
Sýnir færslur með efnisorðinu fullorðinsbækur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu fullorðinsbækur. Sýna allar færslur
8. október 2012
Þegar ég keypti dónabók handa barninu mínu
Í febrúar ár hvert halda bókabúðir út um alla Svíþjóð sameiginlega bókaútsölu. Hún er kynnt vel og rækilega fyrirfram, meðal annars með bæklingum sem sendir eru heim þar sem greint er frá hvaða titlar verði í boði og á hvaða verði. Nokkrum dögum áður en útsalan hefst byrja starfsmenn búðanna að stafla bókum á löng borð og á miðnætti aðfaranótt fyrsta dagsins opna búðirnar gjarnan í einn til tvo tíma til að svala eftirvæntingu þeirra allra spenntustu sem hafa þá jafnvel staðið í röð í einhverja tíma til að grípa bestu bitana. Þegar líður á útsölutímabilið tínist úr titlunum og úrvalið sem eftir er hefur tilhneigingu til að lenda í dálitlum hrærigraut, sérstaklega í stórmörkuðunum þar sem starfsfólk hefur kannski minni tök á að umstafla og raða. Það var einmitt á bókaútsölunni í einum slíkum sem ég gerði afdrifarík mistök fyrir örfáum árum.
Við mæðgurnar, ég og dóttir mín sem þá var um tíu ára, stóðum við barnabókaborðið og leituðum að ákjósanlegu lesefni fyrir þá síðarnefndu. Hún var sjálf búin að þrengja valið niður í tvær bækur, eina eftir Meg Cabot (sem hefur m.a. skrifað Dagbók prinsessu) og svo bók sem bar heitið Borta bäst og var eftir Söru Kadefors höfund bókarinnar Nyckelbarnen sem hún hafði lesið skömmu áður og verið yfir sig hrifin af. Sú stutta var eitthvað tvístígandi svo ég greip sænsku bókina og las aftan á hana. Samkvæmt káputexta fjallaði bókin um konu sem bjó í bíl fyrir utan Ikea og lifði af því að borða leifar af diskum veitingastaðarins þar eftir að hafa yfirgefið fjölskyldu sína, vinnu og heimili í kjölfar einhverrar uppákomu sem maður þyrfti vitanlega að lesa bókina til að komast að hver væri. Þetta fannst mér hljóma sem stórkostlega frumlegt og athyglisvert efni í barna- og unglingabók! Ég lýsti því yfir með miklum þunga að þessa bók litist mér vel á og þegar ég sá að barnið horfði enn efasemdaraugum á græna kápuna hóf ég langan fyrirlestur um að auðvitað gætu barnabækur fjallað um fullorðið fólk, það þyrftu ekkert endilega að vera börn í bókum fyrir börn, að það sem skipti máli væri hvernig væri sagt frá og þetta væri nú heldur betur athyglisvert umfjöllunarefni fyrir alla krakka sem hefðu áhuga á samfélagsmálefnum. Skítt með einhverjar amerískar prinsessur, þetta væru hlutir sem skipti sköpum fyrir börn að lesa um! Ég var komin í mikinn ham þarna milli útsöluborðanna (maður verður líka svo sveittur í dúnúlpunni inni í búðum svona í febrúar) þannig að dóttirin sá sér auðvitað ekki annað fært en að velja Borta bäst. Þar sem ég var búin að leggja mikið undir í þessu vali fylgdist ég sennilega betur með lestrinum en nokkru sinni fyrr. Ég spurði reglulega hvernig bókin væri og fékk framan af þau svör að hún væri skemmtileg en að hana grunaði nú samt að þetta væri ekki skrifað fyrir krakka. Ég lét mér hins vegar ekki segjast og taldi mögulegt að hún væri bara ekki orðinn nógu þroskaður lesandi til að kunna að meta svona snjalla og öðruvísi barnabók. Þangað til einn daginn að hún kom stormandi út úr herberginu sínu, rjóð í vöngum og illúðleg á svip og sagði ásakandi: „Bókin sem þú keyptir handa mér – hún er POTTÞÉTT ekki barnabók“! Eitthvað í látbragði hennar og rödd sannfærði mig samstundis. Og ég vissi, ég bara vissi að ég hefði óvart neytt barnið til að lesa kynlífslýsingu. Strax sama kvöld var komin ný bók á náttborðið og sú græna horfin veg allrar veraldar. Ég lagði aldrei í að spyrja hvað það hefði verið nákvæmlega sem hún hefði lesið enda fannst mér svo sem nóg að hafa neytt upp á barnið einhverjum dónaskap að ég væri ekki að ætlast til þess að hún þyldi hann svo aftur upp fyrir móður sína.

11. desember 2011
Börn sem hlusta og horfa
Þegar saga er sögð skiptir að sjálfsögðu máli hver segir hana, hvort sem hún er skáldskapur eða upplifun úr raunveruleikanum. Sjónarhornið litar frásögnina, bæði efnislega og stílrænt. Mér finnst oft mjög gaman að lesa höfunda sem eru meðvitaðir um þetta og leika sér með hlutdrægni sögumannsins eða forsendur hans til að skilja atburði. Af vinsælum, nýlegum skáldsögum sem stíla inn á þessa nálgun má nefna Atonement eftir Ian McEwan, þar sem telpan Briony mistúlkar og misskilur atburði á afdrifaríkan hátt; hún er barn sem túlkar það sem hún sér og heyrir út frá eigin hugarheimi, fyrirfram gefnum skoðunum og ákveðnum barnaskap. Ég hef áður minnst á bókina English Passengers eftir Matthew Kneale hér á blogginu, en hún nálgast hlutdrægni sögumannsins á annan hátt; sagan er sögð af ótal röddum og sjónarhorn hverrar persónu litast af persónuleika, fordómum, stétt, staðsetningu og persónulegri upplifun.
![]() |
Agalega góð bók! |
Hinn stórskemmtilegi höfundur Kneale hefur skrifað sjö skáldsögur og í þeirri nýjustu, When We Were Romans (sem reyndar er frá 2008), leikur hann sér með sjónarhorn barnsins en á aðeins annan hátt en Ian McEwan. Röddin er alltaf barnsins og Kneale býr til ótrúlega sannfærandi gegnumgangandi sjónarhorn. Sögumaðurinn er hinn níu ára gamli Lawrence, sem býr með einstæðri móður og lítilli systur. Lawrence er í verndarahlutverki gagnvart mæðgunum, hefur ákveðið að hann þurfi að halda fjölskyldunni gangandi, og strax frá upphafi skynjar lesandinn að eitthvað er ósagt og útgáfa Lawrence af veruleikanum er að einhverju leyti bjöguð.
![]() |
Matthew Kneale, sposkur |
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)