 |
Ólíkt huggulegri mynd en myndin
af þrútna snípnum sem birtist þegar ég
reyndi að leita að bókarkápunni
á Google |
Það er alltaf dálítið undarleg tilfinning að uppgötva að höfundur sem maður hélt að væri karl er kona, eða öfugt. Stundum dregur maður einhverja ályktun sem reynist svo röng, jafnvel án þess að maður hafi sérstaklega leitt hugann að því, sem er svo jafnvel ansi afhjúpandi fyrir kyngreiningartilhneiginguna sem er svo rík í manni. Ég semsagt var alveg handviss um að rithöfundurinn
S J Watson væri kona; í síðustu viku spændi ég í mig fyrstu bók Watsons, metsöluskáldsöguna
Before I Go To Sleep, og velti því stuttlega fyrir mér í upphafi lestrar hvort um karl- eða kvenkynshöfund væri að ræða, ákvað svo einhvern veginn að þetta hlyti að vera kona og það var ekki fyrr en núna rétt áðan, þegar ég fletti bókinni upp á Amazon til að geta linkað á hana í færslunni, að ég komst að því að S J er fertugur karlmaður að nafni Steve.
Það eru sennilega meðmæli með Steve að ég skuli hafa haldið svona staðfastlega að hann væri kona; þessi fyrsta skáldsaga hans er nefnilega skrifuð í fyrstu persónu frá sjónarhorni konu á fimmtugsaldri. Án þess að ég sé sammála þeim sem finnst karlar ekki geta skrifað trúverðugar konur og konur ekki getað skrifað trúverðuga karla (hvaða rugl er það líka? Getur maður þá aldrei skrifað um fólk sem er eitthvað sem maður er ekki?) þá er þetta áberandi trúverðug rödd.
 |
S J Watson, sem er ekki kona |
Ástæðan fyrir því að ég festi kaup á
Before I Go To Sleep úti í Leicester um daginn var sú að vinkona mín sem var með mér í bókabúðinni mælti afskaplega mikið með henni, og áður hafði önnur vinkona (sem hefur yfirleitt svipaðan smekk og ég) minnst á dálæti sitt á bókinni. Ég átti nokkurra klukkustunda lestarferðir framundan og þar eð þær sögðu báðar að þessa bók yrði maður að lesa í einum rykk fannst mér það hljóma nokkuð vel. Bókin hefur slegið rækilega í gegn þar ytra og mér skilst að Ridley Scott hafi nú tryggt sér kvikmyndaréttinn.