20. apríl 2012

Prjónles

Prjónabækur geta verið af ýmsu tagi eins og fram kom í pistli Eyju um efnið fyrir nokkru. Ég á ekki eins margar prjónabækur og hún – a.m.k. ekki ennþá – en þeim fjölgar óðum og við lesturinn á færslunni rifjaðist upp að ég hafði lengi ætlað að segja lesendum druslubókabloggsins frá bút úr einni þeirra. Sú er eftir Elizabeth Zimmermann (sem var mikið prjónagúrú og er í raun enn þótt hún hafi dáið fyrir þrettán árum) og heitir Knitter‘s Almanac. Projects for Each Month of the Year. Eins og heitið gefur til kynna er bókinni skipt í tólf kafla og hver þeirra hverfist um eitthvað sem Zimmermann telur heppilegt að prjóna á viðkomandi árstíma. Í kaflalok er hefðbundin prjónauppskrift en megnið af hverjum kafla felst í því að Zimmermann „talar“ lesandann gegnum verkefnið með ýmiss konar útúrdúrum, stundum um prjón almennt en líka um daginn og veginn, lífið og tilveruna. Í mars-kaflanum eru nokkrar línur sem hljóta að höfða sérstaklega til áhugafólks um lestur:
„Some may gasp and stretch their eyes, but knitting and reading at the same time is just a matter of practice. Of course you must love knitting and you must enjoy reading; if you don‘t love them equally, one at a time is sufficient.“

Elizabeth Zimmermann skýrir síðan nánar hvernig hún uppgötvaði að þetta tvennt gæti farið ágætlega saman. Allt byrjaði það þegar börnin hennar voru lítil og hún las fyrir þau á kvöldin. Eins og gengur völdu börnin oft bækur sem henni fannst drepleiðinlegar en prjónið stytti henni þá stundirnar:
„Anyway, during the period of having to read, aloud and repeatedly, extremely dull books, I trained myself to knit at the same time, in order to keep awake. It didn‘t take long. A good reader‘aloud‘s eye is always at least half a line ahead of his tongue (and sometimes, when Bowdlerization is called for, a couple of lines).
Ég tek svosem ekki undir það að nauðsynlegt sé að hafa nákvæmlega jafnmikla unun af lestrinum og prjóninu. Þótt handavinna sé á topp-tíu-listanum yfir áhugamál mín er ástin á bókum margfalt meiri. Þetta misvægi kemur þó ekki í veg fyrir að mér finnist oft fínt að lesa og prjóna í einu. Að sjálfsögðu skiptir töluverðu máli hvernig handavinnan og bókin parast saman. Verkefnið á prjónunum má t.d. ekki vera svo flókið að augun þurfi sífellt að beinast að því. Og það er kannski ekki heppilegt að bókin sé svo fljótlesin að sífellt þurfi að fletta. Þótt það geti reyndar alveg gengið upp er hitt ótvírætt hentugra. Um páskana varði ég t.d. töluverðum tíma í að lesa svo seinlesna bók að það var ósköp gott að hafa eitthvað að gera við hendurnar milli flettinga. Meira um það síðar.

4 ummæli:

Maríanna Clara sagði...

Ég hef töluvert gert af þessu - bæði með bókina í bókastatífi og svo held ég stundum bók á milli tánna og hef þá báðar hendur lausar í prjónið! (Ég vona að þetta hljómi ekki alltof sick...)

Eyja M. Brynjarsdóttir sagði...

Ég geri þetta líka, verð greinilega að fara að prófa mig áfram með bækur milli tánna, og reyndar með bókastatíf líka. Ég held að ég eigi tvö slík en ég gleymi alltaf að nota þau því ég hef aldrei vanið mig á það. Mér er sagt að langamma mín hafi gert mikið af því að prjóna og lesa á sama tíma. Reyndar eru prjón og lestur hvort tveggja dæmi um iðju sem getur farið ágætlega með öðru. Ég horfi ekki á sjónvarp öðruvísi en prjónandi og borða sjaldan morgunmat öðruvísi en lesandi. Ég vann á símanum á Hagstofunni eitt sumar í menntaskóla og var þá orðin leikin við að halda fingrinum á réttum stað í bókinni meðan ég svaraði og gaf samband. Og það er jú talað um að fólk hafi gengið prjónandi milli bæja hér áður fyrr.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Ég á ekki bókastatíf en hef ýmsar aðferðir við (hálf)handfrjálsan lestur. Oftast liggur bókin á sófanum og ég skorða hana af á mismunandi vegu ef þess er þörf, stundum með annarri bók, stundum með krosslögðum löppum, stundum með tánum á öðrum fæti ...

Þetta er annars farið að minna mig á fyrri umræður um lestrarstellingar: http://bokvit.blogspot.com/search/label/stellingar

Þurfum við kannski að fara að gefa út bók um lestrarstellingar með skýringarmyndum?

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Athyglisvert! Ég er frekar nýbúin að læra að hekla (er án gríns versta prjónakona veraldar svo ég held ég leggi það ekki á heiminn að þurfa að sitja undir prjónaskap mínum) og get núna horft á sjónvarp og heklað í senn, en væri sko miklu frekar til í að lesa og hekla. Kannski þegar ég verð orðin dálítið mikið færari en ég er núna.