Ursula K. Le Guin
© Marian Wood Kolisch |
Um tvítugt komst ég að því, mér til mikillar gleði, að til væru fleiri bækur úr seríunni um galdramanninn Gjafar, þótt aðeins sú fyrsta hefði verið þýdd á íslensku. Ég las í skyndi þær sem þá voru komnar út og svo bættust fleiri við. Síðar hef ég lesið aðrar bækur eftir Le Guin og ekki orðið fyrir vonbrigðum nema einu sinni: ég gafst upp á nýjustu bókinni hennar, Lavinia. Kannski gef ég henni séns aftur seinna.
Earthsea-bækurnar eru alls sex. Fyrstu þrjár, A Wizard of Earthsea, The Tombs of Atuan og The Farthest Shore komu út á árunum 1968 til 1972 og voru lengi vel kallaðar „The Earth Sea Trilogy“, eða þar til fjórða bókin, Tehanu, kom út 1990. Síðustu tvær, The Other Wind og smásagnasafnið Tales from Earthsea, komu út 2001. Mér þykir vænst um fyrstu þrjár, en smásögurnar eru góðar líka. Mér virðist Le Guin hafa orðið fyrir einhvers konar femínískri vakningu milli þess sem hún skrifaði þrjár fyrstu, kringum 1970, og Tehanu í lok 9. áratugarins. Það er eins og hún sé mjög markvisst í Tehanu að reyna að skrifa femíníska bók og það er eitthvað svolítið þvingað við það. Hinar þrjár á undan eru svo sem ekkert andfemínískar en þær einkennast ekkert sérstaklega af femínískri sýn, ef svo má segja.
Ef maður vill lesa bók eftir Le Guin sem virkilega hristir upp í hugmyndum okkar um kyn og kynhlutverk þá er The Left Hand of Darkness málið. Sú bók kom út 1969 og er í einu orði sagt frábær. Hún er hluti af Hainish-seríunni, sem fjallar um afkomendur mannanna í fjarlægri framtíð. Meðal annars er þessa afkomendur að finna á ýmsum fjarlægum plánetum og hafa þeir þá gjarnan verið ræktaðir til að búa við þær aðstæður sem þar eru, en allar þessar manntegundir eru ættaðar frá plánetunni Hain. The Left Hand of Darkness gerist á plánetunni Vetri, eða Gethen, þar sem loftslag er, eins og nærri má geta, kalt. Það sem einkennir fólkið á Vetri er að það er kynlaust, eða tvíkynja. Manneskjurnar, eða þær verur sem gegna hlutverki þeirra, eru alla jafna kynlausar nema þegar þær fara á nokkurs konar lóðarí, sem kallað er kemmer. Þá umbreytast þær ýmist í karla eða konur og ræðst það hvort tiltekinn einstaklingur breytist í karl eða konu af tilviljun eða þá því hvort nærstaddur tilvonandi bólfélagi hefur breyst í karl eða konu. Þannig breytist einn og sami einstaklingurinn stundum í karl og stundum í konu og getur verið faðir sumra barna sinna og móðir annarra. Bókin felur í sér alls konar pælingar um eðli kyns sem og um atferli og hugmyndir mannanna, t.d. árásarhneigð, friðsemd og stjórnmálaplott, auk þess að hafa að geyma spennandi söguþráð. Hér má lesa áhugaverða umfjöllun um þessa bók.
Í öðrum bókum í Hainish-seríunni má finna ýmsar aðrar pælingar um eðli og eiginleika manneskjunnar, fléttaðar inn í spennandi og áhugaverðar sögur. Planet of Exile (1966) gerist til dæmis á plánetunni Werel sem er 60 ár (samkvæmt okkar talningu) að fara um sól sína og árstíðirnar eru þar af leiðandi afar langar, eða um 15 ár hver. Í þeirri bók er einnig tekist á við fordóma gagnvart „hinum“ og átök milli mismunandi hópa. Þekktasta bókin úr Hainish-seríunni er líklega The Dispossessed (1974) sem er kannski sú sem er mest pólitísk. Hana hef ég ekki tímt að lesa enn og hlakka til þegar ég læt verða af því.
Af öðrum bókum Le Guin má til dæmis nefna The Lathe of Heaven (1971) sem fjallar um mann sem er þeim eiginleikum búinn að draumar hans rætast í bókstaflegum skilningi. Það sem hann dreymir verður sem sagt að raunveruleika, hvort sem það er gott eða slæmt. Eins og fólk getur rétt ímyndað sér veldur þetta ýmsum vandræðum og óprúttinn geðlæknir reynir að færa sér þetta í nyt. Always Coming Home (1985) fjallar um framtíðarsamfélag í Kaliforníu sem er að flestu leyti tæknilega frumstætt, einhvers konar póst-tæknilegt samfélag. Þar er að finna mjög áhugaverðar hugleiðingar um mögulega lífshætti en bókin sem slík fannst mér reyndar síðri en flestar aðrar bækur sem ég hef lesið eftir Le Guin, fremur langdregin aflestrar.
Nýverið las ég þrjár nýlegar bækur eftir Le Guin úr seríu sem heitir Annals of the Western Shore. Sögusviðið er landsvæði sem nær yfir nokkur lönd og samfélagið minnir helst á miðaldasamfélag ef litið er til tæknikunnáttu. Sumt fólkið þar er búið galdramætti eða öðrum yfirnáttúrulegum hæfileikum og út frá því má flokka þetta með fantasíubókmenntum en yfirnáttúran er þó ekkert endilega í lykilhlutverki. Bækurnar þrjár, Gifts, Voices og Powers, eru allar þroskasögur ungs fólks. Þessar bækur eru markaðssettar sem unglingabækur og eiga sjálfsagt ágætlega við sem slíkar en ég myndi ekki mæla með þeim fyrir ung börn. Mér finnst þær fullgild lesning fyrir fullorðna líka, enda ástæðulaust að flokka allt sem í heiminum er í barna- og fullorðins-. Í þeirri síðustu, Powers, er sagt frá þrælnum Gavir sem fyrst um sinn er hlýðinn og góður þræll eigenda sem fara vel með hann, ef svo má segja. Hann lítur til að byrja með á hlutskipti sitt sem rétt og eðlilegt ástand og við fáum að fylgjast með því hvernig hann vaknar til vitundar um ranglætið við þrælahald. Hann strýkur svo og lendir í ýmsu, er í raun að leita að sjálfum sér, og jafnframt uppgötvar hann ýmislegt, eins og að jafnvel meðal hinna frjálsu manna sem þykjast hafna öllu þrælahaldi er farið með konur eins og hvern annan varning.
Le Guin hefur einstakt lag á að skapa djúpar persónur og með þeim fer maður í gegnum alls konar hugleiðingar um heiminn og manneskjuna án þess að nokkurn tímann votti fyrir mötun eða því að stagast sé á hinu sjálfsagða. Heimarnir sem hún skapar eru alltaf á vissan hátt jarðbundnir, sama hve langt er gengið í fantasíunni. Ég verð alltaf yfir mig hissa þegar ég rekst á fantasíu- og vísindaskáldsöguaðdáendur sem hafa ekki lesið Le Guin og er afar sæl með að eiga nokkrar af bókum hennar enn ólesnar.
4 ummæli:
Jiminn, ég hef ekki lesið neitt eftir hana. Best ég fari að drífa í því asap.
Vesturströndin er svolítið lík Portúgal! (Skemmtileg færsla!)
-kst
Já þá er það hér með ákveðið að ég ætla að lesa meira af Ursulu þar sem ég hafði mikið gaman af Galdramanninum. Gæti vel verið að The Left Hand of Darkness myndi fá að læðast fram fyrir röðina þar sem hún virðist mjög áhugaverð.
Takk fyrir þetta :)
Gróa Björg
Áhugaverð grein!
Ég mæli með The Dispossessed, hún er snilld :)
Skrifa ummæli