Kanadíski rithöfundurinn Margaret Atwood er í miklu uppáhaldi hjá mér. Aðdáunin er þó raunar ekki af taumlausa toganum því það er alltaf eitthvað í skrifum hennar sem skapar meiri fjarlægð en svo að ég geti alfarið gefið mig persónum eða texta á vald; einhver kaldur tónn sem lendir ekki alltaf réttu megin við línuna að mínu mati. En samt er Margaret Atwood svo firnagóður höfundur, svo beinskeytt þrátt fyrir stílsnilldina, svo flink að raða saman orðunum og afhjúpa smám saman einhvern kjarna sem er ýmist óþægilegur, sár, óvæntur eða furðulegur. Hún er beittur femínisti og skrifar þrívíðar persónur, bæði konur og karla. Annað sem gerir Atwood frábæra er það hversu fjölbreyttar bækur hennar og sögur eru, eins og allir vita sem hafa lesið meira en eina bók eftir hana. Hún hefur skrifað skáldsögur, ljóð, nóvellur og smásögur, handrit, söngtexta og pistla; stundum er hún á sviði vísindaskáldsögunnar, stundum raunsæis, stundum fantasíu, stundum eru skrif hennar meira í ætt við hugleiðingar eða einhvers konar flæði. Oft fléttast þetta einhvern veginn saman, t.d. er fantasíusaga inni í sögunni í
The Blind Assasin (sem ein sögupersónan skrifar).
 |
Falleg kápa |
Ég hef aldrei lesið bók eftir Margaret Atwood sem mér hefur fundist slæm eða leiðinleg, en þær höfða mismikið til mín. Ég er minna fyrir vísindaskáldskapinn - sennilega leikur persónulegur smekkur þar stórt hlutverk, fremur en bækurnar sjálfar - en af skáldsögunum held ég gríðarlega mikið upp á
The Blind Assassin og
The Robber Bride. Sú fyrrnefnda er saga systranna Iris og Lauru Chase og gerist aðallega á fyrri hluta 20. aldar í Ontario; marglaga frásögn sem dregur smám saman fram í dagsljósið sannleikann um líf systranna tveggja. Frásagnarstíllinn er afskaplega sterkur og nákvæmur, þrátt fyrir að bókin sé hnausþykk; mig grunar að Atwood sé afar skipulagður höfundur enda nefndi hún það á masterclass sem hún hélt í ritlistarnáminu mínu í Glasgow að hún notaðist við tímaása og alls kyns skemu til að skipuleggja skáldsögurnar sínar. Skáldsögurnar hennar eru iðulega langar en samt einhvern veginn engu ofaukið.
The Blind Assassin kallast meðal annars á við gotnesku skáldsöguna enda komst ég að því á hinu alvitra alneti að sambýlismaður Atwood, rithöfundurinn Graeme Gibson, bjó til merkimiðann Southern Ontario Gothic yfir skrif í þessum dúr og telur m.a. Alice Munro tilheyra þessari undirgrein kanadískra bókmennta, en
um þá góðu skáldkonu hefur verið skrifað hér hjá Druslubókadömum. Svona merkimiðar eru oft dálítið handahófskenndir, en mér fannst þó athyglisvert að sjá staðfestingu þess að ég væri ekki bara að ímynda mér einhverja gotneska tengingu.
Mér finnast þó smásögur Atwood ekki síður skemmtilegar en skáldsögurnar.