8. desember 2008

Druslubækur og doðrantar um veröld víða

Bókmenntaáhugafólk tekur Druslubókum og doðröntum fagnandi. Frá því að síðunni var lætt óforvarendis og án nokkurrar auglýsingaherferðar í loftið, um hádegisbil í fyrradag, eru heimsóknirnar komnar á annað þúsundið. Lesendur um víða veröld, allt frá Grindavík til Buenos Aires, hafa kíkt við. Við klöppum fyrir því!

Innan skamms slást tvær konur í hóp okkar, Þórdísar og Þorgerðar, sem hafa hingað til skrifað hér. Þær eru Erna Erlingsdóttir og Æsa Guðrún Bjarnadóttir, báðar fljúgandi læsar, fluggáfaðar og hugmyndaríkar. Við hrópum húrra fyrir því!

Nú skal minnst á tvo bókmenntaviðburði þar sem tónlist kemur einnig við sögu. Sá fyrri verður á miðvikudagskvöldið kl. 20.30 í veitingahúsinu Catalinu í Hamraborg í Kópavogi. Þar verður lesið úr þremur bókum sem Vestfirska forlagið gefur út fyrir þessi jól. Guðrún Jónína Magnúsdóttir kynnir bók sína Birta – ástarsaga að vestan, Harpa Jónsdóttir les úr bók sinni Húsið – Ljósbrot frá Ísafirði og Bílddælingarnir Jón Kr. Ólafsson, söngvari og Hafliði Magnússon, rithöfundur, kynna bók Hafliða um lífshlaup Jóns Kr.; Melódíur minninganna.
Hinn viðburðurinn verður á fimmtudagskvöldið á Næsta bar í miðborg Reykjavíkur undir yfirskriftinni Bræðrafagnaður. Mér segir svo hugur að þar verði sko ekki leiðinlegt að vera.

Engin ummæli: