![]() |
Minik stuttu eftir komuna til New York |
Það hafði vakið athygli fyrri landkönnuða að inúítar á Norðvestur-Grænlandi notuðu verkfæri úr járni og virtust hafa greiðan aðgang að einhvers konar járnnámu. Járnið reyndist koma úr þremur loftsteinsbrotum í Savissivik við Melvillesund. Innfæddir kölluðu þau Konuna, Hundinn og Tjaldið (eða Ahnighito), og var Tjaldið langstærst, eða 31 tonn að þyngd (Konan var 3 tonn og Hundurinn 400 kílógrömm). Peary hafði heyrt af loftsteininum og beitti miklum fortölum til að fá einhvern kunnugan staðháttum til að vísa sér leiðina að honum. Íbúar svæðisins voru flestir tregir til þess þar sem þeir höfðu áhyggjur af að hann hefði brotin með sér á brott—enda reyndist full ástæða fyrir þeim áhyggjum. En Peary fann að lokum viljugan leiðsögumann og þannig tókst honum að ná loftsteinsbrotunum.