20. nóvember 2011

Af stellingum


Þessi kona aðhyllist tæknilegar lausnir

Að lesa uppi í rúmi er góð skemmtun. Að finna sér hina fullkomnu rúmlestrarstellingu er hins vegar flókið mál. Ef leitað er á netinu að "reading in bed posture" eða "position for reading in bed" kemur í ljós að þetta er algengt vandamál og jafnvel hafa verið settar fram tæknilegar lausnir á því, samanber meðfylgjandi mynd af rúmlestrargræju nokkurri. Hér má líka finna stuttan pistil um rúmlestur og athugasemdir lesenda Guardian.

Ég er af leguskólanum - finnst mjög óþægilegt að sitja upp við dogg og fæ hálsríg af því að sitja í mjúku rúmi og horfa niður á við. Ég hef tekið eftir því að margir lesa liggjandi á bakinu með bókina á bringunni, það finnst mér ekkert spes og ekki nægilega afslappað, auk þess sem ég er afar nærsýn og þyrfti þá annað hvort að hafa gleraugun á mér (ekki heldur afslappað) eða hafa bókina uppi við fésið á mér. Sumir halla sér á hliðina, reisa sig upp á olnboganum og láta bókina hvíla á rúminu. Þarna kemur hálsrígurinn aftuer sterkur inn. Ég svissa yfirleitt á milli tveggja stellinga sem hvorug er þó fullkomin, og myndi gjarnan þiggja góðar uppástungur frá lesendum bloggsins.

Annars vegar er það hliðarlegan. Þá hvílir bókin yfirleitt á koddanum þegar sú síða sem fjær er koddanum er lesin, en er svo reist upp þegar innri síðan er lesin. Þessi stelling skorar hátt á afslöppunarskalanum, en hefur þó þann leiða galla að sífellt er verið að stilla bókina af. Fyrir sjónskekktar stúlkur er ráðið gjarnan að loka augunum sitt á hvað, sem framkallaði einmitt tryllingslegan fjörfisk í hægra auganu á mér fyrir nokkrum vikum eftir að ég hafði legið uppi í sófa í sumarbústað og lesið í marga klukkutíma.

Hin stellingin er aðeins brúkleg með gleraugum, þ.e.a.s. fyrir hálfblint fólk eins og mig. Hún hljómar kannski ekki sérlega hugguleg en ég næ þó iðulega góðri lestrarstund á þennan máta, fer í hálfgerðan lestrartrans. Þá ligg ég á bakinu, tek bókina mér í hægri hönd og held hægri handlegg þráðbeinum upp í loft (þetta er augljóslega kiljulestraraðferð fremur en að hún henti í lestur innbundinna bóka). Svo einhvern veginn slakar maður á öxlinni (skiptir miklu að hafa handlegginn beinan) og leyfir handleggnum að halda sér sjálfum uppi. Í alvöru, þetta er mjög þægilegt.

Maður kemur konu í þægilega lesstellingu

Sennilega er þó allraþægilegast að vera með rúm sem hægt er að stilla hæðina á. Ég hef ekki gerst svo forfrömuð enda ennþá með rúmbotninn sem ég fékk í 4 ára afmælisgjöf. Stundum veltir maður því fyrir sér hvers vegna maður hafi ekki lært eitthvað praktískt og fundið sér betur launaða vinnu ...

12 ummæli:

Margrét sagði...

Þegar ég les þessar örfáu síður á kvöldin áður en ég sofna, ligg ég yfirleitt á maganum og hvíli á olnbogunum einhvern veginn.

En þegar um langvarandi rúmlestur er að ræða verða stellingarnar fljótlega fjölbreyttari. Ég skipti um stellingar gjörsamlega án þess að taka eftir því og þær verða oft nokkuð fáránlegar. Þetta fer allt eftir því hvernig koddar og sæng liggja, maður. Og auðvitað stærð bókar.

Hliðarlegan og afbrigði af henni eru samt alltaf vinsæl, þ.m.t. að reisa sig upp á olnboga. Hálsrígur hefur ekki hrjáð mig hingað til.

Svanur Pétursson sagði...

Eitt af hinu góða við að hafa Kindle eða álíka lesgræju er að maður getur legið á hliðinni án þess að þurfa sífellt að stilla bókina af eftir hverja síðu. Mjög afslappandi, þó að maður eigi það til að sofna ansi hratt.

Maríanna Clara sagði...

Þetta finnst mér gríðarlega verðugt blogg-efni og ég hef grínlaust eytt miklum tíma í að finna hina fullkomnu lestrarstellingu. Hún finnst raunar ekki á níunda mánuði get ég fullyrt en undir öðrum kringumstæðum er ég mikið í hliðarlegunni og hef líka daðrað við beina handlegginn (með kiljur að sjálfsögðu).

Kristín í París sagði...

Ég tek undir að þetta er verðugt efni. Mest er ég svekkt yfir að myndirnar af hliðarlegunni eru meira til gamans, ég var búin að sjá að það væru teikningar og taldi víst að nú fengi ég ábendingar til prufu. Ég þarf hins vegar að prófa þessa með handlegginn beint upp, þó ég viðurkenni að ég skellti upp úr.
Ég á þríhyrndan púða (pýramídalagaðan) með frauðkúlum inní, svona eins og brjóstagjafapúðarnir góðu. Gefur sumsé lítið eftir og er hannaður með rúmlestur í huga. Ég nota hann stundum, en oftast er ég bara bröltandi milli stellinga (kannast vel við hliðarlegu bókstillingastellinguna). Ég tel það aðkallandi að einhver leggist af alvöru yfir þetta mál, taki eða teikni myndir og gefi hverri stellingu nafn. Fólk á eftir að fagna því að geta loksins tekið upplýstar ákvarðanir um lesstellingar.

Finnbogi sagði...

Ég les líka helst í þessum tveimur stellingum, annars vegar á hliðinni og hins vegar með beinan handlegg upp í loft (ég skipti hins vegar reglulega um handlegg).

Báðar aðferðir virka líka mjög vel til að lesa af Kindli, hann er léttari en kilja og það þarf ekki að hagræða honum þegar flett er.

Andrea sagði...

Ég les bækur yfirleitt á maganum en skipti yfir í hliðarlegu þegar mjóbakið er farið að veina af sársauka.

En ég segi eins og Finnbogi hér að ofan. Eftir að ég fékk mér Kyndilinn góða hef ég oftar notað hliðarleguna því þá getur maður bara komið sér þægilega fyrir og þarf ekki að hreyfa sig neitt til að fletta eða hvíla handlegginn þar sem kyndilsdásemdin er svo létt :)

Það væri mjög gaman að heyra álit ykkar druslubókadama á "lesbrettunum" við tækifæri.

Guðrún Lára sagði...

Þetta er stórkostlegt rannsóknarefni!

Ég aðhyllist hliðarleguna og get raunar ekki lesið í neinni annarri stellingu. Reyndar finnst mér best að vera með einn kodda undir höfðinu og svo annan kodda (sem ég sný þvert) undir handleggnum og bókinni. Þá þarf maður ekki að vera með bókina alveg ofan í andlitinu en getur samt haft hana í augnhæð og fengið stuðning við handlegginn.

Ég hef oft undrast hvernig fólk getur lesið í hinum stellingunum og horfi gjarnan vandlætingar augum á manninn minn þegar hann er búinn að kuðla sér einhvern veginn upp við dogg með bókina á bringunni.

Nafnlaus sagði...

Mér þykir raunar þægilegast að lesa í sófum eða stólum sem gefa minna eftir en rúm. Annars finnst mér allt í lagi að lesa sitjandi upp við vegg í rúminu, nýfarin að venjast því að sofa ekki alveg undir súð, ýmist með fæturna dregna upp að mér og með bókina á hnjánum eða með fæturna beina og bókina í kjöltunni.

Hliðarlegan er líka ágæt en fólk fær yfirleitt hláturskast ef það sér mig lesa þannig, því ekki er þægilegt að vera með gleraugun á sér og ég er svo rosalega nærsýn að þegar ég les hægri síðu bókarinnar verð ég að láta þá vinstri hvíla beinlínis á eyranu á mér, og þegar ég les vinstri síðuna verð ég að leggjast með kinnina ofan á þá hægri.

Ég skipti hins vegar yfirleitt oft um stellingu ef ég er að lesa lengi í einu, meika ekki að liggja of lengi í neinni stellingu; mann fer alltaf að verkja einhvers staðar.

-Kristín Svava

Erna Erlingsdóttir sagði...

Þetta er besta rannsóknarefni sem ég hef séð lengi!

Ég les næstum alltaf á hliðinni með ýmsum tilbrigðum og hef annan handlegginn gjarnan undir hausnum, oft líka aukakodda, en ég reisi mig sjaldan upp á olnbogann, það kemur þó fyrir.

Ósjaldan nota ég hliðarlegu sem er svipuð því sem Salka lýsir (þ.e. með sífelldri afstillingu) en þó ekki með bókina á koddanum heldur neðan við hann.

Oft hef ég hausinn nógu hátt til að geta einfaldlega sleppt afstillingunni þannig að sá helmingur bókarinnar sem nær er dýnunni liggur einfaldlega á henni en hinn er reistur upp um, ja, kannski 45° eða þar um bil og held bókinni nokkurn veginn stöðugri þannig.

Stundum teygi ég handlegginn á þeirri hlið sem ég ligg á undir kjölinn og gríp með fingrunum um bókina miðja að ofanverðu - sennilega er þetta þó bundið við vinstri hlið (og þar af leiðandi vinstri handlegg) þannig að ég hef hægri hendina lausa til að fletta (ég er rétthent).

Svo eru ábyggilega ýmis fleiri tilbrigði í gangi, ég skipti mjög ómeðvitað á milli. Ég á tvímælalaust eftir að hafa augun opin fyrir þessu á næstunni og gæti alveg dottið í nánari skrásetningu. Verst að ég kann ekki að teikna.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Þetta er stórkostlegur kommentaþráður! Ég hef hér greinilega hitt á málefni sem er mörgum ofarlega í huga.

Þessi þríhyrndi púði er mjög spennandi og alls ekki svo galin hugmynd. Ég er líka mjög hamingjusöm að heyra að fleiri en ég beita hinum þráðbeina en þó afslappaða handlegg. Þess má geta að ástkær móðir mín les yfirleitt í upp-við-dogg-á-olnboganum-stellingunni og það er kostulegt að fylgjast með henni sofna yfir bók en haldast uppi á þrautþjálfuðum olnboganum.

Maríanna Clara sagði...

Ég kalla eftir mynd af Kristínu Svövu - reyndar tveimur - annarri með bókarhelming undir kinn og hinni með bókarhelming...ofan á kinn!

Nafnlaus sagði...

Hahaha. Ég sýni ykkur kannski slíka mynd við tækifæri, Maríanna, ásamt myndbandi af mér þegar ég hef feilað epískt á því að finna gleraugun mín áður en ég tek úr mér linsurnar og þarf því að þreifa blindandi á yfirborði allra borða, hillna og kommóða í íbúðinni meðan ég reyni að detta ekki á hausinn. Það hefur líka þótt fyndið.

-kst