19. desember 2013

Gott myndasögustöff frá Norðurlöndunum (hinum sko)

Alltaf við og við man ég hvað bókasafnið í Norræna húsinu er mér mikil uppspretta gleði og þá fer ég margar ferðir í röð, yfirleitt alveg þangað til ég fer til útlanda, gleymi að skila bókum og þarf að biðja bóngott foreldri um að skila þeim áður en sektin skellur á. Núna er Norræna hússhrina í gangi hjá mér og ég hef nælt mér í nokkrar góðar skruddur síðustu vikurnar.

Fyrir þá sem hafa áhuga á myndasögum er ekki slæm hugmynd að kíkja í Norræna húsið og skoða úrvalið. Síðasta mánuðinn hefur verið þar afar girnileg útstilling með myndasögum norrænna kvenhöfunda, en einn af eftirlætisbókaflokkunum mínum er einmitt sænska serían um Johönnu eftir Li Österberg og Patrik Rochling (sá hinn síðarnefndi er raunar ekki kona, en hann er mjög töff). Johönnu kynntist ég í bókasafni Norræna hússins þegar ég byrjaði að lesa safnbækurnar Allt för konsten sem eru gefnar út í Svíþjóð og innihalda úrval norrænna myndasagna. Fyrsta bókin kom út 1998 og nú eru þær orðnar tíu, mjög djúsí bækur sem hafa kynnt mig fyrir ýmsum spennandi höfundum. Eins og títt er um safnrit tengi ég mismikið við höfundana en í hverju bindi hafa verið einhverjar sögur sem mér finnst alveg frábærar. Ég fékk nr. 7 og 8 lánaðar á bókasafninu um daginn og nú vantar mig bara tvær síðustu til að hafa lesið allar. Ég held þær séu allar uppseldar hjá útgefanda en eru eflaust til á alls kyns bókasöfnum á Norðurlöndunum. Það er Optimal Press sem gefur út Allt för konsten; sérhæfð forlög með svona katalóg vekja alltaf með mér ákveðinn pirring yfir að við skulum vera dvergþjóð þar sem ekkert þrífst nema það almenna.
Það var einmitt önnur bók frá Optimal Press sem ég féll algjörlega fyrir núna í haust. Í Norræna húsinu fékk ég að láni dönsku myndasöguna Glimt (las hana reyndar á sænsku undir heitinu Glimtar) eftir Rikke Bakman, sem er núna nýja uppáhalds mín.
Þegar ég fór á netstúfana við undirbúning þessarar bloggfærslu komst ég að því að bókin er margverðlaunuð og var meðal annars valin besta danska myndasagan í fyrra. Auk þess fékk hún glimrandi dóma í öllum þeim dönsku miðlum sem fjölluðu um hana. Það kemur mér ekki á óvart því Glimt er frábær bók. Rikke Bakman segir litla og til þess að gera hversdagslega sögu frá 9. áratugnum, og byggir greinilega á eigin minningum. Í bókinni er hin sex ára Rikke í sumarfríi ásamt fjölskyldu sinni við strönd Norður-Jótlands. Sagan gerist á einum degi sem er svosem ekkert merkilegri en hver annar dagur, en Rikke hefur ótrúlegt vald á því að draga upp eftirminnilegar myndir og beita sjónarhorni barnsins til að gefa litlum hlutum óvænt vægi. Myndirnar eru trélitateikningar og í naívískum stíl sem aftur rímar við umfjöllunarefnið og frásagnarmátann, eins og sjá má á þessu rausnarlega sýnishorni úr bókinni. Þær eru hins vegar aldrei tilgerðarlegar; óttist eigi, þessar myndir eru ekki hin teiknaða útgáfa af loftfylltum smástelpusöng krútthljómsveita. Bókin er gríðarlega falleg og vandvirknislega unnin enda tók það Rikke tvö ár að klára hana. Um formið segir hún á blogginu sínu: "Jeg drømte om at lave en bog, som var et mix af tegneserien, kunstbogen og billedbogen." Glimt er komin út á sænsku, eins og áður sagði, og einnig á frönsku og ítölsku. Bókin er tæplega 300 síður - 300 fallegar síður.
Rikke Bakman í góðu sprelli
Það er langt síðan bók hefur haft viðlíka áhrif á mig. Það liggur í frásagnarmátanum, í knöppum textanum, í sjónarhorninu í myndunum, í húmornum og kannski líka í því að ég er nánast jafnaldra Rikke og þótt sagan sé að mörgu leyti afskaplega dönsk þá er eitthvert andrúmsloft í henni sem færði mig aftur til 9. áratugarins, til hálfgleymdra minningabrota, til þess að vera sex ára krakki. Að mörgu leyti kallast myndbyggingin á við minnið, hvernig við geymum að því er virðist handahófskennd brot í hausnum og hvernig minningamyndir eru uppbyggðar. Fjúff, hvað ég mæli með þessari bók.

2 ummæli:

TAP sagði...

Takk fyrir þessa fínu færslu og að benda á þessa fallegu bók Glimt eftir Rikke Bakman. Þetta er svo spennandi sem þarna er að gerast. Það hefur látlaust orðið til hefð í skandinavíu að höfundar, yfirleitt barnabóka, ráðast sjálfir út í að myndskreyta sögur sínar og úr verður mjög persónuleg tjáning í oft einföldum en áhrifamiklum stíl. Hvort þetta fólk er myndlistarlega menntað eða ekki, kemur oft svo heilmikið í gegn þegar sá sem segir söguna gerir myndirnar líka að það er göldrum líkast. Úr verður frumlegt trjáningarform sem segir söguna best, í jafnvægi við þann texta sem þarf.
Ég hugsa oft til Önnu Höglund í þessu samhengi, með sínar skrítnu fígúrur en svo heillandi heima.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Ég þarf að skoða Önnu Höglund!