ég gaf þér koss um daginn
engan mömmukoss
en þetta var enginn sleikur samt
hann var meira fallegur
en heitur
alls ekki of langur
og alveg passlega stuttur
ætli hann hafi ekki staðið
yfir í um fjórar sekúndur
og þú fékkst gæsahúð og alles
þannig að hann hlýtur
að hafa verið frekar góður
en samt ertu núna að reyna að
selja hann fyrir slikk á barnaland.is
Á síðasta ári leit dagsins ljós á Egilsstöðum bókaforlagið Bókstafur og þetta nýja forlag tók þátt í ljóðabókaflóðinu 2015 með tveimur bókum. Önnur þeirra er ljóðabókin Skapalón eftir hið gamalreynda austfirska klettaskáld Lubba, öðru nafni Björgvin Gunnarsson. Lubbi er viðmælandi vikunnar í ljóðskáldaviðtalaseríu Druslubóka og doðranta og ljóðið sem birtist hér í upphafi, kossinn 3, er úr nýjustu bókinni hans.
Sæll, Lubbi, takk fyrir að vera til í að koma í viðtal! Hvaðan kemur þetta nafn annars – Lubbi klettaskáld?
Sæl Kristín Svava og þakka þér kærlega fyrir að taka þetta viðtal við mig, alltaf gaman þá sjaldan slíkt gerist.
Pabbi minn, Gunnar Finnsson gaf út hina frábæru ljóðabók ljóðmæli árið 1970. Hann notaðist við skáldanafnið gunnarr runolfr og bókina skýrði hana ljóðmæli vegna þess að áður fyrr voru yfirleitt aðeins tvö nöfn á ljóðabókum, Ljóðmæli og Kvæðakver.