Þegar saga er sögð skiptir að sjálfsögðu máli hver segir hana, hvort sem hún er skáldskapur eða upplifun úr raunveruleikanum. Sjónarhornið litar frásögnina, bæði efnislega og stílrænt. Mér finnst oft mjög gaman að lesa höfunda sem eru meðvitaðir um þetta og leika sér með hlutdrægni sögumannsins eða forsendur hans til að skilja atburði. Af vinsælum, nýlegum skáldsögum sem stíla inn á þessa nálgun má nefna
Atonement eftir Ian McEwan, þar sem telpan Briony mistúlkar og misskilur atburði á afdrifaríkan hátt; hún er barn sem túlkar það sem hún sér og heyrir út frá eigin hugarheimi, fyrirfram gefnum skoðunum og ákveðnum barnaskap. Ég hef áður minnst á bókina
English Passengers eftir Matthew Kneale
hér á blogginu, en hún nálgast hlutdrægni sögumannsins á annan hátt; sagan er sögð af ótal röddum og sjónarhorn hverrar persónu litast af persónuleika, fordómum, stétt, staðsetningu og persónulegri upplifun.
 |
Agalega góð bók! |
Hinn stórskemmtilegi höfundur Kneale hefur skrifað sjö skáldsögur og í þeirri nýjustu,
When We Were Romans (sem reyndar er frá 2008), leikur hann sér með sjónarhorn barnsins en á aðeins annan hátt en Ian McEwan. Röddin er alltaf barnsins og Kneale býr til ótrúlega sannfærandi gegnumgangandi sjónarhorn. Sögumaðurinn er hinn níu ára gamli Lawrence, sem býr með einstæðri móður og lítilli systur. Lawrence er í verndarahlutverki gagnvart mæðgunum, hefur ákveðið að hann þurfi að halda fjölskyldunni gangandi, og strax frá upphafi skynjar lesandinn að eitthvað er ósagt og útgáfa Lawrence af veruleikanum er að einhverju leyti bjöguð.
 |
Matthew Kneale, sposkur |