 |
Körfukjúklingur |
Það vakti athygli mína að í tveimur afar ólíkum íslenskum skáldsögum sem ég hef lesið nýlega er töluverðu púðri eytt í að fjalla um svokallaðan „körfukjúkling“ eða „Chicken in a Basket“ sem ku hafa verið vinsæll réttur á veitingahúsinu Naustinu (og víðar) á áttunda áratug síðstu aldar. Hann ber fyrst á góma í nýjustu skáldsögu Braga Ólafssonar,
Handritinu að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson, sem kom út 2010. Ári síðar dúkkar hann svo upp í
Einvígi Arnaldar Indriðasonar. Sennilega hefur þessi nýstárlegi réttur þegar verið orðinn úreltur þegar ég komst til vits og ára, ég minnist þess að minnsta kosti ekki að hafa heyrt hann nefndan áður. Greinargóða lýsingu er þó að finna hjá Arnaldi í kafla sem greinir frá kvöldstund einnar aðalpersónunnar á Naustinu. Þar segir meðal annars: „[Á] borði skammt frá þeim var eldri maður að gæða sér á körfukjúklingnum, en það voru kjúklingabitar djúpsteiktir í olíu. Réttinum fylgdi lítil þurrka og mundlaug með sítrónusneið því gestir vildu stundum borða kjúklinginn með fingrunum.“ (s. 89) Þetta virðist sem sagt hafa verið einhvers konar forveri Kentucky Fried fötunnar og McNuggets dulbúinn sem lúxusréttur.