Rithöfundurinn og fræðimaðurinn David Lodge er búinn að vera lengi að. Hann gaf út sína fyrstu skáldsögu árið 1960 og hefur síðan gefið út fjöldamargar bækur tengdar bókmenntafræðum, leikrit, smásögur, 14 skáldsögur í viðbót auk þess að hafa skrifað handrit fyrir sjónvarpsþætti. Nýjasta bókin hans, Deaf Sentence, kom út í fyrra og er nú loksins komin út í kilju. Hana má flokka með öðrum akademískum skáldsögum eftir David Lodge, að því leyti að aðalsöguhetjan vinnur í háskóla, en undirtónn sögunnar er mun alvarlegri en fyrr.
Orðaleikurinn í titli bókarinnar er auðskilinn en kannski illþýðanlegur. Deaf Sentence segir sögu (í fyrstu og þriðju persónu til skiptis, eins og tæknilegum bókmenntafræðingi sæmir) hins heyrnardaufa bókmenntaprófessors Desmond Bates. Sá er virtur fræðimaður á sínu sviði en fór fyrr á eftirlaun frá háskólanum vegna þess að honum fannst hann ekki lengur ráða við kennsluna sökum heyrnarskerðingar. Við starfslok verður honum furðu lítið úr sjálfstæðri fræðimennsku og einangrast mjög. Lodge spilar á þá hugmynd að heyrnarleysi jafngildi félagslegum dauðadóm og skrifar af mikilli einlægni um efnið. Þegar forvitinn lesandi fer að gúgla kemur auðvitað í ljós að Lodge er sjálfur mjög heyrnarskertur. Hér skrifar hann sjálfur um heyrnarskerðingu sína: http://entertainment.timesonline.co.uk/tol/arts_and_entertainment/books/article3778988.ece
En þó umfjöllunarefnið sé auðvitað grafalvarlegt er Lodge launfyndinn sem fyrr. Grátlega fyndin samskipti Desmonds við aldraðan föður sinn eru einir bestu kaflar bókarinnar og eins eru nokkur óbærilega vandræðaleg atvik þar sem lesandinn „heyrir” en aðalsöguhetjan ekki. Þetta er hvorki Small World né Therapy, en ágætis David Lodge bók engu að síður.
6 ummæli:
Spennandi bók - og áhrifamikil grein sem þú vísar á...hafði það ekki áhrif á bókina (eftir á) að vita að höfundurinn var að fjalla um eigin djöfla?
Það hlýtur að vera; hún er alveg hætt að gera grín að heyrnarlausum núna!
Skemmtileg vinkona mín veit fátt skemmtilegra en David Lodge. Ég keypti því og las Lítinn heim í þýðingu Sverris Hólmarssonar og fannst bókin ógeðslega leiðinleg.
Ég verð að vera sammála skemmtilegu vinkonu þinni, Þórdís.
Það er að segja fyrir utan skáldsögu Lodge um Henry James Author, Author sem ég bara náði engum tengslum við. Líklega vegna þess að ég hef aldrei getað lesið Henry James sökum leiðinda og óþols fyrir stílnum.
Þórdís, prófaðu að lesa Lítinn heim á ensku. Eða Changing Places. Ég trúi því ekki að manneskja sem er ekki ókunnug háskólasamfélögum hafi ekki gaman af þessum bókum.
Ég reyndi einu sinni að lesa Changing Places á ensku og gafst upp. Man ekki hvort það var áður eða eftir að ég kynntist háskólasamfélaginu (of) náið.
Skrifa ummæli