Sýnir færslur með efnisorðinu ástralía. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu ástralía. Sýna allar færslur

10. maí 2013

Í skýjastræti

Einu sinni skrifaði ég bloggfærslu um Ástralíubækur og Ástralíublæti mitt. Rúmu ári síðar var ég svo óstjórnlega heppin að fá að ferðast til þessa lands í fjarskanum (fann því miður ekki edikslyktandi Bill Bryson-bókina enda búin að flytja nokkuð oft síðan hún féll í fötuna, sjá fyrri færslu) og þegar maður fer út í fjarskann hefur maður langan, langan tíma til að lesa margar, margar bækur. Og eins og margsinnis hefur sýnt sig eru fáir kaupendur skæðari en druslubókakvendi sem kemst í erlenda bókabúð ... the rest is history.

Ein af þeim bókum sem ég dröslaðist svo með heim í níðþungum farangrinum (nei, mig langar ekki í kyndil, mér þykir vænt um bækur og tel ekki eftir mér að flytja þær sextánþúsund kílómetra leið) var ástralski doðranturinn cloudstreet eftir Tim Winton, en í Ástralíu komst ég að því að Winton er einn af þeirra mest metnu samtímahöfundum og þykir cloudstreet eitt af hans bestu verkum. Þessi magnaða skáldsaga segir frá tveimur fjölskyldum sem eins og skolar upp í stórt og gamalt, hrörlegt hús í götu að nafni Cloud Street, en íverustaður þeirra fær fljótt á sig nafnið cloudstreet, líkt og það komi út þegar andað er frá sér. Sagan hefst í miðri heimsstyrjöldinni síðari; Pickles-fjölskyldan er í alvarlegum fjárhagskröggum eftir að spilasjúkur fjölskyldufaðirinn missir aðra höndina í vinnuslysi, fær þetta þungbúna hús í arf með ákveðnum skilyrðum og skiptir því í tvennt til að geta leigt út helminginn. Þangað flytur Lamb-fjölskyldan sem komin er til Perth úr smábæ þar sem meint kraftaverk reyndist ekkert kraftaverk; næstelsti drengurinn þeirra komst ekki heill frá slysi á krabbaveiðum og foreldrarnir Oriel og Lester leggja á eins konar flótta undan samfélaginu og fyrrum trúarhita sínum. Þessi tvennu hjón ásamt barnaskaranum flytja inn í húsið á Cloud Street sem er uppfullt af sársauka og óhugnaði fortíðarinnar. Húsið leikur mikilvægt hlutverk í frásögninni og verður á stundum eins konar yfirvitund, tekur virkan þátt í framvindunni og markar fjölskyldurnar síst minna en fjölskyldurnar húsið.

17. september 2011

Af andfætlingum

Eins og algengt er um bókhneigt fólk stjórnast tilfinningalíf mitt, áhugamál og langanir gjarnan af því sem ég les. Þar er ferðaþorstinn ekki undanskilinn og á síðustu árum hefur góðum bókum tekist að vekja með mér löngun til að ferðast til Ástralíu, sem ég hafði áður fremur leiðinlega mynd af og sá aðallega fyrir mér sólbrennda Breta, sálarlaus úthverfi og verslanaklasa (þökk sé breskum sjónvarpsþáttum, sér í lagi endalausum raunveruleikaþáttum þar sem miðstétta-Bretar í tilvistarkrísu flytja á vit nýs lífs "down under", sem endar yfirleitt með hjónaskilnaði og/eða gjaldþroti). Hér má sumsé lesa um nokkrar af þeim skemmtilegustu Ástralíutengdu bókum sem ég hef lesið á síðustu árum.

Fyrsta skal telja English Passengers eftir Matthew Kneale, sem einmitt segir frá upphafsárum vestrænna landnema í Eyjaálfu, nánar tiltekið á eynni Tasmaníu. English Passengers er ein af þessum sérdeilis safaríku bókum; framvindunni er komið til skila með röddum ótal ólíkra persóna og hún spannar langan tíma og gríðarlega stórt sögusvið. Stór hluti sögunnar er frásögn af ferðalagi þeirra séra Geoffrey Wilsons og Dr. Thomas Potters til Tasmaníu, en sérann er í eins konar pílagrímsferð og er þess fullviss að á Tasmaníu sé sjálfan Edensgarð að finna. Í frásögninni fléttast leyndardómar, ráðgátur og svik saman við afar vel útfærðar lýsingar á tíðaranda og staðháttum, auk þess sem skelfilegum örlögum frumbyggja Tasmaníu eru gerð ógleymanleg skil. Sagan er aldrei þung í vöfum; Kneale ber skynbragð á það fáránlega og skoplega þrátt fyrir að ýmislegt í sögunni sé átakanlegt, og þá sérstaklega sá hluti sem snýr að endurminningum Peevays, frumbyggja sem lendir milli tveggja menningarheima. Ég er afskaplega veik fyrir bókum sem hafa marga sögumenn; ef vel er skrifað vekur það upp alls kyns áhugaverðar spurningar um sannleika, trúverðugleika og mótívasjónir þess sem talar. Ég las þessa fyrir nokkrum árum og hún var klárlega ein af fimm bestu bókum sem ég las það árið.