6. júlí 2011

Bækur sem ég hef gefist upp á

Það ganga reglulega svona sjálfspróf á Facebook þar sem maður á að merkja við hvað maður sé búinn að lesa margar bækur af einhverjum lista og þær upplýsingar fylgja að meðalmanneskja skori bara svo og svo lágt.

Einhverra hluta vegna skora ég alltaf rosalega hátt á þessum listum. Ég held það sé af því að þeir samanstanda yfirleitt af temmilegri blöndu af bestsellerum og svokallaðri „vestrænni kanónu“.

Og það vill svo til að á þeim sviðum er ég ágætlega lesin, sérstaklega af því að Penguin Classics bækurnar eru svo dásamlega ódýrar og svo er ég óttalega svag fyrir bestsellerum og læt einhverra hluta vegna alltaf blekkjast og held að bókin hljóti að vera rosalega góð fyrst hún hefur selst svona vel (nýjasta dæmið um svoleiðis svekkelsi var The Passage eftir Justin Cronin sem ég las síðasta sumar og er kannski efni í sér færslu).

En það sem fer svo rosalega mikið í taugarnar á mér þegar ég skoða svona lista er hvað það eru yfirleitt margar bækur þar sem ég hef byrjað að lesa og gefist upp á og fæ þar af leiðandi ekki stig fyrir.

Ég er hrifin af listum og birti því meistaraverkin sem ég man í svipinn eftir að hafa gefist upp á. Titlarnir eru ýmist á ensku eða íslensku, eftir því á hvaða tungumáli ég byrjaði að lesa þær.

(Og það eru margar þarna sem ég veit að eiga að vera æðislegar og ég man ekki einu sinni afhverju ég lagði frá mér. Plís ekki dæma mig.)

Útlendingurinn
Stríð og friður
Biblían
Moby Dick
Ulysses
Grasið syngur
Catch 22
Á hverfanda hveli
The Hitch Hiker´s Guide to the Galaxy
Þrúgur reiðinnar
For Whom the Bell Tolls
100 ára einsemd
Vopnin kvödd
The Heart of Darkness
Lolita
Do Androids Dream of Electric Sheep?
The Tin Drum
Mrs Dalloway
Don Kíkóti
Treasure Island

... og svo ábyggilega fullt í viðbót sem ég man ekki eftir í svipinn.

Áhugasamir geta t.d. fundið einn svona lista hér.

Það hefur líka verið tekinn saman svona listi yfir íslenskar bókmenntir og þar stóð ég mig mun verr.

17 ummæli:

Kristín Svava sagði...

Ég er ekki mikið í því að byrja á bókum sem ég klára ekki, en það er bara af því að ég veigra mér svo við að byrja á bókum sem eru mjög þykkar eða hoknar af kanónu. Til dæmis Ulysses og 100 ára einsemd (gat þetta ekki verið t.d. bara 10 ára einsemd?).

Lolitu og Blikktrommunni var ég hins vegar mjög hrifin af (þá síðarnefndu las ég í tvisvar sinnum sex tíma lestarferð, og Glæp og refsingu við svipaðar aðstæður, það reynist oft best við langar bækur). Ég viðurkenni hins vegar að hafa þurft að tosa mig í gegnum Mrs Dalloway.

Hildur Knútsdóttir sagði...

Mig minnir reyndar að ég hafi ekki klárað Blikktrommuna afþví ég gleymdi henni í flugvél. En ég var a.m.k. ekki komin nógu vel inn í hana til að kaupa mér nýtt eintak í staðinn. Og svei mér þá ef ég var ekki bara að lesa hana á spænsku og titillinn hafi þá verið El tambor de hojalata, eða eitthvað svoleiðs...

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Ég á mjög erfitt með að hætta að lesa bækur, finnst það eins og persónulegur ósigur. Held það sé ekki að öllu leyti gott ... En reyndar legg ég oft frá mér bækur sem mér finnst ég ekki komast almennilega inn í og klára þær síðar. Og stundum finnst mér þær frábærar í annarri atlögu, t.d. Lolita, sem ég las fyrstu fimmtíu blaðsíðurnar í með herkjum, gleymdi í nokkrar vikur og svo loksins þegar ég tók hana aftur upp varð ég alveg heltekin og brjálæðislega hrifin af henni.
Ulysses er reyndar ennþá uppi í hillu með bókamerki einhvers staðar í kringum tvöhundruð síðurnar ... klára hana, eh, tja, einhvern tíma. Hehemm.

Eyja M. Brynjarsdóttir sagði...

Það eru alveg nokkrar á þessum lista þínum sem ég hef líka gefist upp á.

Garún sagði...

Ég á mjög erfitt með að hætta að lesa bækur - held alltaf að þetta sé alveg að koma eða vil vita af hvernig bókin endar, þó mér finnist hún kannski leiðinileg. En það eru nokkrar þarna sem ég á enn eftir að klára...m.a. 100 ára einsemd...!

Erna Erlingsdóttir sagði...

Ég gefst helst ekki upp á bókum. Orð Sölku um persónulegan ósigur hringja einhverjum bjöllum hjá mér en svo geta verið ýmsar mismunandi ástæður fyrir því að ég þrjóskast við.

Stundum er tilfellið að mér finnst ég þurfa að vita hvernig sagan þróast, þrátt fyrir allt, og skanna þá afganginn af bókinni hratt (lélegar glæpasögur fá gjarnan þessa meðferð).

Stundum held ég í vonina um að eitthvað í seinnihluta meintrar leiðinlegrar bókar breytir skoðun minni á henni. Það hefur alveg gerst. Man sérstaklega eftir því með bók eftir Fay Weldon sem heitir Female Friends, fannst hún drepleiðinleg þangað til örfáar síður voru eftir en endirinn fékk mig til að skipta um skoðun.

Mrs. Dalloway þrælaði ég mér í gegnum á sínum tíma, það kom þannig til að ég fékk The Hours (Mrs. Dalloway lá henni til grundvallar á ýmsa vegu) í afmælisgjöf og ákvað að lesa bækurnar í "réttri" röð. Mér fannst ekki gaman að lesa Mrs. Dalloway þegar á því stóð en svo varð hún töluvert áleitin eftir á og núna gæti ég alveg hugsað mér að lesa hana aftur!

Ef ég hætti lestri einhvers staðar í miðri bók er það næstum aldrei meðvituð ákvörðun heldur lognast lesturinn óviljandi út af. Oft er þá tilfellið kannski að bókin grípur mig ekki nóg í fyrstu atrennu og ég fresta því að taka hana upp aftur (frestunin framlengist síðan af sjálfri sér) en stundum hef ég bara ekki tíma til að halda áfram lestrinum þegar ég ætlaði að gera það og bókin lendir algjörlega óvart til hliðar. Þannig fór t.d. með Góða dátann Svejk, ég á hana enn ókláraða þótt mér hafi fundist hún skemmtileg (þetta minnir mig vonandi á að gera eitthvað í því sem fyrst).

Svo minna þessar umræður mig líka á að ég þarf einmitt að taka frá tíma til að setjast í rólegheitum og klára Blikktrommuna! Ég var búin að eiga hana árum saman ólesna og beið alltaf eftir að hafa nægan tíma til að sökkva mér ofan í hana. Um páskana ákvað ég að sá tími væri kominn og hóf lesturinn en svo reyndist tíminn bæði af skornari skammti en ráð var fyrir gert og bókin seinlesnari (setningabyggingin hjá Grass er ekki sú einfaldasta sem hægt er að hugsa sér, stundum fannst mér ég komin í brandarann um þýsku setningarnar þar sem ómæld orka færi í að leita að sögninni). Mér fannst bókin æði það sem af var og núna þegar ég hugsa til hennar langar mig einna mest að taka mér beinlínis frí í vinnunni á morgun til að lesa!

Erna Erlingsdóttir sagði...

Úff, hvað þetta varð langt komment hjá mér.

Hildur Knútsdóttir sagði...

Já ég held að þetta hafi nú sjaldnast verið meðvituð ákvörðun hjá mér að hætta að lesa þessar bækur - nema Ulysses, henni fleygði ég frá mér í miklum pirringi eftir nokkrar blaðsíður - heldur var þetta einmitt frekar þannig að lesturinn lognaðist út af afþví ég lagði bókina frá mér, gleymdi henni og tók hana ekki upp aftur.

Og svo held ég að þetta snúist líka oft um að bækur hafi ekki hentað aðstæðum, eins og þegar ég var að reyna að lesa Hemingway í vinnunni og var þá að grípa niður í bókina á milli þess sem ég sinnti símsvörun.

En einusinni var ég svona líka, að ég þrjóskaðist við og rembdist við að klára allar bækur sem ég byrjaði á. En svo hætti ég að nenna því og ákvað að ég nennti ekki að eyða tíma mínum í leiðinlegar bækur. (Þó ég hafi nú stundum þurft að þræla mér í gegnum nokkrar leiðinlegar í námi sem urðu einmitt góðar svona eftir á að hyggja...)

Salka Guðmundsdóttir sagði...

To the Lighthouse tók mig svona tvö ár ... í fjórum eða fimm skömmtum. Svo óbærilega leiðinleg fannst mér hún. Ég verð ennþá pirraðri af að hugsa um hana en þegar ég hugsa um Tímaþjófinn.

Hildur Knútsdóttir sagði...

Ég elska Tímaþjófinn!

Erna Erlingsdóttir sagði...

Ég líka!

Guðrún Elsa sagði...

Ég er alltaf að byrja og hætta á bókum. Eða ég geri það að minnsta kosti reglulega. Yfirleitt er ég þó bara búin með örfáar blaðsíður þegar ég dregst að einhverju öðru - það á til dæmis við um 100 ára einsemd, The Heart of Darkness og Don Kíkóta. Mér fannst Blikktromman og Lolita æðislegar bækur, þú verður að tékka aftur á þeim. Og einhverra hluta vegna fannst mér To the Lighthouse mjög góð, en ég var reyndar með Virginiu Woolf-blæti dauðans þegar ég las hana. Ég er hins vegar sammála Sölku um Tímaþjófinn...

Erna Erlingsdóttir sagði...

Mér fannst Tímaþjófurinn glataður þegar ég las hann fyrst en einhverra hluta vegna prófaði ég aftur og féll þá alveg fyrir bókinni.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Tímaþjófurinn nánast drap mig á síðasta ári í MH, og ég held það sé svei mér þá ekki of djúpt í árinni tekið. Ég hef aldrei hatað sögupersónu jafnheitt og hana þarna lufsuna sem lufsast um París og veltir sér upp úr ömurlegu sambandi við ömurlegan mann. Úff. Ég held ég myndi gefi flestu annan séns, en ekki þessu. Ó nei.

Hildur Knútsdóttir sagði...

Ég var að fatta að ég gleymdi að setja Nafn Rósarinnar á listann.

Helga sagði...

Ég er ekki viss um að ég hafi nokkurn tíma komist í gegnum heila skáldsögu eftir Hemingway.

Katla Ísaksdóttir sagði...

Útlendingurinn er í algjöru uppáhaldi hjá mér eftir að ég las hana í tvímálaútgáfu, sumsé á frummálinu með snilldarþýðingu til hliðsjónar. Gæti ekki mælt meira með því ef þið lesið frönsku.

Þrúgur reiðinnar las ég spjaldanna á milli þegar ég var 13 ára stúlkukind sem lét sér aldrei verk úr hendi falla. Á gamalsaldri er ég farin að njóta þess að henda frá mér bókum og öðrum hlutum ó- eða hálfkláruðum. Það er svo hressandi að gsngast við ófullkomleika sínum!