
Ein af þeim bókum sem ég dröslaðist svo með heim í níðþungum farangrinum (nei, mig langar ekki í kyndil, mér þykir vænt um bækur og tel ekki eftir mér að flytja þær sextánþúsund kílómetra leið) var ástralski doðranturinn cloudstreet eftir Tim Winton, en í Ástralíu komst ég að því að Winton er einn af þeirra mest metnu samtímahöfundum og þykir cloudstreet eitt af hans bestu verkum. Þessi magnaða skáldsaga segir frá tveimur fjölskyldum sem eins og skolar upp í stórt og gamalt, hrörlegt hús í götu að nafni Cloud Street, en íverustaður þeirra fær fljótt á sig nafnið cloudstreet, líkt og það komi út þegar andað er frá sér. Sagan hefst í miðri heimsstyrjöldinni síðari; Pickles-fjölskyldan er í alvarlegum fjárhagskröggum eftir að spilasjúkur fjölskyldufaðirinn missir aðra höndina í vinnuslysi, fær þetta þungbúna hús í arf með ákveðnum skilyrðum og skiptir því í tvennt til að geta leigt út helminginn. Þangað flytur Lamb-fjölskyldan sem komin er til Perth úr smábæ þar sem meint kraftaverk reyndist ekkert kraftaverk; næstelsti drengurinn þeirra komst ekki heill frá slysi á krabbaveiðum og foreldrarnir Oriel og Lester leggja á eins konar flótta undan samfélaginu og fyrrum trúarhita sínum. Þessi tvennu hjón ásamt barnaskaranum flytja inn í húsið á Cloud Street sem er uppfullt af sársauka og óhugnaði fortíðarinnar. Húsið leikur mikilvægt hlutverk í frásögninni og verður á stundum eins konar yfirvitund, tekur virkan þátt í framvindunni og markar fjölskyldurnar síst minna en fjölskyldurnar húsið.