Svokallaðar jólabækur eru farnar að streyma í búðir fyrir allnokkru. Ég er farin að sulla aðeins í flóðinu en áður en ég sting mér á kaf finnst mér ástæða til að minna á að bækur geta lifað lengur en milli jólavertíða og því verður hér fjallað um tvær ótengdar bækur frá fyrra ári:
Geislaþræði eftir Sigríði Pétursdóttur og
Hringnum lokað eftir Michael Ridpath. (Kannski spilar líka inn í að ég vil gjarnan hreinsa til á skrifborðinu (í bæði eiginlegri og óeiginlegri merkingu) og skila einhverju af mér um bækur sem ég sagðist ætla að skrifa um fyrir löngu en það er aukaatriði; hinn tilgangurinn er augljóslega göfugri og er því tilgreindur utan sviga.)
Geislaþræðir

Það er merkilegt hversu lítið ber almennt á tölvupósti og netinu í bókmenntum, þrátt fyrir að þetta sé fyrirferðarmikið í lífi flestra nú til dags og drjúgur hluti margra af samskiptum við annað fólk sé orðinn rafrænn. Tölvupóstur o.þ.h. hefur reyndar verið notað þónokkuð í ýmsum unglingabókum síðustu árin en miklu minna í fullorðinsbókum. Það er svosem hefð fyrir því að ýmis grundvallaratriði í daglegu lífi séu lítt áberandi í bókmenntum – klósettferðir eru kannski augljósasta dæmið – en samskiptatæki eins og tölvupóstur bjóða upp á fleiri möguleika við skáldskaparskrif en mörg önnur hversdagsleg fyrirbæri og athafnir.