26. desember 2008

Gott á pakkið

Rétt fyrir jól keypti ég bókina Gott á pakkið: ævisaga Dags Sigurðarsonar, af höfundinum, viðkunnanlegum manni í gulri regnkápu. Bókina las ég seint á aðfangadagskvöld. Hún er skrifuð í dálítið furðulegum tóni, líkt og þroskað barn sé að reyna að skrifa formlegan stíl eða kannski eins og eldri manneskja sé að reyna að skrifa barnalega. Sumpart á þetta ekki illa við, Dagur Sigurðarson komst að mörgu leyti aldrei af æskuárunum, og stundum er textinn ágætur. En hitt og þetta í hugsun og orðalagi þessarar bókar er býsna einfeldningslegt og líkingarnar oft dálítið kjánalegar. Forlagið hefði átt að splæsa í einn eða tvo vandaða yfirlestra einhvers góðs ritstjóra, bókin og höfundur hefðu alveg átt það skilið því Gott á pakkið er alls ekki leiðinlegt eða gagnslaust rit þrátt fyrir augljósa galla. Bókin bætti hins vegar litlu við fyrir mig, mér finnst ég hafa heyrt eða séð flest sem þarna kemur fram áður.

Engin ummæli: