Sjöundármorðin eru sennilega frægasta málið í bókinni auk morðsins á Natani Ketilssyni, en þar er ennfremur að finna þrjú önnur morðmál og tvö blóðskammarmál. Ég heillaðist einna mest af sögu Appollóníu Schwartzkopf, en fyrsti kafli bókarinnar fjallar um hið meinta morð á henni á Bessastöðum árið 1724. Málið er allt svo átakanlegt og skrítið og nafn hinnar látnu svo hljómmikið og dularfullt að Appollónía hefur verið mér ofarlega í huga síðustu daga.
Appollónía Schwartzkopf var norsk kona og samkvæmt dr. Guðbrandi „full ástæða til þess að ætla, að hún hafi hvorki verið gömul né ófríð“. Amtmaðurinn á Íslandi, Niels Fuhrmann, hafði trúlofast henni erlendis en hætt svo við hjónabandið. Appollónía kærði hann og amtmaðurinn var í kjölfarið „dæmdur til að ganga að eiga jómfrú Schwartzkopf og greiða henni 200 ríkisdali á ári, þar til það væri fram gengið“. Guðbrandur leiðir líkum að því að Fuhrmann hafi sennilega „tælt jómfrúna til samlags við sig undir því yfirskyni, að hann mundi ganga að eiga hana“ og jafnvel barnað hana og það sé skýringin á þessum harða dómi.
Hvað sem því líður sigldi Appollónía til Íslands vorið 1722 og settist að á Bessastöðum hjá tilvonandi eiginmanni sínum. Hjónavígslunni virðist þó hafa verið slegið á frest og amtmaðurinn kom jómfrúnni fyrir í stofunni en tjaldaði sjálfur úti á túni. En fljótlega kom babb í bátinn; Fuhrmann lagði hug á aðra konu, Karen Holm, sem var á Íslandi með móður sinni, Katharinu Holm. Þær mæðgur voru mjög áfram um að það yrði Karen en ekki Appollónía sem Fuhrmann amtmaður gengi að eiga og lögðu fæð á Appollóníu, maddama Holm reyndi jafnvel að ráðast á hana með trélurk. Svívirðingarnar flugu á báða bóga, maddama Holm kallaði Appollóníu skepnu en Appollónía kallaði maddömu Holm gamla mellumóður. Vitni í málinu staðfesti að maddama Holm hefði sent til sín vinnukonu til að grennslast fyrir um það „hvort eg gæti ekki útvegað henni svo öflugan galdramann, að hann stuggaði Schwartzkopf frá eða réði hana af dögum, áður en hún kæmi til landsins“ en vitnið svaraði „að ég þekkti engan galdramann hér á landi, og bæði Guð að forða mér frá að hafa við slíkt saman að sælda“.
Andrúmsloftið á Bessastöðum var semsé lævi blandið, og ári eftir að Appollónía kom til Íslands var hún byrjuð að óttast um líf sitt. Hún veiktist ítrekað af því að borða mat sem fyrir hana var borinn og lést að lokum af slíku kasti þann 20. júní 1724. Vegna undangenginna atburða lágu mæðgurnar Holm undir grun um að hafa myrt Appollóníu, en voru sýknaðar af því. Það þótti enda ekki sannað að Appollónía hefði verið myrt og mönnum bar ekki saman um það hvort lík hennar hefði borið þess merki að eitrað hefði verið fyrir henni (Niels Kjær varalögmaður tók fram að þegar hann sá „hinn dauða líkama“ hefði hann verið svo vel klæddur „sem göfugu líki sæmir að dönskum sið“). Fuhrmann og Karen Holm giftust aldrei en lifðu saman eftir þetta og hann arfleiddi hana að öllum eigum sínum. Appollónía hefur hins vegar verið sögð ganga aftur á Bessastöðum.
Það er eitthvað svo dapurlegt við sögu aumingja Appollóníu þar sem hún húkir fjarri heimahögunum, ein á Bessastöðum með manni sem hefur verið dæmdur til að giftast henni en hefur augljóslega ekki áhuga á því, og tveimur konum sem leggja fæð á hana og vilja gera henni allt til miska. Hún liggur í rúminu og það er borinn í hana matur sem hún er sannfærð um að sé eitraður en borðar samt – af því að hún er svo svöng. Guðmundur Daníelsson skrifaði bókina Hrafnhettu um Appollóníu Schwartzkopf innan við áratug eftir að Sjö dauðasyndir út, það er nú meira sem þessi glæpamál geta verið rithöfundum mikill innblástur.
Það er þó ekki síður stíll og afstaða Guðbrands Jónssonar sem gerir Sjö dauðasyndir skemmtilega aflestrar (mögulega að undanteknum löngum og kaotískum lýsingum á dómstólavafstri Hans Wíum sýslumanns). Hann er einn af þessum gömlu fræðimönnum sem lögðu sig fram um að skrifa hressilegan stíl og voru ekkert að stressa sig of mikið á að taka ekki afstöðu til persóna eða söguefnis. Í Sjöundármálinu hefur hann til dæmis augljósa samúð með hinum dæmdu morðingjum (eins og reyndar fleiri fyrr og síðar) og er svona frekar lítið hrifinn af fórnarlömbunum, segir það eitt vitað um Jón Þorgrímsson eiginmann Steinunnar að hann hafi verið talinn „væskill, óáræðinn, jafnvel ragur, og nöldursamur heima fyrir“. Um hina langþjáðu Appollóníu Schwartzkopf segir hann að hún hafi getað sjálfri sér um kennt að Fuhrmann hafi slegið hana „því að hún var alltaf í tíma og ótíma að abbast upp á amtmann“. Það rifjaðist raunar upp fyrir mér við lesturinn að ég hafði áður lesið bók eftir Guðbrand, sögu lögreglunnar í Reykjavík fram til um 1930, og þar lýsti hann hinum og þessum lögregluþjónum (yfirleitt þessum dönsku) óhikað sem drykkfelldum og treggáfuðum.
Formáli Guðbrands að Sjö dauðasyndum er ekki síður skemmtilegur en líflegar frásagnir hans af glæpamálunum. Þótt hann vísi sjálfur hvergi í heimildir (lætur nægja að segja að þær hljóti að vera lesandanum auðfundnar) og hiki ekki við að kalla það fólk sem kemur við sögu væskla og aumingja telur hann sig greinilega fulltrúa hinnar fræðilegu nálgunar og fer gagnrýnum orðum um fyrri sagnaritun um slík mál, til dæmis sagnaþætti Gísla Konráðssonar, enda séu hans heimildir yfirleitt „sveitarrómur, sagnir og jafnvel þjóðsögur“ (sem er sjálfsagt rétt).
Guðbrandur virðist ennfremur telja sig þurfa að réttlæta áhuga sinn á gömlum glæpamálum og fullvissa lesendur um að hann sé ekki tilkominn af neins konar pervertískri gægjuþörf. Hann leggur ítrekað áherslu á sagnfræðilegt gildi þess að kanna slík mál og hina ríku hefð sem fyrir því sé víða erlendis. Hann ræðir glæpasagnavæðinguna með vissum vandlætingartóni – sá kafli hefði getað verið skrifaður í gær – en var reyndar sjálfur ekki alls kostar saklaus af henni, því hann skrifaði eina fyrstu glæpasögu á Íslandi, Húsið við Norðurá, undir dulnefninu Einar Skálaglam.
Svona brást Páll páfi sjötti við þegar hann fékk ævisögu Jóns Arasonar eftir dr. Guðbrand Jónsson í pósti. |
Ég get glatt lesendur bloggsins með því að ég hef þegar hafið ritun framhaldsfærslu um bækurnar tvær sem sérstakan áhuga minn vöktu við þetta grúsk, ferðabókina Þjóðir sem ég kynntist eftir Guðbrand Jónsson sjálfan og sagnabókina Afbrigði og útúrdúrar eftir Kjartan Sveinsson, samstarfsmann Guðbrands á Þjóðskjalasafninu, þar sem hann fer sérlega ófögrum orðum um doktorinn og reyndar ýmsa fleiri.
Ég gef Sjö dauðasyndum alltént ágæta einkunn, ekki bara vegna þess að það getur verið æsilegt að lesa um gömul glæpamál heldur líka vegna þess hvað það er gaman að lesa bækur þar sem fólk í gamla daga talar um fólk í gamla gamla daga, þar sem menn gagnrýna efnistök þeirra sem áður höfðu skrifað um viðlíka mál en þverbrjóta sjálfir allar reglur sem væru viðhafðar í dag, hneykslast á hugsunarhætti liðinna tíma en hugsa greinilega sjálfir allt öðruvísi en maður sjálfur hálfri öld síðar. Guðbrandur orðar þetta raunar á allt að því ljóðrænan hátt í kaflanum um blóðskammarmál Þórdísar Halldórsdóttur og Tómasar Björnssonará öndverðri 17. öld:
„Öll rekistefnan kemur auðvitað sárailla heim við réttarvitund vorra daga, og fyrir því þykir okkur málið skrítið – jafnvel hlægilegt –, en vér megum þó ekki áfellast þá tíð fyrir þetta. Menn voru í þá daga háðir henni, á sama hátt og vér erum háðir vorri samtíð, en það má meira en vera, að síðari tímum verði að hlæja dátt að ýmsu því í fari vorrar tíðar, er oss var mest alvara.“
2 ummæli:
Þetta var fróðlegt og skemmtilegt. Ég VERÐ augljóslega að lesa þessa bók. Mér er íraun óskiljanlegt hvers vegna ég er ekki löngu búin að því.
Ég var með Appolloníu á heilanum þegar ég var svona tíu ára. Ég verð að lesa þessa bók!
Salka
Skrifa ummæli