22. júlí 2012

Af krísu miðaldra karlmanns

Einhverntíman síðastliðinn vetur fann ég skáldsöguna Therapy eftir David Lodge í Góða hirðinum. Ég keypti hana að sjálfsögðu og setti í einhvern hinna fjölmörgu bunka af ólesnum bókum sem eru um allt heima hjá mér. Ég hef nefnilega lengi ætlað mér að lesa meira eftir David Lodge, svosem ekki af neinni sérstakri ástæðu annarri en þeirri að mér finnst hugmyndin um „campus novel genre“ frekar skemmtileg, og einhverntíman fyrir langa löngu las ég Nice Work og fannst hún alveg ágæt lesning þó að það nagaði mig að mér ætti að finnast hún ferlega asnaleg og leiðinleg. Sem hún náttúrlega er – altsvo asnaleg. Therapy er ekki alveg ólík, hún er alveg ágætlega læsileg og stundum bara alveg fín, en það er samt eitthvað svona asnalegt við hana. Þær eru karlrembulegar á einhvern furðulegan hátt þessar bækur, á svona einhvern intellektúal háskólaprófessora bóhemískan hátt sem ég get eiginlega ekki, eða nenni varla, að skilgreina frekar.

Therapy fjallar um rithöfundinn Laurence „Tubby“ Passmore. Hann er handritshöfundur að vinsælum sjónvarpsþætti "The People Next Door" sem virðist eiga að vera svona einhverskonar "Eastenders" þáttur.
Í byrjun sögu er ljóst að Tubby er vel stæður maður á miðjum aldri sem hefur gengið vel í sínu starfi; þátturinn er afar vinsæll og peningarnir streyma inn. Ekki er þó allt eins gott og halda mætti því Tubby er haldinn hinum ýmsustu kvillum og þarf að vera í næstum stöðugum þerapíum, sbr. nafn bókarinnar. Hann þjáist af veikindum í hné sem færasti skurðlæknir hefur ekki náð að komast fyrir þrátt fyrir aðgerð og það virðist næsta ljóst að verkirnir sem hrjá hann séu að mestu leyti af sálrænum toga. Hann er í sjúkraþjálfun, nuddi, ilmolíumeðferð (sem hann þorir alls ekki að segja sjúkraþjálfaranum frá) og reynir hvað hann getur að koma sér í einhverskonar stand. Hluti af því er að fara í meðferð hjá sálfræðingi og bókin á að vera dagbók sem sálfræðingurinn segir honum að halda. Hann er augljóslega sárþjáður af einhverskonar "mid life crisis" - er ómögulegur án þess að vita almennilega af hverju, óánægður með eiginkonuna án þess að hafa til þess nokkra ástæðu, er ekki kynferðislega ófullnægður en samt vantar eitthvað uppá hjá honum.

Sally, eiginkona Tubbys, er háskólaprófessor og sjálfstæð kona. Svo mjög að samkvæmt Tubby er hún eina eiginkona rithöfundar sem ekki hefur helgað líf sitt því að sjá um og vera ritari hjá eiginmanninum. Hann vorkennir sér vissulega aðeins yfir þessum örlögum en virðist samt vera ánægður með eiginkonuna, svona þannig séð. Hann á þó platónska hjákonu í London, hana Amy sem starfar við sjónvarpsþáttinn. Tubby greyið verður svo alveg þrumu lostinn og gjörsamlega miður sín þegar Sally fer fram á skilnað og vill ekki gefa upp neinar ástæðu fyrir þeirri ósk sinni aðra en þá að það sé óþolandi leiðinlegt að búa með honum. Tubby fer í algjöra flækju og telur að ekki geti annað komið til greina en að hún hafi verið að halda framhjá sér með tennisþjálfaranum og upp kemur afar vandræðaleg sena þarsem hann, frávita úr rugli, ryðst inn á heimili þjálfarans um nótt og sakar hann um framhjáhald með eiginkonu sinni. Þegar fram kemur að tennisþjálfarinn er samkynhneigður og á þar að auki sambýlismann þá er karlanganum öllum lokið. Ekki bætir úr skák þegar blöðin komast á einhvern hátt á snoðir um atvikið og frásögn um það er birt í tímariti sem allir í bransanum lesa.

Miðhluta bókarinnar er svo skipt upp í nokkrar frásagnir þar sem Tubby skrifar í orðastað hinna ýmsu persóna sem hann hefur átt í samskiptum við. Þar segir hann söguna einsog hann telur að hún hafi komið þeim fyrir sjónir. Óhætt er að segja að þetta sé veikasti hluti bókarinnar. Það kann að vera að Lodge hafi ætlað sér að hafa þessa kafla hálf ótrúverðuga í ljósi þess að það er Tubby sjálfur sem skrifar þá í orðastað annarra en það virkar ekki alveg nægilega vel. Sérstaklega finnst mér hlutinn sem hann skrifar í orðastað Samönthu, en hún er ung stúlka sem starfaði sem barnfóstra fyrir leikara í sjónvarpsþættinum en hefur metnað til að verða handritshöfundur, ótrúverðugur. Pælingarnar þar eru svo karlrembulegar að þær bara ganga engan veginn upp.

Þriðji  hlutinn er svo að mínu mati sá besti. Þar fer Tubby í leit að horfnum tíma. Hann fær á heilann samskipti sín við Maureen, sem var fyrsta kærustan hans og fer nákvæmlega yfir þeirra sögu og það hvað varð til þess að slitnaði upp úr sambandi þeirra. Í þessum hluta eru heilmiklar pælingar um kaþólska trú og tengingu hennar við líf sögupersónanna, en Maureen og hennar fjölskylda eru kaþólsk. Það er kannski ekki skrítið að þessi pæling komi þarna inn og sé vel heppnuð því kaþólsk trú mun vera mikið áhugamál hjá Lodge og hann hefur skrifað um það lærðar ritgerðir. Leit hins miðaldra Tubbys að sjálfum sér felur í sér afturhvarf í þessa hálfkaþólsku fortíð (hann tók þátt í messum og ungliðastarfi til að geta verið með Maureen) og miklar pælingar varðandi það hvernig hann kom fram við Maureen, fékk hana til að gera hluti sem samkvæmt trú hennar voru synd og losaði sig síðan við hana á frekar lúalegan hátt. Hann reyndar gerir kannski full mikið úr mikilvægi þessarar framkomu sinnar, einsog í ljós kemur síðar þegar hann nær að hafa uppá Maureen eftir miklum krókaleiðum. Ein birtingarmynd krísunnar hjá honum er svo mikill og skyndilegur áhugi á danska heimspekingnum Sören Kierkegaard. Tubby fer í pílagrímsferð til Kaupmannahafnar Sörens Kierkegaards í leit sinni að lífsskilningi, tekur með sér hina ungu Samönthu sem engan vegin nær þessari obsessjón og verður bara þrælpirruð á karlinum og ruglinu í honum.

Í fjórða hlutanum er Tubby kominn til Spánar, í desperat leit að Maureen sem er þar að ganga pílagrímaveginn til Santiago de Compostela. Hann finnur Maureen og þau ná ágætu sambandi sem síðan leiðir af sér vináttu Tubbys, hennar og Bede eiginmanns hennar þegar heim er komið. Tubby virðist með þessari síðari pílagrímsferð hafa náð þriðja stigi persónulegrar þróunar samkvæmt kenningum Kierkegaards, en hann fer mikinn í útskýringum á þeim pælingum sínum og lýsir fyrir Maureen hvernig mismunandi tengundir pílagríma sem þau hitta á leiðinni (nb. Tubby er að sjálfsögðu ekki "alvöru" pílagrímur, hann keyrir meðan Maureen gengur) falla inní kerfið "aesthetic/ethical/religious" og hvernig hinn sanni pílagrímur, og þal hinn sanni maður hefur náð þriðja stigi og getur bara "verið" meðan aðrir streða stöðugt við að sanna eitthvað fyrir sjálfum sér og öðrum.

Therapy er að mörgu leyti ágætis bók. Hún er fín aflestrar, manni leiðist ekki lesturinn og það er vissulega gaman að gleyma sér aðeins í pælingum Tubbys um Kierkegaard, kaþólskuna, samband hans við konur og svo framvegis. Það er samt alltaf eitthvað sem á góðri íslensku "rubs you the wrong way". Kannski er það hversu ótrúlega pirrandi og firrtur Tubby karlanginn getur verið, obsessjónir hans yfir sjálfum sér og því hvernig hann virðist fullkomlega sannfærður um að heimurinn hverfist um hann og engan annan. Ég er samt að spá í að lesa fleiri bækur eftir Lodge og sjá hvernig það fer - hvort ég verð eitthvað nær því að skilgreina þennan pirring!

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Við höfum greinilega svipaðar tilfinningar til Davids Lodge! Ég las Nice Work í yndislestri í menntaskóla (ég valdi dásamlega undarlegar bækur miðað við flesta samnemendur mína á þeim tíma) og átti í einhvers konar ástarhaturssambandi við hana. Svo las ég eina í viðbót sem ég man ekki í svipinn hvað heitir.
Þetta eru svo lítilmótlegir karakterar einhvern veginn, krísurnar þeirra eru fáránlegar og sjálfsskapaðar, karlremban ansi áberandi á einmitt þennan akademíska máta, en samt eru skemmtilegar pælingar í bókunum og margt sem ég fíla við húmorinn.

Salka

Þórdís Gísladóttir sagði...

Systurtilfinning. Ég las Lítinn heim og fílaði hana ekki. Síðan hef ég látið David Lodge eiga sig.

Nafnlaus sagði...

Ég vil aðeins bera hér í bætifláka fyrir David Lodge og þá sérstaklega „Small World“ („Lítill heimur“ í íslenskri þýðingu), sem að mínu áliti er meðal 20 bestu skáldsagna 20. aldar. Hún er meinfyndin, spennandi, lærð, með afar skýrum karakterum, ungum sem öldnum, og ótal bókmenntalegum vísunum. Þarna er hinn akademíski alþjóðlegi bókmenntaheimur dreginn sundur og saman í háði. Í grunninn er „Small World“ ástarsaga, rómansa, með leitina að gralnum miðlæga, enda ekki tilviljun að karlsöguhetjan heiti Persse, sbr. Parsival. En ótal persónur þvælast inn á sviðið, stundum fyrirferðarmiklar, og má þar helst nefna bókmenntaprófessorana Philip Swallow og Morris Zapp, sem voru lykilsöguhetjur fyrri bókar Lodge, litlu síðri, „Changing Places“. Að mörgu leyti stendur Swallow fyrir enska akademíska bókmenntahefð, trausta, með djúpar rætur í Austen og Thackeray, en Zapp fyrir hina bandarísku, með áherslu á nútímalegri kenningar strúktúralisma og póst-módernisma. Þess utan ganga þeir tveir í báðum ofangreindum bókum í gegnum makalaust einkalíf, svo ekki sé dýpra tekið í árinni. Loks má nefna að engum tekst betur en Lodge í „Small World“ að halda ótal þráðum í gangi samtímis (þótt David Mitchell slagi hátt upp í það í „Cloud Atlas“). London, New York, París, Heidelberg, Zürich, Lüzern, Mílanó, Como, Írland, Tel Avív, Istanbúl, Tókýó, Seoul, Honululu og Cooktown í Ástralíu – og hin tilbúna borg Rummidge á Bretlandi: Þetta eru helstu staðirnir, sem „Small World“ gerist á, og er hún samt aldrei ruglingsleg eða þvælin.
Ég las „Therapy“ fyrir um 10 árum (og „Nice Work“, þar sem Philip Swallow gægist enn inn, fyrir um 20 árum) og þótti báðar vera miðlungsgóð verk með þokkalega spretti, „Therapy“ þó snöggtum skárri. Það sem er ánægjulegt við „Therapy“ er að Lodge leitar inn á þær gömlu slóðir úr „Changing Places“ að segja söguna í ólíkum bókmenntaformum og frá ólíkum sjónarhornum. (Til samanburðar, þá er hluti af „Changing Places“ í formi blaðaúrklippa, annar hluti er bréfaskipti og þriðji tekur á sig líki kvikmyndahandrits.) Ég er sammála því að seinni hluti „Therapy“ sé mun betri en sá fyrri, þ.e. Kaupmannahafnarhlutinn og Santiagohlutinn (sem mér þótti reyndar bestur). En „Therapy“ og „Nice Work“ eru bækur eftir Lodge, sem ég mun bara lesa einu sinni; „Small World“ hef ég lesið fjórum sinnum og „Changing Places“ þrisvar.

Helgi Ingólfsson

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég las Lítinn heim tvisvar og fannst hún jafn leiðinleg og óáhugaverð í bæði skiptin svo ég gaf hana í Góða hirðinn.

Nafnlaus sagði...

David Lodge höfðar máske meira til karlpeningsins. Þótt ég sé þér ekki sammála um smekk, Þórdís, þá skil ég vel tilfinningu þína. Mér leið nákvæmlega eins með eina tilgerðarlegustu bók seinni áratuga, "The Thought Gang" eftir Tibor Fischer, og las hana einnig tvisvar, í leit að einhvers konar réttlætingu fyrir tilvist oflofaðrar bókarinnar í seinna skiptið, en þótti hún jafnvel leiðinlegri og lítilsigldari en í fyrra skiptið. Ég þyrfti sýnilega að grafa þessa bók Fischers upp úr glatkistunni og koma "The Thought Gang" í Góða hirðinn.

Helgi Ing