Garnsafnið mitt er reyndar ekkert miðað við þetta. Sjá hér. |
Samviskubit eða óþreyja vegna ólesinna bóka virðist hrjá flesta þá sem áhuga hafa á bókum. Sólarhringurinn er hreinlega ekki nógu langur til að hægt sé að komast yfir að lesa allt sem skemmtilegt og/eða gagnlegt og/eða forvitnilegt væri að lesa og mörgum hættir til að vera helst til bjartsýnir í að áætla lestrartíma sinn fram í tímann og útvega sér mun fleiri bækur en þeir komast svo yfir að lesa. Stundum hef ég heyrt fólk segja að það sé eitthvað svindlkennt við að vera með ólesnar bækur uppi í hillu því þá gefi maður í skyn að maður hafi lesið ýmislegt sem maður hefur svo bara ekkert lesið. Ég vil meina að þeir sem halda þessu fram geti varla verið mikið bókaáhugafólk. Þegar ég sé vel búnar bókahillur hvarflar ekki að mér eitt augnablik að eigandinn hafi lesið allar bækurnar. Áður fyrr þegar fólk eignaðist fáar bækur kann það að hafa átt við að það læsi allar bækurnar sínar og mig minnir reyndar að ég hafi lesið flestar bækurnar mínar þegar ég var barn.
Sem sagt tel ég það ljóst að ég mun aldrei lesa allar bækurnar mínar, hvað þá allar hinar bækurnar sem mig langar að lesa sem ég hef látið vera að reyna að eignast vegna þess að þær eru auðfengnar á bókasöfnum. Samt finnst mér alltaf spennandi að eignast nýjar bækur; nýrri bók fylgja einhver fyrirheit og spenna. Í gær sótti ég tvær á pósthúsið sem ég hafði pantað og á reyndar von á fleirum. Önnur heitir New Waves in Metaphysics og ég er reyndar þegar byrjuð á henni og búin að lesa eina grein. Hin heitir Out from the Shadows. Analytical Feminist Contributions to Traditional Philosophy. Núna á næstunni þarf ég líka að endurlesa eða rýna betur í bækur sem ég hef þegar lesið auk þess sem ég þarf að líta á sem ég á eftir að lesa. Og svo reyni ég að laumast í það sem ég les mér til ánægju. Reyndar á þetta tvennt til að renna saman; margt af því sem ég les fellur (sem betur fer) bæði í flokk þess sem ég les vegna vinnu og þess sem ég les mér til ánægju en svo er sumt sem fellur bara í annan flokkinn. Meðal þeirra bóka sem eru í lesstaflanum um þessar mundir má nefna (auk þessara tveggja nýju) After Finitude, Making the Social World, Sexual Solipsism, Primary and Secondary Qualities, Truth Matters, The Grand Design og The Dispossessed. Já, ég geri mér grein fyrir því að þetta er allt á ensku og bara ein skáldsaga í bunkanum. Best að ég reyni að bæta úr því og nái mér í einhverja af ólesnu íslensku skáldsögunum sem eru til í hillunum hjá mér.
5 ummæli:
Ef þú ætlar að fara að snúa þér að íslenskum skáldsögum, lestu þá Konuna við 1000°, hún er ferlega flott. Besta íslenska skáldsagan síðan í fyrra sem ég hef lesið (og ég er búin að lesa flestar).
Konan við 1000° er einmitt ólesin uppi í hillu hér á heimilinu. Reyndar var það einn af öðrum bókasjúklingum heimilisins sem keypti hana.
Láttu hana Helgu Kress ekki heyra þetta, Erna! En ég mæli líka með Konunni við 1000°, já og allskonar öðru fínu, t.d. Jarðnæði og nýjustu Neonbókinni, Allt er ást eftir Kristian Lundberg (ef þú vilt eitthvað sem er tíu sinnum styttra en Hallgrímsbókin).
Já, það er nú málið með þúsundgráðubókina, ég veit ekki alveg hvenær ég á að hafa tíma til að lesa þetta.
Annars get ég nú ekki sagt að mig hafi vantað lesefni en takk fyrir ábendingarnar.
Skrifa ummæli