23. febrúar 2009

Konur sem hata karla

Þúsaldarþríleikur Stiegs Larssons hefur að sögn sænskra blaða selst í yfir tíu milljónum eintaka. Fyrsta bókin, Karlar sem hata konur, kom út á íslensku fyrir jólin. Á föstudaginn verður bíómynd sem gerð er eftir bókinni frumsýnd í Svíþjóð og auðvitað má búast við nýjum sölukipp í kjölfarið. Þýðingarréttur bókanna hefur verið seldur til um þrjátíu landa og bækurnar um Lisbeth Salander og Mikael Blomkvist hafa undanfarið sturtast úr prentvélum um allan heim.

Menn velta því auðvitað fyrir sér hvað geri einmitt þessar bækur svona vinsælar og ómótstæðilegar, við sem höfum lesið þær vitum að það er næstum ómögulegt að slíta sig frá þeim þegar maður er einu sinni byrjaður. Skýringar lesenda og þeirra sem allt þykjast skilja og vita eru auðvitað fjölbreyttar. Sögurnar finnst mörgum vera í meira lagi lunkin samtímalýsing og persónurnar eru um margt óvenjulegar og heillandi. Í bókunum er hefðbundnu kynjahlutverkunum til dæmis snúið á rönguna; Lisbeth Salander, aðalkvenhetjan, er húðflúraður tölvunörd og slagsmálahundur en karlhetjan, Mikael Blomkvist, er hins vegar tilfinningaríkur og mjúkur náungi. Svo eru bækurnar vel skrifaðar og úthugsaðar, nú og loks má nefna að einkamál og erfðamál höfundarins heitins hafa líka farið hátt og mikið verið um þau skrifað, en óþarfi er að segja frá því hérna.

Áður en hinn stórmerkilegi blaðamaður og baráttumaður Stieg Larsson lést úr hjartaáfalli árið 2004 hafði hann skrifað þrjár og hálfa bók í röð sem hann hafði hugsað sér tíu bóka seríu en ekkert var enn komið út. Við hann var tekið eitt einasta viðtal um bækurnar og þar sagði hann að hann hefði haft stórvinkonu okkar allra, Línu langsokk, sem fyrirmynd Lisbeth Salander. Hann hugsaði sér Línu orðna tuttugu og fimm ára, félagslega óhæfa og uppá kant við allt og alla en auðvitað algjöra ofurkonu. Ég persónulega sé samt Lisbeth meira fyrir mér sem fullorðna hliðstæðu Míu litlu í Múmínálfabókunum; hún er pínulítil og þvengmjó, oft öskureið, öllum óháð, reddar sér í öllum mögulegum og ómögulegum aðstæðum og vílar ekki fyrir sér að kála andstæðingum sínum. En varðandi persónur Astridar Lindgren þá hljóta margir að hafa tekið eftir að Mikael Blomkvist er nafni persónu úr safni þeirrar góðu konu, þar er auðvitað átt við ráðagóða og vandaða leynilögreglumanninn Kalla Blómkvist, tvær bækur um hann komu út á íslensku á sjötta áratug síðustu aldar í þýðingu Skeggja Ásbjarnarsonar.

Nú er bara að vona að bíómyndinni um Salander og Blomkvist skoli hingað upp á sker hörmunganna sem allra fyrst.

Femínistinn Nina Björk skrifaði í fyrra grein í Dagens Nyheter um Lisbeth Salander. Hér er tengill á greinina. Ef einhverjir eru ofurspenntir yfir efninu en skilja ekki sænsku þá gæti ég alveg þýtt hana eða skrifað útdrátt – en það geri ég aðeins vegna fjölda áskoranna.

21 comments:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég þurfti nú bara hreinlega að leiðrétta eigin mis.... Bíómyndin Män som hatar kvionnor verður frumsýnd á föstudaginn, þ.e.a.s. 27. febrúar.

Þorgerður sagði...

vóhó...ég er að fara til Stokkhólms á mánudaginn...og kemst vonandi í bíó...

Þórdís Gísladóttir sagði...

Það er náttúrlega bullandi óréttlæti að þú fáir að horfa á Michael Nyqvist
á meðan ekkert er í boði handa mér nema kannski Mickey Rourke og Arnar Jónsson.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Iss, þessi mynd verður ábyggilega alveg misheppnuð (þetta segi ég augljóslega eingöngu af tómri öfund út í Þorgerði).

Mig langar að lesa bækurnar aftur, því ég var einmitt alltof niðursokkin í þær við fyrsta lestur til að hafa nokkra rænu til að velta fyrir mér hvað það væri sem gerði þær svona frábærar. En það er ábyggilega einhvers konar sambland af því sem þú nefnir, Þórdís. (Góður punktur, annars, með Míu litlu.)

Greinin í DN er skemmtileg. Mér fannst líka gaman að lesa bréfaskipti Stiegs og ritstjórans hans á forlaginu á www.stieglarsson.se (undir "författaren").

Nafnlaus sagði...

Ég bæði hlakka til og ekki að sjá myndina, vonandi verður maður ekki fyrir vonbrigðum. En það er náttúrlega algjört must að sjá hana, sérstaklega þar sem herra Nyqvist er með.
Lóa

Æsa sagði...

Þessar bækur eru, svo ég kvóti Þorgerði: karlarúnk. Larson heitinn virtist sjá alteregó sitt í Kalla Blómkvist en konur missa eigið ágæti og sjálfstæði í nærveru hans. Hann er svo ofboðslega góður í rúminu að þær finna sig knúnar til að vera stöðugt að segja honum það.

Það stuðaði mig í gegnum allan bókaflokkinn hversu konurnar kiknuðu í hnjánum í nærveru hins sænska Árna Þórarinssonar. Tók þó steininn úr í síðustu bókinni, en þar kemur illa skrifaður kvenkarakter eins og skrattinn úr sauðaleggnum til þess eins að falla fyrir Kalla.

Salander og kyntröllið advokat Bjurman eru hins vegar ágætlega skrifað dúó og ástæðan fyrir því að ég ætla að fara á myndina um helgina.

Maríanna Clara sagði...

Ég verð að vera sammála síðasta ræðumanni (Æsu) með hvað óstjórnlegur kynþokki Blomkvist fór í taugarnar á mér - For crying out loud! Það féllu ALLAR konurnar í fyrstu bókinni fyrir honum - og sváfu ALLAR hjá honum! OK ok - ekki fórnarlambið - en hún hafði nú bara ekki tíma til þess...
Annars fannst mér bækurnar æði og æsispennandi (á reyndar eftir að lesa síðustu).

Hlakka MIKIÐ til að sjá myndirnar - og já - Salander er miklu líkari Míu litlu!

Þórdís Gísladóttir sagði...

Hú hú hú, þið eruð svo skemmtilegar.

Þorgerður sagði...

Er ég að missa af einhverju? Vilja allar konur sofa hjá Árna Þórarinssyni?

HelgaFerd sagði...

Úff, Þorgerður, hvað á maður að segja!

Góð greinin hennar Ninu. Salander minnti mig mest á pönkuðu teiknimyndasöguhetjuna Tank girl sem sportar einnig húðflúrum, er álíka viðsjárverð í fangbrögðum og á elkshuga af báðum kynjum. Líkindin ná alveg niður í Doc Martens klossana sem þær báðar klúnkast um á.

Maríanna Clara sagði...

Alveg sammála því að Larson er þægilega afslappaður með kynlífið - hins vegar er pínu þreytandi að konurnar skuli allar verða ástfangnar af Blomkvist eftir að hafa sofið hjá honum!

Ég finn mig knúna til að bæta því við að fyrir þá sem kveiktu á Bader Meinhof Komplex bókinni (sem hefur verið umtöluð hér á síðunni) en leggja ekki í þýskuna (Þórdís) þá er hún komin til landsin í enskri þýðingu og kostar tæpar 3000 kr...

Sigfríður sagði...

Úff, þetta er alveg hrikalega skandí eitthvað - en sögupersóna sem er í raun Múmínálfur er vissulega áhugaverður vinkill;) En hvaða rugl er það að allar þessar kjéllingar vilji endilega sofa hjá einhverjum mjúkum Kalla Blómkvist. En hér kemur samt fjöldaáskorun á þig Þórdís að gera amk útdrátt úr þessari grein þarna sem þú minnist á þannig að vér sænsku"challenged" getum lesið

Nafnlaus sagði...

Hehh ekkert svona, þú kannt sænsku Sissa!

Nafnlaus sagði...

Svo er víst auðveldlega hægt að læra hana af klámi ef maður er jafn gáfaður og námfús og Egill Helgason.


http://www.dv.is/frettir/2009/2/25/laerdi-saensku-af-klami/

Þórdís Gísladóttir sagði...

Já Sissa, biddu bara Egil að snara þessu fyrir þig, hann verður væntanlega ekki lengi að því.

Ég er svo vitlaus að ég var árum saman í háskóla í Svíþjóð að læra sænsku og tel mig þó enn eiga býsna margt ólært.

Sigfríður sagði...

Almáttugur, virðulegar úthverfafrýr verða gjörsamlega miður sín yfir svonalöguðu - maður hefði nú frekar viljað að fólk fengi sína tungmálakunnáttu í gegnum lestur kristilegra rita og fræðibóka fyrir námsfúsan almenning. Ekki það vissulega er það fagnaðarefni að námsfúsir nýti öll tækifæri tungumálunum til dýrðar.
Ætli maður neyðist þá ekki til að stauta sig framúr greininni á frummálinu;)

Nafnlaus sagði...

Nei slepptu því bara og skrifaðu meira um ljóð.

Króinn sagði...

Smá Íslandstengt skúbb um myndina umtöluðu (sem Danir elska en Svíum finnst ekkert spes): Hún Noomi Rapace sem leikur Lisbeth Salander debúteraði hvorki meira né minna en hjá Hrafni sjálfum sjö ára gömul. Bjó víst á Íslandi í nokkur ár ásamt móður og íslenskum stjúpföður og segist í viðtölum við skandinavíska fjölmiðla enn þá kunna íslensku.

Nú er bara að sjá hvaða íslenski leikstjóri verður fyrstur til að sjanghæa píuna til að leika á ástkæra, ylhýra. Kannski Hrafn aftur?

Þórdís Gísladóttir sagði...

Alveg rétt, það er ekki bara Nina Hagen sem átti íslenskan stjúpföður.
Er ekki Hrafn alveg hættur í bransanum? Hver vill taka viðtal við Noomi á íslensku? Kannski ákveðin druslubókadama sem er á leið í útvarpsnám á Dramaten á morgun?

Nafnlaus sagði...

Búin að sjá myndina, þræl góð. Kallinn fór með mér og hann er ekki búin að lesa bækurnar og hann var ekkert smá hrifinn.
Lóa

Þórdís Gísladóttir sagði...

Og nú er ég búin að komast að því að móðir mín er góð vinkona fósturömmu Noomi sem leikur Lisbeth! Tilviljanir maður lifandi.