14. júlí 2011

Kennarablæti og hamskipti

Beasts eftir Joyce Carol Oates er stutt skáldsaga en áhrifarík, sterk og grípandi. Mér finnst bráðnauðsynlegt að skrifa eitthvað um hana en vandinn er að segja eitthvað af viti án þess að gefa of mikið upp um söguþráðinn. Sagan er sögð af hinni tvítugu Gillian, nemanda í litlum kvennaháskóla í Bandaríkjunum, nánar tiltekið Nýja-Englandi, um miðjan áttunda áratuginn. Námsmeyjarnar eru upp til hópa ástfangnar af bókmenntaprófessornum Andre Harrow og keppast um að verða útvaldar af honum og konu hans, myndhöggvara. Þau hjónin þykja sérlega smart og frjálslynd, hæfilega upp á kant við kerfið.

Einhvern veginn tekst Oates að fá mann til að lifa sig nógu mikið inn í söguna til að þykja ást Gillian á Harrow og undirgefni við hann fullkomlega eðlileg. Harrow virðist hæfileikum gæddur við að miðla skilningi á ljóðlist til nemenda sinna en aðferðir hans við kennslu í skapandi skrifum, þar sem fámennur hópur útvaldra nemenda keppist við að þóknast honum, eru heldur vafasamar. Þar þykir beinlínis eftirsóknarvert að vera niðurlægð af Harrow fyrir framan hópinn, en niðurlæging felur jú í sér að hann veiti manni athygli. Og hann lætur nemendur halda dagbækur þar sem ekki skal halda aftur af neinu, allar innstu hugsanir og þrár skulu látnar flakka, svo ekki sé minnst á fjölskylduleyndarmál, og þessu skal deila með hópnum.

Oates tekst þarna að koma heilmiklu til skila í stuttri bók. Það er ekki verið að eyða orðum í óþarfa og ekkert af textanum fer til spillis. Hún nýtir sér ímyndunarafl lesandans til að koma óhugnaði til skila; í stað langra og ógeðfelldra lýsinga gefur hún hluti í skyn og segir jafnvel (eða lætur Gillian segja) að eitthvað sé of ógeðfellt til að lýsa því. Það sem segja má að skipti máli þarna er ekki einhver keppni í að ganga sem lengst í óhugnaði heldur það að gengið er fram af sögupersónum, traust þeirra misnotað og tilfinningar þeirra meðhöndlaðar sem leikföng. Þarna flykkjast hæfileikaríkar, ungar konur um að verða niðurlægðar af valdasjúklingum. Er þráin eftir viðurkenningu svona sterk? Hvað er hægt að fá fólk til að ganga langt fyrir það eitt að upplifa sig sem útvalið umfram aðra?

Einkennandi fyrir þessa bók er hvernig hún vekur upp spurningar um mörkin milli fegurðar og ljótleika og á milli góðs og ills. Lýsingarnar eru oft myndrænar og Gillian, og lesandinn með henni, skiptir um skoðun á því hvort eitthvað sé ljótt eða fallegt og eins verður það stundum óljóst hvort það sem verið er að lýsa sé ljótt eða fallegt. Eftir alla leikina með mannlegar tilfinningar fer að verða freistandi fyrir lesandann að líta á illvirki sem góðverk. Og hefndin er sæt, hvort sem sá sætleiki er nú hollur eða ekki.

7 ummæli:

Garún sagði...

Eitthvað hljómar þetta kunnuglega - getur verið að mynd hafi verið gerð eftir þessari bók?

Hildur Knútsdóttir sagði...

Ég las þessa bók fyrir nokkrum árum og fannst hún frábær!

Eyja M. Brynjarsdóttir sagði...

Ég veit ekki til þess að það hafi verið gerð kvikmynd. Kannski er til einhver kennarablætismynd með svipað þema?

guðrún elsa sagði...

Það væri áhugavert að pæla sérstaklega í þessu þema í bókmenntum og kvikmyndum. Mér dettur strax í hug Husbands and Wives, Wonder Boys og The Squid and the Whale. (Þar eru kennararnir menn sem kenna ritlist og það verður mikil kynferðisleg spenna milli þeirra og ungra kvenkyns nemanda).

Þetta er líka viðfangsefni í The Dying Animal eftir Philip Roth - þar er þó gengið lengra en í ofangreindum myndum. Og svo er þetta örugglega í fullt af fleiri bókum, ég man ekki alveg núna.

Svo má tengja þetta við barnabækur með því að skoða Matthildi eftir Roald Dahl, þar sem kennarinn, Ljúfa, ættleiðir bókstaflega greindasta nemandann sinn í lok bókar. Auðvitað er þetta kynferðislega twist ekki í þeirri bók, en náttúrulega sama hugmyndin: að vera útvalinn af kennara, að fá algjöra viðurkenningu (sem er raunar óviðeigandi og óeðlilega mikil).

Hildur Knútsdóttir sagði...

Er ekki einhver á leið í mastersnám í bókmenntafræði?

guðrún elsa sagði...

Ó, hvað mér þætti vandræðalegt að nálgast kennarann minn og segjast vilja skrifa um þetta efni. Hjá honum/henni.

Sigga sagði...

Ekki má heldur gleyma Educating Rita.