Sýnir færslur með efnisorðinu Rummungur ræningi. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Rummungur ræningi. Sýna allar færslur

27. mars 2012

Rummungur ræningi og hamingjan


Rummungur, amma og kaffikvörnin.
Ég hef einhvern tímann áður skrifað um bókaskápinn heima hjá ömmu, þann sem er fullur af bókum mömmu minnar og systkina hennar. Sem barn eyddi ég ófáum stundum fyrir framan þennan skáp og leitað að áður óuppgötvuðum fjársjóðum. Einn mesti dýrgripurinn sem skápurinn hafði að geyma var bókin Rummungur ræningi eftir Otfried Preussler sem er enn í dag ein af mínum uppáhaldsbókum.

Bókin fjallar um þá Hans og Pétur sem vita ekkert betra en sveskjutertuna með rjóma sem þeir eru vanir að fá hjá ömmu Hans á hverjum sunnudegi. Amman aftur á móti veit ekkert betra en að mala kaffi í nýju kaffikvörninni sinni sem leikur uppáhaldslagið hennar þegar sveifinni er snúið. Þegar hinn alræmdi ræningi Rummungur stelur kaffikvörninni verður amman vitstola af sorg og Hans og Pétur ákveða að taka málin í sínar hendur, handsama Rummung og ná kvörninni aftur. En auðvitað fer ekkert eins og ætlað er og í stað þess að fanga ræningjann lenda félagarnir sjálfir í klóm Rummungs. Rummungur ákveður að halda öðrum drengjanna sem þræl en selur góðvini sínum Petrosiliusi Nikodamusi galdramanni hinn fyrir vænan sekk af neftóbaki. Nikodamus hefur lengi vantað þjónustusvein til að skræla kartöflur fyrir sig því það verk þykir honum einmitt svo leiðinlegt. Á meðan Pétur pússar stígvél Rummungs er Hans því fastur í höll galdrakarlsins og afhýðir, sýður, stappar og sker kartöflur í bita. En þrátt fyrir miður gæfulega stöðu þeirra félaga á þessum tímapunkti fer allt vel að lokum, vondi galdrakarlinn tortímist í rústum eigin hallar, ræninginn endar bak við lás og slá og amma fær kaffikvörnina – sem leikur eftirlætislagið hennar meira að segja tvíradda eftir ævintýraförina.