„Í flestum nágrannalöndum okkar eru kjúklingar hversdagsmatur, en svo er ekki hér, vegna þess hversu dýrir þeir eru. Kjúklingarnir hafa orðið óþyrmilega fyrir barðinu á vélvæðingunni, því algengt er, að þeir séu ræktaðir innanhúss og þá gjarnan í búrum, aldir á sérstöku fæði. Þessir kjúklingar lifa engu, sem getur kallazt kjúklingasæmandi líf, og verða afar bragðdaufir. Ég er ekki viss um, að við höfum náð jafn langt í vélvæðingunni, en sjálfsagt er að hafa augun hjá sér og forvitnast um æfiskeið kjúklinganna, þegar við kaupum þá.“
Matreiðslubók handa ungu fólki á öllum aldri, bls. 161
Bókin kom út árið 1978. Þótt móðir mín haldi því fram að höfundi hafi fyrst og fremst verið umhugað um bragðið af kjúklingunum, finnst mér alveg stórkostlegt að þetta hafi ratað í matreiðslubók fyrir rúmum þrjátíu árum.
5 ummæli:
En athyglisvert! Þessi bók er til heima hjá mömmu og pabba, held hún hafi verið afskaplega vinsæl í kringum 1980. Eins og ég er nú mikill bókaperri þá finnst mér mjög gaman að sjá matreiðslubækur sem sést að hafa verið mikið notaðar. Það eru einu bækurnar sem ég trompast ekki yfir að slettist á.
Þess má til gamans geta að téð Sigrún Davíðsdóttir matreiðslubókahöfundur er núna líka Sigrún Davíðsdóttir útvarpskona og skálsagnahöfundur.
Já, þessi hefur verið notuð mikið og er notuð enn. Og já, ég hefði einmitt kannski átt að setja hana Sigrúnu í samhengi, það var náttúrulega að koma út bók eftir hana fyrir jól... Erum við búnar að fá eintak af henni? :)
Já, Erna fékk eintakið okkar. Hún er örugglega með það í Víetnam.
En ég skil ekki hvers vegna ekki má slettast á bækur. Ég les á meðan ég baka og elda (ekki bara matreiðslubækur) og líka í freyðibaði svo mér er alveg sama þótt bækurnar séu útslettar og þvældar. Svo krassa ég miskunnarlaust í þær allskonar sniðugheit og prófarkales þær á meðan ég les, fletti upp einhverju sem ég sé að er rugl og leiðrétti það og svona. Eftir það fara bækurnar kannski í Góða hirðinn. Ég ætti líklega að skrifa færslu og birta myndir af mjög fyndinni útkrotaðri bók sem ég fann á fornsölu einu sinni (hún er merkt svo ég veit hver strikaði undir og krassaði).
Æ, ég lánadi eintakið mitt af bókinni eftir Sigrúnu í nóvember því ég hélt að ég fengi þad fljótt aftur en þad gekk ekki eftir og ég var of upptekin til að muna að reka á eftir því. En ég lofa að gera eitthvað í málinu við fyrsta tækifæri eftir heimkomuna!
Skrifa ummæli