13. desember 2010

Framhaldsfærslur Eiríks Arnar um Hreinsun og Oksanen

oksanenEiríkur Örn Norðdahl les Hreinsun eftir hina dónalegu Sofi Oksanen þessa dagana. Ég er ekki búin að lesa bókina en ég les hins vegar bloggfærslur Eiríks Arnar um bókina af iðandi áhuga. Hér er bloggið hans! Nýjustu færslurnar eru auðvitað efst þannig að það er kannski ráð fyrir áhugasama að renna sér neðar á síðuna og byrja á upphafsfærslunni um bókina.

Það eru greinilega misjafnar skoðanir á Hreinsun og Sofi Oksanen er víst ekki öllum Eistum að skapi, kannski er hún dæmi um spámanninn í föðurlandinu (ja eða móðurlandinu, faðir Sofiar er víst finnskur en mamman frá Eistlandi) ég veit ekkert um það. En það er margt áhugavert í því sem Eiríkur Örn skrifar og tínir til um þessa marglofuðu bók, til dæmis segir hann: „Sofi Oksanen skrifar einsog gamall grobbinn kall. Hún skrifar „bókmenntastíl“ – nóbelsverðlaunastíl fyrir dummies." Og hér er önnur tilvitnun úr nýjustu færslunni þar sem hann fjallar um greiningu gagnrýnenda, eða kannski greiningarleysi: "Ég finn reyndar mjög lítið af analýsu í þeim dómum sem ég hef lesið – það er mikið af stórum lýsingarorðum og ýjað að því að bókin fjalli um átakamikið samband tveggja kvenna og ble og bla, en 99 af hverjum hundrað orðum gætu hæglega verið úr auglýsingatexta útgefandans. Sem segir kannski sitt um standardinn – hvað sé að verða um bókmenntakrítík í Evrópu."

Ég hlakka til að lesa bókina (ekki alveg strax samt - ég má ekki vera að því) og komast að því hvort þessi margverðlaunaða bók sé Hollywood-melódrama í ætt við Schindler's list eða hvort hún sé eins stórfengleg og flestir vilja halda fram.

Þórdís

20 ummæli:

Þórdís sagði...

Það þarf líklega að skrifa um bók Egils Einarssonar eða endurminningar stórglæpakvendisins Catalínu til að einhver gíri upp í sér þrek til að ræða um bókmenntir á þessu kommentakerfi - ó mig auma!

Kristín í París sagði...

Hehe, ég var búin að skrifa langt svar í morgun en svo gat ég ekki endað það svo ég strokaði allt út. Nú er ég miður mín. Ég var komin í pælingar um Angela's Ashes og eitthvað fleira þegar ég var komin í blindgötu.
EN, ég fylgist líka spennt með Einari Erni og skrifum hans um Sofi Oksanen. Mér finnst þau bæði heiðarleg (hann viðurkennir fordómana fyrirfram) og svo er hann vel ritfær. Hins vegar er ég ekki endilega alveg sammála öllu en finnst ég einmitt ekki geta svarað því þar sem ég er eins og þú, á eftir að lesa bókina. Ég ætla að gera það, vonandi bara rétt eftir áramót (treysti á að tengdó rífi hana í sig og láni mér hana eftir fríið).
Ég er, líkt og mjög margir, alltaf skeptísk á alhliða lof. En stundum verð ég samt rosalega ánægð með lestur oflofaðra bóka. Til dæmis heillaðist ég algerlega af Angela's Ashes, þó ég væri með bullandi fordóma gagnvart henni (fátæktarklám og amerískur draumur). Mér fannst hún bara einmitt svo frábærlega skrifuð. Kannski er það líka galli, en þar skilja líka kannski leiðir okkar Einars Arnar. Hann vill kannski eitthvað annað. Toga og teygja, meðan ég sætti mig alveg við eitthvað sem bara... já... þarna er ég komin í blindgötuna. Eitthvað sem... það eru mínar uppáhaldsbækur, sem gera eitthvað en ég get ekki sagt hvað er.

Þórdís sagði...

Talandi um Ösku Angelu og reyndar allar (þessar fáu sem hann skrifaði) bækur Franks McCourt þá eru þær í uppáhaldi hjá mér. Hann er frábær höfundur! FRÁBÆR - já.

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Ég veit ekki alveg hvers vegna, en oft þegar fólk er ósammála mér fær það nafnadillur í höfuðið og kallar mig ýmist Einar Örn, Eirík Norðfjörð eða Eirík Önd (það síðastnefnda hefur reyndar ekki gerst síðan ég var fimm ára - en það gerðist ítrekað og ég ber enn eftir það svaðaleg andleg ör).

Þórdís sagði...

Ég hef líka verið kölluð Þóra, Þórný og Þórleif - finnst það alltaf dálítið sérstakt.

Kristín í París sagði...

Æ, fokk, sorrí Eiríkur! Ég veit alveg hvað hljóp í mig, ég þekki mann betur en þig sem heitir Einar Örn. En ég veit samt alveg að þú heitir Eiríkur. Fyrirgefðu mér aftur... það má alveg laga þetta ef ritstýrur nenna.

Kristín í París sagði...

Og. Ég er ekkert endilega ósammála þér, ég á eftir að lesa bókina. Og. Ég er oft kölluð Kristína af Frökkum og þeir tala næstum alltaf um Finnland þegar þeir vilja tala um Ísland.

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Þetta er alltílagi. Ég held líka að þetta sé ekki þér að kenna. Þetta er meira einsog einhver bölvun sem hvílir á mér, en þú varðst óvart fyrir. Á meðan það er ekki 'Eiríkur Önd' þá er ég alveg sáttur.

Sigfríður sagði...

skemmtilegt þetta með nöfnin - Eiríkur Önd er náttúrlega toppurinn! en það er alveg ótrúlegt hvað nöfn geta bögglast fyrir fólki - ég er t.d. iðulega kölluð Sigþrúður (sem fer geðveikt í taugarnar á mér) eða Sigríður (sem mér finnst skiljanlegra) og sumir vilja endilega að ég heiti Sigfríð (sem mér finnst frekar fríkað). Svo hitti ég einu sinni konu sem deilir með mér "gælunafni" (en það finnst mér vera alveg veruleg innrás í mitt prívatspeis) og sú heitir Sigþrúður og lætur það fara í taugarnar á sér þegar allskonar fólk útí bæ kallar hana Sigfríði.

bokvit sagði...

haha - já þetta auma bölvunin Eiríkur - sjálf er ég oft kölluð Anna María en það er hins vegar ekki í neinum tengslum við það að fólk sé ósammála mér. Ég er hins vegar ósammála þér sem myndi geta boðið upp á sprellfjörugar umræður hér á blogginu en mér er hins vegar lífsins ómögulegt að styðja mál mitt án þess að afhjúpa æsispennandi þræði sögunnar - og slíkt myndi reyfarafanatíkerinn ég aldrei gera! Alla vega ekki fyrr en Þórdís og Kristín hafa lufsast til að lesa bókina!

hilsen
Maríanna (mér tekst ekki að heita neitt annað en bokvit í þessu kommentakerfi...sorry)

Þórdís sagði...

Þú þarft örugglega bara að skrá þig út til að heita ekki bokvit - ertu ekki bara innskráð á síðuna?
Já og svo máttu alveg afhjúpa Hreinsun mín vegna (ég þrái svo debatt).

Eyja sagði...

Ég lauk við bókina í gærkvöldi og verð að valda debattsjúklingum vonbrigðum með því að játa að ég er miklu meira sammála Eiríki ekki-önd heldur en ósammála. Viðbrögðin hjá mér eru kannski ekki alveg eins sterk en mikið til í sömu átt. Mér fannst stíllinn ofhlaðinn, a.m.k. á köflum, og ég pirraði mig líka á skortinum á gráu tónunum. Er náttúrlega haldin sama hæpóþoli og Eiríkur Örn lýsir og hef þannig séð komið að lestrinum á svipuðum forsendum. En í heildina mundi ég segja að þetta sé vel skrifuð bók og vel þess virði að lesa, þótt hún sé ekki endilega stórkostlegt meistaraverk.

Hvað varðar femíníska lesturinn þá held ég að ég sé neikvæðari en Eiríkur. Jú, bókin felur auðvitað í sér sterka ádeilu á mansal og vændi og minnir á að konum sé nauðgað í stríði og sterkar lýsingarnar hjálpa til við það. En margt í bókinni fannst mér bara bölvað rugl þegar ég skoðaði það með femínistagleraugunum. Persóna Aliide skilgreinist af óendurgoldinni ást hennar á þessum andskotans aumingja. Mér fannst lýsing Eiríks, og Úlfhildar, á Hans allt of væg, maðurinn er annað hvort hálfviti eða óhugnanlega eigingjarn og willfully ignorant ef miðað er við þær fórnir sem konurnar færa til að ekki sé skert hár á höfði blessaðs gulldrengsins. Og ekki er það almennilega ljóst hvað þær systur sjá við hann til að byrja með, nema hann virðist vera myndarlegur og viðmótsþýður. Ekki standa þær saman, og þær fórna meira að segja barninu, allt fyrir þennan gaur. Sem sagt er það óverðskulduð ást á karlmanni sem er eitt helsta hreyfiaflið hjá systrunum. Það er ekki fyrr en í lokin, þegar Aliide sýnir samstöðu með Zöru (best að segja ekki hvernig til að skemma ekki fyrir þeim sem ekki hafa lesið bókina), sem maður sér eitthvert almennilegt girl power hjá henni. Karlmennirnir í bókinni eru allir með tölu skrímsli, Aliide er stórfurðuleg og maður fær engan almennilegan botn í hana, hin fullkomna húsmóðir og eiginkona Ingel virðist hálfdauf eitthvað, og dálítið dularfullt hvað hún er græn og lítið tortryggin gagnvart þessu "stórkostlega" atvinnutilboði sem Zara fær frá Þýskalandi, þrátt fyrir að hafa séð vinkonuna (sem ég man ekki hvað heitir) sem kemur þarna í heimsókn á drossíunni í byrjun, gömul og reynd konan. Og hvers lags vinkona er þetta nú sem kemur þarna og platar Zöru út í þetta? Það er eiginlega helst Zara sem virðist vera nokkuð skiljanleg, og grá (þ.e. ekki svart/hvít), persóna. Sem sagt: karlarnir skrímsli, konurnar standa ekki saman.

Kristín í París sagði...

Vá, nú er ég hrikalega hikandi með að gefa tengdó bókina. Hún er svoddan kynjafræðikelling. En samt, gæti komið eitthvað spennandi út úr því, er það ekki? Ég er búin að roðna ca fimm sinnum í vikunni yfir þessu Einars-rugli mínu og er létt að sá hvað Eiríkur tekur þessu létt (og lofa því að kalla hann aldrei önd, ekki einu sinni aðalönd).

Maríanna Clara sagði...

Jæja - nú ætti Þórdís að vera farin að skríkja af gleði yfir umræðunum!

Mér finnst Aliide vera þúsund sinnum margræðari og „grárri“ persóna en nokkurn tíman Zara. Zara er meira gangandi áfall sem hefur ekki byrjað að vinna úr atburðum á meðan að Aliide er magnað dæmi um að þeir sem lifa af lifa ekki endilega af. Hún er unglingur þegar hinn margumræddi Hans kemur til sögunnar og hefur alltaf lifað í skugga systur sinnar sem er „fullkomin“ á meðan Aliide sjálf er svo breysk og misvel lukkuð á alla kanta. Mér finnst Hans vera viljandi óræð og jafnvel óspennandi persóna - málið snýst aldrei um hann - hann verður bara eitthvað óljóst ideal sem Aliide heldur dauðahaldi í gegnum alla martröðina til að lifa af.

Það ferli sem síðan fer í gang sýnir hvernig þetta sjúka stríðsástand - hvernig óttinn fer með fólk. Rænir það sjálfsvirðingunni, persónuleikanum og jafnvel mannleikanum (svo ég gerist nú dramatísk).
Skrímslið í sögunni er Aliide (já Þórdís - þú kallaðir þetta yfir þig sjálf) og hún er líka maðkflugan miklu frekar en útlendingurinn eins og Eiríkur sagði. Rússarnir eru vissulega skepnur en það eru Þjóðverjarnir líka (sem ljúga því að allir snúi aftur) og ekki síst Eistarnir sjálfir (Aliide og fleiri bæjarbúar sem njósna og ljúga til að bjarga eigin skinni). Hermennirnir eru skrímsli en ekki karlmennirnir almennt frekar en konurnar - eiginmaður Aliide giftist henni til að bjarga sjálfum sér og Aliide giftist honum af nákvæmlega sömu ástæðu. Bærinn allur sýkist og sjálfbjargarviðleitnin er sterkasta aflið.

Ég get ekki heldur dæmt Ingel fyrir að hafa ekki séð í gegnum atvinnutilboðið - ég held að fólk hafi almennt trúað því að aðstæður hlytu að vera betri í vestrinu (og halda jafnvel enn) - eða ég sé ekki að allar þær konur sem hafa verið blekktar í mansal gegnum árin geti bara kennt ömmu sinni um! Vinkonan er svo væntanlega líka bara skemmd - það er nú einmitt niðurstaðan úr þessu öllu saman. Fólk verður ekki sterkt og gott af að lifa svona skelfingar af (nema þá í einhverjum undantekningar tilfellum) - það skemmist - það er hægt að eyðileggja mennskuna í fólki. Þess vegna fannst mér nú bara hressandi að Aliide væri ekki einhver hetja.

En það sem mér fannst svo vel gert var að sýna okkur hvernig Aliide verður eins og hún verður - gangandi tímasprengja óttans sem heldur sér gangandi í þessum þráhyggjulegu húsverkum sem er lýst af brjálæðri nákvæmni. Það er í þeim sem óhugnaðurinn liggur en um leið er eitthvað heillandi við þau...

Mér finnst Aliide einhver eftirminnilegasta og áhugaverðasta persóna sem ég hef kynnst (í bókarformi) í lengri tíma. Mér er líka lífsins ómögulegt að dæma hana þrátt fyrir allt því ég veit ekki hvernig ég myndi bregðast við sjálf (og vona innilega að ég muni aldrei komast að því). Hún verður skrímsli en nær svo að einhverju leyti að hreinsa sig í lokin...

Þannig að já - ég mæli með þessari bók - ekki fullkomin en alveg mögnuð. En það er náttúrulega bara hið besta mál að það eru ekki allir sammála því - annars væri fullkomlega óþarft að halda svona bloggi gangandi yfirhöfuð!

Þórdís sagði...

Danke! Þið eruð ljómandi!

Eyja sagði...

Ég held að málið snúist svo sem ekkert um að dæma einhvern eða ekki. Fólk sem verður skrímsli (og Aliide er vissulega einhvers konar skrímsli) fæðist sjaldnast þannig (og þó svo væri, væri það meiri eða minni ástæða til að dæma það?) heldur er yfirleitt einhver saga þar á bak við. Það sem truflar mig við Aliide sem persónu er ekki skortur á margræðni, heldur eiginlega frekar það að ég fæ engan botn í hana. Og mér finnst ég þurfa að geta haft einhverja hugmynd um hvers vegna persónur gera það sem þær gera til að ég fái eitthvað almennilegt út úr sögunni. Sumt skilst svo sem, eins og öfundin í garð systurinnar að einhverju leyti, og að stríðið og það sem því fylgir fari illa með hana, en ekki hvers vegna þetta er allt svona yfirdrifið. Og mér finnst hún nú meira svona svargrá heldur en grá. Eiginlega passar samstaða hennar með Zöru ekki við annað í fari hennar, og kannski gæti einhver sagt að það geri hana margræða, en þessi samstaða verður eiginlega óskiljanleg og það er ekkert sem skýrir eða gefur til kynna hvers vegna hún "hreinsar" sig á þennan hátt. Hvað gefur henni tilefni til þess?

Ég er sammála því að Aliide ætti ekki að vera hetja, það hefði verið frekar einfeldningslegt, enda erum við fæst hetjur heldur ófullkomin á ýmsa vegu. Og það er jú velþekkt að hægt er að fá flestar manneskjur til að fremja alls konar illvirki ef þær eru beittar rétta þrýstingnum eða skemmdar á réttan hátt. En mér finnst Aliide samt óþarflega svört. Og sumt í sambandi við Hans sem þetta mikla hreyfiafl meikar ekkert alveg sens. Hann er í raun alveg hlutgerður (enda er hann látinn vera svoddan dauðyfli), hann er fallegur hlutur sem Ingel "á" sem Aliide ágirnist og ekki beint rétt að tala um að hún hafi á honum ást. Og út frá því, þ.e. afstaða Aliide til Hans er í raun eigingjörn, er erfitt að skilja hvers vegna hún gengur svona langt í að fórna sér fyrir hann meðan hann gerir aldrei eitt eða neitt fyrir hana. Tja, nema hún sé rekin áfram af einhvers konar sjálfshatri, sem gæti svo sem verið, eða noti þessar fórnir til að réttlæta sjálfa sig fyrir sjálfri sér. Eða kannski er þetta einhvers konar skyldurækni. En alla vega finnst mér ekki koma fram neinn skýr femínískur boðskapur í þessu, annar en það sem ég var búin að nefna, ádeilan á vændið og mansalið. Og svo má lesa út úr þessu svona einhvern banal boðskap á borð við “karlar eru eigingjarnar skepnur (og konur reyndar frekar slæmar líka en kannski ögn skárri)” sem er tæpast ætlun höfundar, og svo þjóðernisboðskapinn. Dýpra lagið af boðskap finnst mér of mikið út og suður og loðið til að teljast boðskapur. Sem er kannski allt í lagi, en þetta var sem sé í samhengi við umræðuna um að lesa þetta pólitískt.

Maríanna Clara sagði...

já mér finnst bókin ekki endilega svo feminísk eða pólitíks og alls ekki full af boðskap (nema þá þeim að stríð og skelfingar hafa eyðileggjandi áhrif) en mér finnst það alls ekki galli - enda varst þú nú sennilega alls ekki að segja það. En mér finnst viðbrögð Aliide ekki svo yfirdrifin eða óskiljanleg (án þess þó að maður geti þannig séð sett sig í hennar spor).

Hvað varðar samstöðuna við Zöru þá er hún tilkomin af því að Aliide sér svip Hans í andliti hennar - hún er dótturdóttir hans (Hans :)). Eða það er alla vega sú skýring sem Aliide segir sjálfri sér - en mér finnst ekki ólíklegt að um leið sé þetta einhvers konar yfirbót gagnvart systur sinni. En fyrst og fremst er hún væntanlega að hreinsa sjálfa sig - hefna sjálfrar sín - eftir að hafa verið lömuð af ótta í 40 ár (eða frá sveppatínslunni örlagaríku) er hún loksins frjáls undan óttanum og þess vegna getur hún drepið þá (sorry again Þórdís).

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Ef ég held áfram pólitísku analýsunni (sem kemur náttúrulega til af ramma sögunnar - hún er ekki úr lausu lofti gripin, enda talar höfundurinn m.a.s. um hana á pólitískum forsendum) þá má auðvitað líka lesa morðið á rússunum sem frelsun undan sovéskum áhrifum - morðið á sovétkommúnismanum, eða frelsun undan rússagrimmdinni hreinlega og endanlega. Hin samseka Aliide tekur loksins á sig rögg og drepur rússana - og bindur þar með enda á söguna af misþyrmingum rússa á eistum.

Elísabet sagði...

Mér fannst bókin tæknilega góð en köld, eins og píanóleikur kínversks undrabarns.

hildur sagði...

Ég er svolítið sammála Elísabetu. Ég hef oft hágrenjað yfir bókum, eða a.m.k. tárast, en þessi ósköp sem gengu þarna á snertu mig furðulega lítið, kannski afþví að mér fannst ég ekki þekkja persónurnar nógu vel til að þetta hafi orðið virkilega átakanlegt (þó ég hafi vitað nákvæmlega hvernig þær litu út, því útlitslýsingarnar í sögunni skortir sko ekki).

Svo var Hans einsog gangandi ljósmynd, alveg einvíður, og minnti mig svolítið á karlpersónurnar í Karítasarbókunum (en einhversstaðar heyrði ég þá kenningu að Kristín Marja hefði bara engan áhuga á karlpersónum og nennti því ekki að fylla almennilega útí þær), og mér sárnaði hversu sjálfsagt það var að þær fórnuðu sakleysi barnsins fyrir föðurinn, og virtust aldrei draga réttmæti þeirrar ákvörðunar í efa. Maður hefði kannski skilið að Aliide gerði það, en Ingel, mamma stelpunnar, líka?

Mér finnst bókin a.m.k. of mikið hæpuð. Hún var alveg góð og lestrarins virði, en ég hef lesið margar bækur sem mér fannst betri.