýrt fram að Hanna sé 36 ára og megnið af senunum hennar í myndinni er frá því tímabili. Kate Winslet (sem er fædd 1975) er því tvímælalaust á réttum aldri fyrir hlutverkið.
Hvaðan kemur þá þessi ranghugmynd um aldurinn? Ég efast um að ástæðan sé að viðkomandi hafi ekki lesið bókina. Þvert á móti, ég gæti einmitt trúað því að ræturnar liggi einmitt þar, nánar tiltekið í örlitlu broti af íslensku þýðingunni. Við lesturinn hnaut ég nefnilega hvað eftir annað um tvö orð. „Skinnið mitt“ segir Hanna ítrekað við Michael. Skinnið mitt?!
Hin stórgóða erlenda deild á Borgarbókasafninu gerði mér kleift að fletta upp í frumtextanum og kanna hvaða orð væri notað þar. Í ljós kom að á þýsku segir Hanna „Jungchen“ sem merkir einfaldlega strákur, stráksi … eitthvað á þá leið. Stríðniskeimurinn er þurrkaður rækilega út með þýðingunni „skinnið mitt“ sem passar illa í munn þrjátíu og sex ára gamallar konu. Orðin hafa ömmulegan blæ, jafnvel langömmulegan og hæfa tæplega koddahjali.
Staðreyndir sem tilgreindar eru í framhjáhlaupi í texta verða ekki endilega minnisstæðar. Orðaval á borð við „skinnið mitt“ getur aftur á móti skapað tilfinningu sem verður mun lífseigari en staðreyndirnar. Það kæmi mér ekki á óvart að sú væri raunin í þessu tilfelli.
----------
* Eiginlega er hægt að mæla sérstaklega með því að sjá bíómyndina og lesa bókina svo aftur. Ég get tekið undir með Kristjáni B. Jónassyni um að kvikmyndin geri „bókina í raun betri en maður hélt að hún væri“ þar sem hún skerpi á undirtexta bókarinnar.