

Játning: Ég er alltaf að reyna að draga úr bókakaupum, en er á síðustu árum orðin afskaplega gjörn á að kaupa barnabækur til að eiga uppi í hillu eftir svo og svo mörg ár ... ýmist hugsa ég með mér að mín stórkostlega litla frænka geti notið þeirra eftir nokkur ár eða jafnvel að hugsanleg, möguleg framtíðarafkvæmi mín muni hafa gaman af þeim. Það er sumsé ekki nóg með að ég fylli allt af bókum fyrir sjálfa mig hér og nú, heldur hlaðast líka upp bækur til lestrar í ókominni framtíð.
Slík kaup gerði ég einmitt í gær, þegar ég leit við á lagersölu Forlagsins með það að markmiði að kaupa tvær afmælisgjafir. Ah, hvílík sjálfblekking - eins og ég hefði einhvern tíma látið staðar numið við það. Ég missti mig reyndar ekkert svakalega en festi þó kaup á nokkrum góðum, t.d. enn einu eintaki af Lífið framundan eftir Romain Gary sem ég hef gefið ófáum vinum í gegnum árin. En ég rakst líka á eina af mínum uppáhalds eftir Astrid Lindgren; bók sem merkilega margir hafa aldrei heyrt á minnst. Þetta er hin stórskemmtilega Rasmus fer á flakk, í þýðingu Lindgren-þýðandans mikla Sigrúnar Árnadóttur, en bókin kom fyrst út á íslensku árið 1987, rúmum þrjátíu árum eftir að hún var skrifuð.