Sýnir færslur með efnisorðinu söfnunarárátta. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu söfnunarárátta. Sýna allar færslur

8. mars 2012

Margt á prjónunum

Á tímabili safnaði ég prjónabókum. Þar á ég fyrst og fremst við bækur með prjónauppskriftum en þó ekki bara. Oft er prjónabók helguð tiltekinni aðferð, tækni eða mynsturgerð, hugmyndum tiltekins prjónahönnuðar eða prjónuðum plöggum af einhverju tagi og oft inniheldur hún heilmikinn sögulegan fróðleik. Mér telst svo til að ég eigi tæplega fimmtíu prjónabækur, sem eru nú kannski engin ósköp, en mér finnst það orðið nóg. Alla vega er ég nánast alveg hætt að kaupa slíkar bækur því mér finnst ég orðið eiga allt sem ég þarf í þeim efnum. Ég á nokkuð gott safn af flestum þeim uppskriftum sem ég þarf eða fræðslu um aðferðir til að prjóna allt það sem mig langar til að prjóna og það sem upp á vantar er auðvelt að nálgast á netinu, ekki síst eftir tilkomu prjónafeisbúkkarinnar Ravelry. Líklega gæti ég freistast til að kaupa enn eina prjónabókina ef hún innihéldi eitthvað mjög frumlegt eða nýstárlegt, eða væri með alveg sérdeilis fallegum myndum, en ég ber mig ekki eftir því lengur.