22. nóvember 2011

Blóðug átök í hænsnakofa


Hvíta hænan er þýðing Vilborgar Dagbjartsdóttur á „Den hvide høne“ eftir Klaus Slavensky. Sagan birtist upphaflega á dönsku árið 2009 í bókinni Hønselortebænken þar sem hún var ein af átta sögum. Hvíta hænan er myndskreytt af Brian Pilkington og hið sama gildir um Hønselortebænken; væntanlega er um sömu myndskreytingar að ræða. Umgjörðin er sú að afi og barnabarn hans sitja saman á bekk og afinn segir sögu. Í sögunni af hvítu hænunni segir, eins og nafnið gefur til kynna, af hvítri hænu. Hvíta hænan er sú eina meðal svartra, og eftir að nýr hani kemur í hænsnakofann er hún lögð í einelti og hin hænsnin keppast um að gogga í hana. Sagan endar svo þar sem hvíta hænan lifir betra lífi í öðrum hænsnakofa meðal annarra hænsna. 
Sagan er vel skrifuð og þýðing Vilborgar á fallegu máli og til fyrirmyndar, eins og við er að búast af henni. Ég las bókina fyrir tæplega sjö ára dóttur mína og hún var hin ánægðasta. Í kjölfarið ræddum við aðeins um einelti, sem hún hafði heyrt talað um í skólanum, og það að skera sig úr hópnum. Ég er samt svolítið tvístígandi með boðskapinn í sögunni. Eins og afinn segir frá þessu er það einhvern veginn óumflýjanlegt að flytja hvítu hænuna yfir í annað umhverfi til þess að bjarga henni. Það stoðar lítið að ætla að tala við hænsnin og segja þeim að vera góð við hvítu hænuna; hænsn eru jú ekki viðræðuhæf við manneskjur. Þetta er mjög raunsæ lýsing og ákveðinn ferskleiki í slíku raunsæi í barnabók en á hinn bóginn er þetta kannski ekkert sérstaklega vel fallið sem fyrirmyndarlausn í sambandi við eineltismál eða það að vera öðruvísi. Sem betur fer eru börn, og manneskjur yfirleitt, viðræðuhæf við manneskjur og það er ekkert endilega eina, eða besta, lausnin á einelti í mannheimum að flytja fórnarlambið í annað umhverfi. Sem sagt er ekki endilega um hliðstæður að ræða. En kannski er líka hægt að nota sér það í umræðum, til dæmis með því að ræða hvað sé líkt og ólíkt með mönnum og hænsnum þannig að þegar upp er staðið er þessi boðskapur kannski bara hið besta mál. 

Myndir Brians Pilkington eru afar fallegar og þar kemur líka hið ferska raunsæi við sögu með blóðugum hænsnahöggstokk í forgrunni myndar fremst í bókinni. Það er einmitt líka minnst á blóðug afdrif unghananna sem ekki fá að lifa.

Sem sagt mæli ég með þessari bók fyrir þá sem eru tilbúnir að ræða erfiða hluti við börnin sín. Þeir sem vilja gefa börnunum fegraða mynd af lífinu og tilverunni ættu hins vegar líklega að láta hana eiga sig. Ég myndi ekki beinlínis vilja kalla þetta fallega barnasögu, en jafnframt finnst mér sjálfsagt að spyrja að því hvort allt sem börn komast í kynni við eigi endilega að vera fallegt.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Næsta átak gegn einelti gæti haft slagorðið: Viltu vera hæna?

helgivalur sagði...

Það er ekki ófreistandi að liggja milli brjóstana á einni af þessum þokkadísum og lesa góða bók :)

Eyja M. Brynjarsdóttir sagði...

Ætli Helgi Valur sé að reyna að gera lítið úr okkur Druslubókadömum með því að fara að tala um brjóstin á okkur? Spes.

Garún sagði...

Einhvers staðar las ég að það væri börnum hollt að lesa hryllingssögur og sögur sem ekki endilega hefðu góðan endi - í hófi. Þetta á styrkja börnin í gagnrýnni hugsun og á líka að vera gott líffræðilega til að þjálfa líkamann til að bregðast við hættum.

Sel það ekki dýrara en ég keypti það, enda veit ekki um rannsóknir til að vísa í :-)