11. júlí 2012

Bragðdauf saga um hrunið


Ólífulundurinn svikasaga (2011) er eftir Björn Valdimarsson, í léttu kiljubroti og fljótlesin. Aðalpersóna sögunnar er ung rannsóknarblaðakona, Ólína Norrdal (en bókartitillinn varð til þess að mér fannst hún ítrekað heita Ólífa), sem hefur misst vinnuna vegna tregðu sinnar til að halda kjafti um umdeild þjóðfélagsmál. Í kjölfarið berst henni dularfullt boð til Ítalíu. Ólína slær til, pakkar niður öllum þremur bikiníunum sínum og drífur sig af stað en gestgjafi hennar í Toskana reynist vera Birgir Vilhjálmsson, myndarlegur maður á miðjum aldri sem lifir þar einsetulífi í vellystingum. Kemur á daginn að hann óttast um öryggi sitt og vill segja blaðakonunni sögu sína ‒ „gera játningu ‒ á meðan tími gefst. Á sama tíma fylgjumst við með íslenskum smákrimma ferðast með Norrænu suður á bóginn í óljósum en klárlega vafasömum tilgangi, og verður þess auðvitað skammt að bíða að þræðirnir tveir sameinist í einhverskonar uppgjöri. Þriðji þráðurinn fer svo fram uppi á Íslandi, en dularfull leyniskytta sem telur sig hafa hrunharma að hefna hefur tekið lögin í eigin hendur.


Það er tæpast eintóm tilviljun að persónan Birgir Vilhjálmsson skuli deila fangamarki með bókarhöfundi. Kann að vera að þindarlausir mónólógar Birgis um m.a. hrunið og aðdraganda þess, íslenskt samfélag, ESB og hvalveiðar komi gegnum málpípu höfundar, en það skiptir svosem ekki öllu máli. Hrunið sem viðfangsefni er auðvitað orðið svo margtuggið og þvælt í misgáfulegri umræðu að það er heldur vandmeðfarið, hvað þá í skáldverki. Hruntalið í Ólífulundinum fannst mér engu bæta við fyrri umræðu og satt að segja virkaði það fyrst og fremst þreytandi á mig. Textinn ber ýmis merki fljótfærni í frágangi, t.d. í fjölda innsláttarvillna og hreinlega einhverra málfræðivillna. Svoleiðis þykir mér alltaf synd, því það má svo auðveldlega laga með góðum yfirlestri - eða bara með því að gúgla það sem maður er ekki klár á sjálfur, t.d. sérnöfnin Nietzsche, Liechtenstein og Louis Vuitton (sem öll eru ranglega stafsett í bókinni). Þetta eru þó kannski engar dauðasyndir, en verra er að bókin er einfaldlega illa skrifuð, plottið flatt og fyrirsjáanlegt og persónurnar sömuleiðis. Ef þið viljið lesa eitthvað nýtt / eitthvað spennó / eitthvað íslenskt / allt ofantalið í sumarfríinu mæli ég með einhverju öðru. Bókin er gefin út af Næst ehf., útgáfufyrirtæki og grafískri hönnunarstofu þar sem Björn Valdimarsson er annar eigenda og er því í raun um sjálfsútgáfu að ræða. Ég fagna bókmenntalegri framtakssemi Björns, en hyggi hann á frekari skriftir vona ég að næsta verk fái meiri yfirlegu.

4 ummæli:

Kári Tulinius sagði...

„þindarlausir mónólógar Birgis um m.a. hrunið og aðdraganda þess, íslenskt samfélag, ESB og hvalveiðar“

Hvalveiðar?

Nafnlaus sagði...

Þingholts-Slátrarinn strikes again.

SB

Erla Elíasdóttir Völudóttir sagði...

Hvaða hvaða, Skarphéðinn! Staðsettu mig þá allavega rétt: http://is.wikipedia.org/wiki/%C3%9Eingholt

Erla Elíasdóttir Völudóttir sagði...

kv. Skólavörðuholts-besserwisserinn