Sýnir færslur með efnisorðinu John dos Passos. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu John dos Passos. Sýna allar færslur

5. mars 2012

American shouldn´t cry he should look kind and grave and very sorry

Um daginn pantaði ég mér Bandaríkjaþríleik John dos Passos eftir að hafa lesið um hann einhvers staðar og fundist spennandi. Ég bjóst við skáldsögunum saman í módern svartri bók úr klassískri seríu eins og ég hafði séð á heimasíðu Amazon, en í staðinn fékk ég þrjú hnausþykk og virðuleg myndskreytt bindi frá 1946. Skömmu síðar datt netið út og ég las allar fimmtánhundruð blaðsíðurnar í einum rykk, lifði og hrærðist í bandarísku samfélagi á fyrstu áratugum 20. aldar og dreymdi vélritunarstúlkur, fyrri heimsstyrjöldina og flugtilraunir Wright-bræðra.

Bandaríkjaþríleikurinn samanstendur af skáldsögunum The 42nd Parallel, Nineteen Nineteen og The Big Money. Stærstur hluti bókanna eru kaflar sem segja sögur einstakra persóna, en þær fléttast saman eftir því sem á líður, persónur í einni sögu koma fyrir í annarri og svo framvegis. Þessir kaflar eru brotnir upp með þrenns konar öðrum köflum; æviágripum fólks sem setti svip sinn á tímabilið (til dæmis Woodrow Wilson, Isadoru Duncan og Thomas Edison), köflum með yfirskriftinni Newsreel þar sem blandað er saman brotum úr dægurlagatextum og fréttum og fyrirsögnum dagblaða frá tímabilinu, og köflum með yfirskriftinni The Camera Eye sem eru skrifaðir í frjálsu flæði og ku vera sjálfsævisögulegir textar höfundar.