Sýnir færslur með efnisorðinu Bernhard Schlink. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Bernhard Schlink. Sýna allar færslur

19. mars 2009

Tvö lítil orð

Nýlega voru nokkrar ágætismyndir í bíó sem gerðar voru eftir skáldsögum. Meðal þeirra var Lesarinn en samnefnd bók eftir Bernhard Schlink kom út 1995 og var þýdd á íslensku 1998. Sagan fjallar á yfirborðinu um samband Hönnu og Michaels; hún er fullorðin þegar sagan hefst, hann er unglingspiltur. En undir niðri leynast meginumfjöllunarefnin: sekt og sektarkennd, afneitun og uppgjör við fortíðina, og stóra samhengið er Þjóðverjar og helförin. (Skemmst er frá því að segja að óhætt er að mæla með bæði bókinni og bíómyndinni en það er annars ekki umfjöllunarefni þessa pistils.)*

Þegar byrjað var að sýna kvikmyndina heyrði ég fólk reglulega furða sig á því að Kate Winslet skyldi hafa verið fengin til að leika Hönnu því hún væri alltof ung fyrir hlutverkið. En þegar ég endurnýjaði kynnin við bókina kom í ljós að í fyrsta hluta bókarinnar er tekið skýrt fram að Hanna sé 36 ára og megnið af senunum hennar í myndinni er frá því tímabili. Kate Winslet (sem er fædd 1975) er því tvímælalaust á réttum aldri fyrir hlutverkið.

Hvaðan kemur þá þessi ranghugmynd um aldurinn? Ég efast um að ástæðan sé að viðkomandi hafi ekki lesið bókina. Þvert á móti, ég gæti einmitt trúað því að ræturnar liggi einmitt þar, nánar tiltekið í örlitlu broti af íslensku þýðingunni. Við lesturinn hnaut ég nefnilega hvað eftir annað um tvö orð. „Skinnið mitt“ segir Hanna ítrekað við Michael. Skinnið mitt?!

Hin stórgóða erlenda deild á Borgarbókasafninu gerði mér kleift að fletta upp í frumtextanum og kanna hvaða orð væri notað þar. Í ljós kom að á þýsku segir Hanna „Jungchen“ sem merkir einfaldlega strákur, stráksi … eitthvað á þá leið. Stríðniskeimurinn er þurrkaður rækilega út með þýðingunni „skinnið mitt“ sem passar illa í munn þrjátíu og sex ára gamallar konu. Orðin hafa ömmulegan blæ, jafnvel langömmulegan og hæfa tæplega koddahjali.

Staðreyndir sem tilgreindar eru í framhjáhlaupi í texta verða ekki endilega minnisstæðar. Orðaval á borð við „skinnið mitt“ getur aftur á móti skapað tilfinningu sem verður mun lífseigari en staðreyndirnar. Það kæmi mér ekki á óvart að sú væri raunin í þessu tilfelli.

----------
* Eiginlega er hægt að mæla sérstaklega með því að sjá bíómyndina og lesa bókina svo aftur. Ég get tekið undir með Kristjáni B. Jónassyni um að kvikmyndin geri „bókina í raun betri en maður hélt að hún væri“ þar sem hún skerpi á undirtexta bókarinnar.