Sýnir færslur með efnisorðinu Sigríður Pétursdóttir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Sigríður Pétursdóttir. Sýna allar færslur

23. október 2011

Tvær bækur frá fyrra ári

Svokallaðar jólabækur eru farnar að streyma í búðir fyrir allnokkru. Ég er farin að sulla aðeins í flóðinu en áður en ég sting mér á kaf finnst mér ástæða til að minna á að bækur geta lifað lengur en milli jólavertíða og því verður hér fjallað um tvær ótengdar bækur frá fyrra ári: Geislaþræði eftir Sigríði Pétursdóttur og Hringnum lokað eftir Michael Ridpath. (Kannski spilar líka inn í að ég vil gjarnan hreinsa til á skrifborðinu (í bæði eiginlegri og óeiginlegri merkingu) og skila einhverju af mér um bækur sem ég sagðist ætla að skrifa um fyrir löngu en það er aukaatriði; hinn tilgangurinn er augljóslega göfugri og er því tilgreindur utan sviga.)

Geislaþræðir
Það er merkilegt hversu lítið ber almennt á tölvupósti og netinu í bókmenntum, þrátt fyrir að þetta sé fyrirferðarmikið í lífi flestra nú til dags og drjúgur hluti margra af samskiptum við annað fólk sé orðinn rafrænn. Tölvupóstur o.þ.h. hefur reyndar verið notað þónokkuð í ýmsum unglingabókum síðustu árin en miklu minna í fullorðinsbókum. Það er svosem hefð fyrir því að ýmis grundvallaratriði í daglegu lífi séu lítt áberandi í bókmenntum – klósettferðir eru kannski augljósasta dæmið – en samskiptatæki eins og tölvupóstur bjóða upp á fleiri möguleika við skáldskaparskrif en mörg önnur hversdagsleg fyrirbæri og athafnir.