16. nóvember 2011

Margt gerðist í Nóvember 1976

Sögupersónur Nóvembers 1976 búa í sama stigagangi í blokk, líklega í Breiðholtinu („myndarlegar blokkir ofan á tignarlegu holti“ stendur á bls. 108). Um er að ræða hjónin Dórótheu og Ríkharð, son þeirra um tvítugt sem heitir Þóroddur, Bíbí sem er fráskilin, frjálslynd og miðaldra og Batta, ástarsagnaþýðanda og braskara, sem gerir ýmislegt sem er á gráum svæðum. Sagan gerist á einni helgi um miðan nóvember 1976 og við innganginn að hverjum degi er birt sjónvarpsdagskrá viðkomandi dags eins og hún var í raun og veru (ég tékkaði auðvitað á timarit.is). Sjónvarpið gegnir ákveðnu lykilhlutverki í sögunni, í upphafi deyr sjónvarp Dórótheu og Ríkharðs og hann ásakar hana um að hafa gengið frá því með klaufaskap sínum. Síðan hefst atburðarás sem ég ætla ekki að rekja í smáatriðum, en næstu daga kynnumst við fólkinu í blokkinni, samskiptum hjónanna og forsögu þeirra og í lokin er sagt frá afdrifaríkri ferð Batta og Þórodds sem má ekki segja nákvæmlega frá því ekki viljum við birta spoilera í óhófi um jólabækurnar.


Einhver eða jafnvel einhverjir gagnrýnendur sem hafa fjallað um þessa bók hafa kvartað yfir skorti á söguþræði. Ég held að annað hvort hafi viðkomandi ekki lesið verkið nógu vel eða hreinlega ekki skilið bókina. Það er nefnilega enginn skortur á söguþræði í bók Hauks, hún segir sögu sem ekki væri sérlega flókið að rekja frá upphafi til enda í ekki svo löngu máli, og með góðum vilja mætti jafnvel kalla Nóvember 1976 glæpasögu. Sagan er sögð í tímaröð, hún gerist á þremur dögum, í upphafi verður ákveðinn atburður til þess að hrinda atburðarás helgarinnar af stað, ýmislegt er gefið í skyn, Batti og Dóróthea eru bæði með ónotatilfinningar um að eitthvað óþægilegt sé í vændum, og í lok bókar kemur í ljós að atburðurinn í upphafi hefur afdrifaríkar afleiðingar (á ég að leyfa mér að nefna byltingu án þess að teljast vera með spoiler?). Skortur á söguþræði hvað?

Því má auðvitað velta fyrir sér hvers vegna höfundurinn velur að láta söguna gerast nákvæmlega 35 árum áður en hún kemur út. Í bókinni má tvímælalaust sjá speglun við nútímann. Aðstæður eru sumpart afskaplega líkar ástandinu á Íslandi í dag, það er kreppa með tilheyrandi gjaldeyrishöftum og atvinnuleysi og Batti situr og les grein um hægan afturbata efnahagslífsins. Maður veltir því jafnvel fyrir sér hvort tengja megi sjónvarpsdellu ákveðinna sögupersóna við flatskjárumræðu undanfarinna ára (ókei það er kannski dálítið langt gengið). Í bókinni er mjög afdráttarlaus femínískur undirtónn, sem mætti vel tengja við umræður um femínisma sem hafa farið fram undanfarið. Andstæðurnar Dóróthea (það má auðvitað alveg íhuga hvað það nafn þýðir) og Bíbí varpa ákveðinni sýn á konur og aðstæður þeirra. Bíbí, sem lifir eins og henni sýnist burtséð frá skoðunum annarra, er kölluð babílónskvenmaður og frönsk kvikmyndahóra af ofbeldismanninum Ríkharði sem kúgar og niðurlægir Dórótheu, sem aftur fyrirlítur líka Bíbí á ákveðinn hátt þótt hún sæki í hana. Sjónvarpsdagskráin þessa daga í nóvember 1976 er líka ekkert svo ólík dagskránni þessa dagana.

Árið 1976 var Haukur Ingvarsson ekki fæddur og að því leyti má segja það ákveðna ögrun fyrir hann að skrifa um þennan tíma. Ég man hins vegar vel eftir árinu 1976 og þess vegna var ég við lesturinn stöðugt að íhuga umhverfið og atburðina og rifja upp hvað var í gangi á þessum tíma þegar ég var grunnskólabarn. Í bókinni rakst ég á kunnugleg nöfn úr dagblöðunum frá 8. áratugnum (til dæmis Halldór Laxdal í Radíóbúðinni), það er verið að sýna klámmyndina Emanuelle II í Stjörnubíói (í glugganum stendur að nafnskírteina sé krafist) og auðvitað var bjór eftirsótt vara sem menn leggja mikið á sig til að útvega og selja á svörtu. En það er líka farið lengra aftur, árdagar sjónvarpsins rifjaðir upp, fyrstu geimferðirnar og fleira og þetta fannst mér býsna vel gert. Ég leitaði að anakrónismum, og fann einhver vafasöm smáatriði, en Nóvember 1976 er auðvitað skáldsaga svo það er ekki hægt að álasa höfundinum fyrir mögulegar, smávægilegar tímaskekkjur. Skáldsagnahöfundar mega og eiga að bjóða lesendum sínum í allskonar leiki þar sem reglurnar eru ekki fyrirfram gefnar upp.

Kápa Nóvembers 1976 er sérlega falleg og bókin sjálf (undir kápunni) er appelsínugul eins og gamla eintakið mitt af Praxis eftir Fay Weldon. Litamyndmál bókar Hauks er líka á retrólitaskalanum. Hunangsgult, appelsínugult, messínggult, myntugrænt, brúnt og sítrónugult koma fyrir, Bíbí er meira að segja með gulbrúna húð og tunglið er með rauðleitum blæ. Þessir litir eru andstæður við íslenska skammdegið og kuldann, það er ansi kalt í Nóvember 1976, frost og snjór með tilheyrandi ófærð. Ýmislegt spaugilegt skemmti mér við lesturinn, mannlýsingarnar eru fyndnar, Baldur Hermannsson, öðru nafni Batti, alveg sérstaklega, feðgarnir Ríkharður og Þóroddur eru grátbroslegir og Bíbí og Dóróthea eru mjög áhugaverðar persónur þó jafnframt megi segja þær fulltrúa ákveðinna kvengerða sem sjást endurtekið í bókmenntum.

Auk „raunverulegra persóna“ bókarinnar birtist sérstök týpa undir lok bókar sem vert er að minnast á. Um er að ræða Todd Richardsson sem Þóroddur „rekst á“ þegar hann verður fyrir einskonar vitrun í ferð með Batta á Miðnesheiði. Í þeim kafla er Þóroddi og lesandanum skyndilega kippt út úr köldum raunveruleikanum í landi náttmyrkranna og við mætum bláeygðum manni í rauðbleikri skyrtu og gallabuxum, sem situr á heitri vélarhlíf á bíl og drekkur bjór á stað sem Þóroddi finnst að hljóti að heita Arizona eða Kalifornía. Hann segir Þóroddi örlítið frá sjálfum sér þar sem setningin „Something tells me I'm into something good“ kemur við sögu og orð hans hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir framhald sögunnar. Þeir sem fylgdust með ákveðnum menningarkimum fyrir svona 6-8 árum kannast mögulega við Todd Richardsson. Hann hefur birt ljóð og ég man eftir athugasemdum frá manni með þessu nafni á bloggsíðum og nafn hans sást víðar. Nú sjá auðvitað allir að nöfnin Todd Richardsson og Þóroddur Ríkharðsson eru hliðstæður – ég ætla ekki að fara lengra út í þessi mál, lesið endilega bókina og verið vakandi á meðan.

Mér finnst Nóvember 1976 eftir Hauk Ingvarsson um margt fín skáldsaga og hún hefur sinn eigin sérstaka tón sem náði til mín. Stíllinn minnir mig ekki beinlínis á neinn annan höfund, ef mér yrði skipað að nefna einhvern þá myndi ég segja Bragi Ólafsson, en það er (held ég allavega) aðallega vegna byggingar bókarinnar frekar en stílsins. Það er ákveðin seigja í textanum, ekki síst í upphafi, hann er ekki sérlega mjúkur undir tönn. Það er greinilegt, miðað við umfjöllun sem bókin hefur fengið, að einhverjum gagnrýnendum finnst það galli. En auðvitað þarf skáldskapur ekkert að seytla eins og fjallalækur eða renna ofan í mann eins og hafragrautur með sykri. Það sem er auðmelt er oft ekkert sérlega næringarríkt.

4 ummæli:

Sigfríður sagði...

Mig langar að lesa bókin eftir þessa umfjöllun þína Þórdís. Ég bjó reyndar í Kaupmannahöfn ´76 en man samt eftir allskonar rugli úr íslenskum veruleika sem ég drakk í mig úr dagblöðunum á bókasafninu í Jónshúsi. Var samt aðallega obsessed af umfjöllun um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Skrítið.

Sigga sagði...

Ég er innilega sammála þér Þórdís. Takk fyrir þessi vönduðu skrif!

Nafnlaus sagði...

Ég er að fíla þessar sjónvarpsdagskrársíður!

-kst

Kári Tulinius sagði...

Já, ég var mjög sáttur með þessa bók. Ef eitthvað er að henni þá er það að í henni er of mikill söguþráður. Hún hefði vel mátt vera lengri. Svo er myndmálið vel hugsað og útfært. Til dæmis er myndin sem dregin er upp í fyrstu málsgrein kaflans Vetrarbrautin, þar sem útjaðar herstöðvarinnar er líkt við endimörk stjörnuþoku er með betri myndum sem ég hef lesið lengi.

Mér finnst þetta vera ákaflega falleg og hjartahlý bók. Norrænt félagsraunsæi af bestu sort.